Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 590, 139. löggjafarþing 205. mál: Orkuveita Reykjavíkur (fyrirkomulag eigendaábyrgða, EES-reglur).
Lög nr. 144 22. desember 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Hver eigandi um sig ber einfalda hlutfallslega fjárhagsábyrgð á lánaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur í réttu hlutfalli við eignarhluta hans í fyrirtækinu. Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins. Ábyrgð eigenda skal ekki nema hærra hlutfalli en 80% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er eigendaábyrgð. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt, án samþykkis eigenda hverju sinni, að taka lán til rekstrarþarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum í sama skyni. Aðrar nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda, eru háðar samþykki þeirra.
  3. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Orkuveita Reykjavíkur greiðir eigendum sínum árlegt ábyrgðargjald af þeim lánaskuldbindingum sem ábyrgð eigenda er á. Vegna lána til samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins skal ábyrgðargjald svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ábyrgðar eigenda, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ábyrgðar. Ábyrgðargjald það sem Orkuveita Reykjavíkur greiðir skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánakjörum með og án ábyrgðar eigenda og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga.
         Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga, eins og þau eru á hverjum tíma, gilda um Orkuveitu Reykjavíkur. Ábyrgð eigenda Orkuveitu Reykjavíkur verður ekki virk fyrr en að loknum gjaldþrotaskiptum fyrirtækisins.


2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð bera áfram, hvert um sig gagnvart kröfuhöfum, ótakmarkaða ábyrgð á þeim lánaskuldbindingum sem sveitarfélögin hafa stofnað til fyrir stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar 2002.
     Ábyrgðir eigenda á lánaskuldbindingum, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu eins og til þeirra er stofnað þar til þær eru að fullu efndar. Greiða ber árlega ábyrgðargjald, sbr. 1. gr., af þeim lánaskuldbindingum, svo og þar sem um er að ræða ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt rafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, frá og með gildistöku laga þessara.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2010.