Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 540, 138. löggjafarþing 57. mál: fjarskipti (lækkun jöfnunargjalds og EES-reglur um reiki).
Lög nr. 145 28. desember 2009.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í viðeigandi stafrófsröð: Reikiþjónusta: Símtalsþjónusta, SMS-þjónusta, MMS-þjónusta og önnur gagnaflutningsþjónusta í farsímaneti sem á upphaf hjá viðskiptavini í farsímaneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farsímaneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af viðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farsímaneti rekstraraðila hér á landi.

2. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „0,65%“ í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: 0,10%.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „reikisímtal“ í 1. mgr. kemur: reikiþjónustu.
 2. Í stað orðsins „reiki“ í inngangsmálslið 2. mgr. kemur: reikiþjónustu.
 3. Á eftir orðinu „Hámarksverð“ í c-lið 2. mgr. kemur: í heild- og smásölu.
 4. Við 2. mgr. bætast fjórir stafliðir, svohljóðandi:
  1. Reglur um tímamælingar og gjaldfærslur reikisímtala.
  2. Gjaldtöku fyrir móttöku talhólfsskilaboða í reikiþjónustu.
  3. Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita reikiviðskiptavinum sínum persónubundnar upplýsingar um verð og annað tengt gagnaflutningsþjónustu í reiki.
  4. Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns og veita þeim kost á að velja efstu mörk fyrir slíka þjónustu yfir ákveðið tímabil.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lækkun jöfnunargjaldsprósentu skv. 2. gr. gildir afturvirkt frá 1. janúar 2009.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 2009.