Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1436, 138. löggjafarþing 671. mál: tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði (ótímabundin úrræði, fyrirsvar laganna o.fl.).
Lög nr. 102 2. júlí 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Framkvæmd laga þessara heyrir undir félags- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur greiðsluaðlögun tekið til fasteignar af þeim toga sem þar um ræðir þótt skuldarinn haldi þar hvorki heimili né hafi þar skráð lögheimili ef hann er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.
  3. 2. tölul. 3. mgr. orðast svo: Krafna sem tryggðar eru með samningsveði og hvíla á skuldaranum sjálfum eða einhverjum eigenda séu þeir fleiri en einn, sbr. þó 6. mgr.
  4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Nú hvílir á fasteigninni tryggingarbréf sem veitir veðréttindi fyrir kröfum veðhafans á hendur skuldaranum eða einhverjum eigenda séu þeir fleiri en einn. Meðan á greiðsluaðlögunartíma stendur skulu þá eingöngu falla undir veðtrygginguna kröfur sem gjaldfallnar voru þegar heimild var veitt til greiðsluaðlögunar og námu þá samanlagt að hámarki þeirri fjárhæð sem tryggingarbréfið hljóðar á um.


3. gr.

     Í stað orðanna „hann á lögheimili“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: sú fasteign sem greiðsluaðlögun varðar er.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Orðin „til greiðsluaðlögunar“ í 2. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
  2. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: Ráðherra.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.
  2. Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu.


6. gr.

     Orðin „að viðbættum 10 hundraðshlutum“ í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. falla brott.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010.

Samþykkt á Alþingi 24. júní 2010.