Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1342, 138. löggjafarþing 567. mál: loftferðir (EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 87 25. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðsins „samgönguráðherra“ í 2. mgr. 1. gr. laganna og í stað sama orðs í 2. mgr. 2. gr., c-lið 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 31. gr., 3. mgr. 32. gr., 39. gr., 3. og 4. mgr. 47. gr., 1. mgr. 56. gr., 1. mgr. 57. gr. b, 1. mgr. 57. gr. c, 1. mgr. 59. gr., 2. mgr. 64. gr., 1. mgr. 67. gr., 2. mgr. 70. gr., 73. gr., 74. gr., 5. mgr. 75. gr., 2. mgr. 76. gr., 1. og 3. málsl. 1. mgr. og 3.–5. mgr. 78. gr., 80. gr., 82. gr., 85. gr. a, 6. mgr. 131. gr., 1. mgr. 132. gr., 4. mgr. 136. gr., 137. gr., 145. gr. og 146. gr. a kemur: ráðherra.

2. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að setja nánari reglur um skráningu loftfara, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga, þar á meðal um þjóðerni, skráningarskírteini og kennispjald.

3. gr.

     B-liður 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: gilt lofthæfivottorð eða gild heimild til starfrækslu loftfars, eftir því sem við á.

4. gr.

     7. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að setja nánari reglur um lofthæfi, þ.m.t. um vottun loftfara, íhluta og búnaðar, um viðurkenningu á viðhaldsstöðvum og skilyrði hennar og um hæfniskröfur til starfsfólks á þessu sviði.

5. gr.

     Við 6. mgr. 57. gr. a laganna bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
 1. veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal um veitingu veðurþjónustu, tilnefningu og starfsleyfisskyldur þjónustuveitanda, veðurfræðilega ábyrga aðila, hæfni og getu, skipulag og stjórnun, gæðakerfi, starfsreglur, vöktun veðurs, veðurspár, veðurskeyti, veðurkort, eldvirkni og búnað til veðurmælinga á flugvöllum;
 2. fjarskiptaþjónustu flugmála í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal um eftirlit, tíðninotkun, truflanir og notkun hvers konar fjarskiptaþjónustu, samskiptakerfa og samskiptaaðferða og verklagsreglur þar að lútandi;
 3. upplýsingaþjónustu flugmála í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal um veitendur þjónustunnar, eftirlit, gæðastjórnunarkerfi, nákvæmni gagna, útgáfu flugmálaupplýsinga, gjaldtöku og tungumál.


6. gr.

     Í stað orðsins „samgönguráðuneytisins“ í 3. mgr. 70. gr. c laganna kemur: ráðherra.

7. gr.

     Síðari málsliður 3. mgr. 71. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. a laganna:
 1. Síðari málsliður 4. mgr. fellur brott.
 2. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Hafi ágreiningur orðið í notendanefnd og rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis tekið ákvörðun um gjald geta notendur farið fram á frekari rökstuðning og annan fund til frekari viðræðna. Náist ekki að sætta sjónarmið innan nefndarinnar í þeim viðræðum og rekstraraðili hefur tekið endanlega ákvörðun um gjaldið er aðilum heimilt að skjóta ágreiningi sínum til Flugmálastjórnar Íslands. Ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt þessari grein er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili sem skýtur ágreiningi til stofnunarinnar skal greiða kostnað sem af málskoti hlýst nema niðurstaðan verði honum í vil en þá ber gagnaðila að greiða kostnaðinn. Um grundvöll kostnaðar fer samkvæmt ákvæði um gjaldtöku í lögum um Flugmálastjórn Íslands.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Leyfi stofnunarinnar þarf til flugsýninga, kennsluflugs og fallhlífarstökks á sýningu eða samkomu.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Ráðherra er m.a. heimilt að setja í reglugerð ákvæði um:
  1. verndarráðstafanir sem gerðar skulu til að afstýra árekstri loftfara, öðrum flugslysum, hættum og óhagræði af loftferðum;
  2. flugsýningar, þ.m.t. umsókn um leyfi til flugsýningar, ábyrgan stjórnanda flugsýningar, stjórnanda loftfars sem tekur þátt í flugsýningu, öryggisreglur, eftirlit, upplýsingaskyldu, heimild til afturköllunar leyfis o.fl.;
  3. fallhlífarstökk, þ.m.t. um viðurkennda fallhlífarklúbba, flug með fallhlífarstökkvara, framkvæmd fallhlífarstökks, lágmarksöryggisreglur, búnað, skírteini, réttindi, fallhlífarstökk á sýningum eða samkomum, umsókn um leyfi til fallhlífarstökks, stökkstjóra, eftirlit, upplýsingaskyldu o.fl.10. gr.

     Í stað tölunnar „100.000“ í 2. og 3. mgr. 102. gr. laganna kemur: 113.100.

11. gr.

     Við 106. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Flytjendum sem fljúga til eða frá landinu eða innan Íslands er skylt að greiða bætur til farþega eða eigenda farangurs eða farms eftir atvikum, enda hafi tjón orðið vegna tafa á flutningi.
     Flytjendum er ekki skylt að greiða bætur til farþega sem orðið hefur fyrir töfum ef farþegi ferðast endurgjaldslaust eða á afsláttarverði sem ekki stendur almenningi til boða.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um bætur vegna tafa, svo sem fyrirkomulag bótagreiðslna, ferðatilhögun, upphæð bóta og aðrar úrbætur til handa farþegum eða eigendum farangurs eða farms, og eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, svo sem með upplýsingaöflun, vettvangsskoðun, heimildum til að stöðva brot og krefjast þess að látið sé af brotum, með reglugerð. Þá er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um heimild Flugmálastjórnar til að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu nauðsynlegar upplýsingar og gögn er aflað hefur verið á grundvelli þessarar greinar.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
 1. Í stað tölunnar „4.150“ í 1. mgr. kemur: 4.700.
 2. Í stað tölunnar „1.000“ í 2. mgr. kemur: 1.150.
 3. Í stað tölunnar „17“ í 3. mgr. kemur: 19.


13. gr.

     Á eftir 4. mgr. 125. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila skal tryggja að heildarverð fyrir ferð eða flutning skuli ávallt fela í sér opinber gjöld og skatta. Í söluferlinu skal heildarverð ávallt vera sýnilegt kaupanda og skulu opinber gjöld og skattar birt sérgreind frá öðrum gjöldum, kostnaði og þóknun rekstraraðilans. Valkvæður viðbótarkostnaður skal ávallt vera sýnilegur við upphaf söluferlisins.
     Óheimilt er að mismuna viðskiptavinum við upplýsingagjöf eða aðgengi að farmiðum og farmiðaverði á grundvelli þjóðernis, búsetu eða staðsetningar söluaðila.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um upplýsingagjöf vegna kostnaðar farmiða eða flutnings í reglugerð.

14. gr.

     Á eftir 126. gr. b laganna kemur ný grein, 126. gr. c, svohljóðandi:
     Telji neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Flugmálastjórnar Íslands um að hún láti málið til sín taka.
     Berist Flugmálastjórn slík kvörtun skal hún m.a. leita álits viðkomandi þjónustuveitanda á kvörtuninni, ganga úr skugga um að þær upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
     Náist ekki samkomulag skv. 2. mgr. skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun Flugmálastjórnar. Ákvörðun stofnunarinnar sætir kæru til ráðherra samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga. Flugmálastjórn er heimilt að framfylgja ákvörðunum samkvæmt þessari grein í samræmi við 136. gr.
     Gerist flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila sekur um ítrekuð brot gagnvart neytendum er Flugmálastjórn heimilt, auk þeirra úrræða sem um ræðir í 136. gr., að svipta viðkomandi aðila starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Flugmálastjórn er heimilt að birta ákvarðanir sínar á grundvelli þessa ákvæðis með opinberum hætti og nafngreina þá flugþjónustuaðila sem hlut eiga að máli.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 136. gr. laganna:
 1. 3. mgr. orðast svo:
 2.      Flugmálastjórn Íslands getur lagt dagsektir eða févíti á eftirlitsskyldan aðila sem brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af stofnuninni, þ.m.t. þeim sem teknar hafa verið samkvæmt ákvæðum 28., 84. og 140. gr. Um upphæðir dagsekta fer skv. 2. mgr. en févíti getur numið allt að 10 millj. kr. vegna hvers brots.
 3. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Flugmálastjórn er heimilt að taka ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar á eftirlitsskyldan aðila að tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA eða Flugöryggisstofnunar Evrópu enda er sú starfsemi sem tillaga um sekt grundvallast á óheimil samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.


16. gr.

     140. gr. laganna orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að taka ákvarðanir er snúa að verksviði stofnunarinnar og teknar eru á grundvelli laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Ákvarðanir stofnunarinnar hafa almennt gildi en geta einnig haft sérstakt gildi sé þeim beint að ákveðnum hópum eða einstökum aðilum. Ákvarðanir Flugmálastjórnar binda þá aðila sem þær beinast að og skulu birtar í flugmálahandbók eða á heimasíðu stofnunarinnar eftir því sem við á.
     Flugmálastjórn skal gefa út upplýsingabréf um flugmál og flugmálahandbók. Skulu allir handhafar flugrekstrarleyfa og flugkennsluleyfa, útgefinna af Flugmálastjórn, svo og þeir sem starfrækja flugvelli og flugleiðsöguþjónustu hér á landi, vera áskrifendur að útgáfum þessum. Flugmálastjórn er heimilt að fela öðrum aðila útgáfu upplýsingabréfs.
     Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands skulu vera á íslensku eða ensku eftir því sem við á. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útgáfu þeirra með reglugerð.

17. gr.

     2. mgr. 146. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skal setja reglugerð, sbr. 1. mgr., sem felur í sér innleiðingu þeirra reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins er varða stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu í íslenskan rétt.

18. gr.

     Á eftir 146. gr. c laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (146. gr. d.)
     Notast skal við alþjóðlega staðla og viðurkennda framkvæmd mælieininga við starfrækslu flugs í lofti sem og á jörðu niðri.
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að setja reglur um mælieiningar við starfrækslu flugs í lofti sem og á jörðu niðri, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal um gildissvið, almenna notkun mælieininga, leiðbeiningar, breytur, samhæfingu og birtingu.
     
     b. (146. gr. e.)
     Flugmálastjórn Íslands getur sett nánari reglur um tæknilegar útfærslur almennra krafna um flugkort, starfrækslu loftfara, skráningu þeirra og lofthæfi og umhverfisvernd.

19. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildu ákvæði 8. gr. sem tekur gildi 1. janúar 2011.

Samþykkt á Alþingi 14. júní 2010.