Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1340, 138. löggjafarþing 645. mál: gjaldeyrismál og tollalög (flutningur rannsókna til Seðlabanka Íslands).
Lög nr. 78 23. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

1. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „nánari reglur“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og leiðbeinandi tilmæli.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Komi í ljós að aðili sem nefndur er í 2. málsl. 1. mgr. fylgir ekki reglum og leiðbeinandi tilmælum sem Seðlabanki Íslands setur um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta skv. 2. mgr. skal Seðlabankinn krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h.


3. gr.

     Í stað 1. málsl. 14. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir til að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti, að viðlögðum dagsektum skv. 15. gr. h. Að sama skapi ber að veita bankanum allar nauðsynlegar upplýsingar til hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. a laganna:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitinu“ í inngangsmálslið 2. mgr. og „Fjármálaeftirlitsins“ í 6. málsl. 3. mgr. kemur: Seðlabanka Íslands.
  3. 4. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.


5. gr.

     Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitinu“ í 1. málsl. og „Fjármálaeftirlitið“ í 3. málsl. 15. gr. b laganna kemur: Seðlabanka Íslands, og: Seðlabanki Íslands.

6. gr.

     Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitið“ í 15. gr. c laganna kemur: Seðlabanki Íslands.

7. gr.

     Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. og „Fjármálaeftirlitið“ í 2. mgr. 15. gr. d laganna kemur: Seðlabanka Íslands, og: Seðlabanki Íslands.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. e laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Í tengslum við rannsókn mála er Seðlabanka Íslands heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarkar ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Seðlabankinn getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem hann telur búa yfir upplýsingum er varða rannsókn málsins.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Telji Seðlabanki Íslands að starfsemi samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra sé stunduð án tilskilinna leyfa getur hann krafist gagna og upplýsinga sem eru nauðsynlegar til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur hann krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er honum heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem eru taldir bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
  5. Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitið“ í 3. mgr. kemur: Seðlabanki Íslands.
  6. 4. mgr. orðast svo:
  7.      Seðlabanka Íslands er heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögum þessum eða reglum sem eru settar á grundvelli þeirra eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Seðlabankans nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð sakamála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.


9. gr.

     Á eftir 15. gr. e laganna koma þrjár nýjar greinar, 15. gr. f, 15. gr. g og 15. gr. h, svohljóðandi:
     
     a. (15. gr. f.)
     Í tengslum við athuganir tiltekinna mála er Seðlabanka Íslands heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að leita til Fjármálaeftirlitsins vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsókn tiltekinna mála, eins og heimildir Fjármálaeftirlitsins leyfa.
     Seðlabankanum er heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að þær upplýsingar lúti samsvarandi þagnarskyldu í hlutaðeigandi ríki.
     
     b. (15. gr. g.)
     Seðlabanki Íslands skal athuga svo oft sem þurfa þykir hvort starfsemi aðila sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr. sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglur sem eru settar á grundvelli þeirra. Aðilum skv. 1. málsl. er skylt að veita Seðlabanka Íslands aðgang að öllum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina og Seðlabankinn telur nauðsynleg. Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telur þörf á.
     Aðilum sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr. er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti þar sem grunur leikur á að viðskiptin brjóti gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra og tilkynna Seðlabanka Íslands þegar í stað um slík viðskipti. Kanna skal bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta að því marki sem unnt er. Aðilar skv. 1. málsl. skulu láta í té allar upplýsingar sem eru taldar nauðsynlegar vegna tilkynningarinnar.
     Aðilum sem hafa leyfi til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 8. gr., stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að Seðlabanka Íslands hafi verið tilkynnt um grun skv. 2. mgr. Upplýsingagjöf aðila skv. 2. mgr. eða starfsmanna hans sem er veitt í góðri trú samkvæmt ákvæði þessu telst ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum.
     
     c. (15. gr. h.)
     Seðlabanki Íslands getur lagt dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Ákvæði þetta tekur jafnt til lögaðila sem einstaklinga. Sama gildir um aðila sem veitt geta upplýsingar í þágu athugana samkvæmt ákvæðum þessara laga. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum Seðlabankans. Dagsektir leggjast á frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
     Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila er tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
     Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabanka Íslands nema Seðlabankinn ákveði það sérstaklega.
     Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
     Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. b laganna:
  1. Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í greininni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Seðlabanka Íslands.
  2. Í stað orðsins „stofnuninni“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Seðlabankanum.
  3. Í stað orðsins „stofnunin“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Seðlabankinn.
  4. Í stað orðanna „hún hefur aflað“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: aflað hefur verið.
  5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Seðlabanki Íslands skal upplýsa Fjármálaeftirlitið um kærur til lögreglu á hendur aðilum sem falla undir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi vegna brota á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra.


11. gr.

     Á eftir 16. gr. b laganna koma tvær nýjar greinar, 16. gr. c og 16. gr. d, svohljóðandi:
     
     a. (16. gr. c.)
     Nú vill aðili ekki una ákvörðun Seðlabanka Íslands og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 15. gr. h.
     
     b. (16. gr. d.)
     Seðlabanka Íslands er heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er byggjast á lögum þessum, nema ef slík birting verður talin stefna hagsmunum gjaldeyrismarkaðarins í hættu, varðar ekki hagsmuni hans sem slíks eða veldur hlutaðeigandi aðilum tjóni sem er ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Seðlabankinn skal birta opinberlega þá stefnu sem hann fylgir við framkvæmd slíkrar birtingar.

12. gr.

     4. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

14. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

15. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. nóvember 2010“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 31. ágúst 2011.

III. KAFLI
Gildistaka.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skal Fjármálaeftirlitið endursenda til Seðlabanka Íslands öll mál, ásamt öllum gögnum, sem tilkynnt hafa verið skv. 1. mgr. 15. gr. a laga nr. 87/1992 og eru enn til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Samþykkt á Alþingi 14. júní 2010.