Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1141, 138. löggjafarþing 390. mál: dómstólar (reglur um skipun dómara).
Lög nr. 45 26. maí 2010.

Lög um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum (skipun dómara).


1. gr.

     4. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
     Dómsmálaráðherra skipar fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar þeirra sem formaður nefndarinnar, og skal að minnsta kosti annar þeirra ekki vera starfandi dómari. Tilnefnir dómstólaráð þriðja nefndarmanninn en Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er fimm ár en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
     Dómnefnd skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti hæstaréttardómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur um störf nefndarinnar.
     Óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu dómsmálaráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin og verður tillaga að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram, ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar.

3. gr.

     Í stað orðanna „4. mgr. 4. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 4. gr. a.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.
  2. Í stað 3. og 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ákvæði 4. gr. a gilda að breyttu breytanda við skipun í embætti héraðsdómara.


5. gr.

     Í stað orðanna „3. og 4. mgr. 12. gr.“ í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur: 4. gr. a.

6. gr.

     3. mgr. 38. gr. laganna orðast svo:
     Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun dómnefndar skv. 3. mgr. 12. gr. laganna. Þegar skipað er í fyrsta sinn í nýja dómnefnd skv. 4. gr. a laganna skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og þannig koll af kolli svo að fimmti aðalmaðurinn ásamt varamanni sé skipaður til fimm ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.

7. gr.

     40. og 41. gr. laganna falla brott.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 2010.