Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 654, 139. löggjafarþing 79. mál: brunavarnir (Byggingarstofnun).
Lög nr. 161 28. desember 2010.

Lög um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin gilda enn fremur um björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði.
 2. Á eftir orðinu „skipum“ í 2. málsl. kemur: með haffærisskírteini.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Skilgreining hugtaksins eldvarnir verður svohljóðandi: Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða eða hindra útbreiðslu elds.
 2. Skilgreining hugtaksins mannvirki verður svohljóðandi: Hvers konar jarðfastar framkvæmdir manna, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, samgöngumannvirki, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, göngubrýr í þéttbýli og togbrautarbúnaður til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.
 3. Skilgreining hugtaksins mengunaróhapp verður svohljóðandi: Þegar bráðamengun verður og eiturefni eða önnur efni berast eða kunna að berast í umhverfið og tafarlaus úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á umhverfi, heilsu fólks eða eignum.
 4. Við bætast fjórar nýjar skilgreiningar í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
 5.       Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis, og hvers kyns óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
        Mengunartjón: Tjón eða skaði sem hlýst af mengun umhverfis, hvar sem slík mengun kann að eiga sér stað á landi og af hvers konar völdum sem hún er. Mengunartjón tekur einnig til kostnaðar vegna ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón eða frekara tjón, og til skaða sem hlýst af slíkum ráðstöfunum.
        Reykköfun: Athafnir slökkviliðs þegar loft undir þrýstingi er notað til öndunar við slökkvistarf í afmörkuðu rými eða þar sem mengunaróhapp hefur orðið.
        Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.


4. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Mannvirkjastofnun er ráðherra til aðstoðar um málefni er falla undir lög þessi, sbr. lög um mannvirki.

5. gr.

     5., 7. og 8. gr. laganna falla brott.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Brunamálastofnun“ tvívegis í greininni og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða I og II, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Mannvirkjastofnun.
 2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Að beiðni slökkviliðsstjóra getur Mannvirkjastofnun gert úttekt á brunavörnum mannvirkja í rekstri þar sem tilteknir starfsmenn eru þjálfaðir í brunavörnum og slökkvistarfi, sbr. 3. mgr. 24. gr.


7. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Mannvirkjastofnun starfrækir Brunamálaskóla sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Skólinn skal hafa umsjón með menntun slökkviliðsmanna, bóklegri og verklegri, og fræðslu þeirra í starfi. Mannvirkjastofnun er heimilt með samningi að fela menntastofnun starfrækslu Brunamálaskólans. Enn fremur er heimilt að gera samning við slökkvilið eða aðra fagaðila um framkvæmd einstakra þátta í starfsemi skólans.
     Ráðherra skipar til fjögurra ára í senn fjögurra manna fagráð, og jafnmarga menn til vara, sem er Mannvirkjastofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Félag slökkviliðsstjóra tilnefna hvert sinn fulltrúa í fagráð og skipar ráðherra formann.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Brunamálaskólans og hlutverk fagráðs.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði skal vera eitt af verkefnum slökkviliðs samkvæmt lögum þessum.
 3. 3. mgr., sem verður 4. mgr., orðast svo:
 4.      Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskröfur um tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða, svo og um vatnsöflun til slökkvistarfa. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um búnað og þjálfun slökkviliðsmanna vegna mengunaróhappa á landi og vegna björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum að fengnum tillögum Mannvirkjastofnunar og í samráði við Umhverfisstofnun.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. A-liður 1. mgr. orðast svo: framkvæma í samvinnu við byggingarfulltrúa öryggisúttekt og eftir atvikum lokaúttekt, sbr. lög um mannvirki, gefa umsagnir um brunavarnir við meðferð byggingarleyfisumsókna óski byggingarfulltrúi þess og hafa þannig eftirlit með því að nýbyggingar og lóðir fullnægi kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra er heimiluð.
 2. Orðin „í notkun“ í b-lið falla brott.
 3. 1. málsl. c-liðar 1. mgr. orðast svo: hafa, í samvinnu við byggingarfulltrúa, eftirlit með því hvort fólk tekur sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki hafi verið veitt fyrir breyttri notkun þess og grípa til viðeigandi þvingunarúrræða skv. VIII. kafla laga þessara og X. kafla laga um mannvirki ef þörf krefur.
 4. E-liður 1. mgr. orðast svo: hafa eftirlit með því að eigendur og forráðamenn mannvirkis í rekstri sinni skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í samræmi við leiðbeiningar sem Mannvirkjastofnun gefur út. Ef ljóst þykir að hætta skapist af ástandi brunavarna og eigandi eða forráðamaður mannvirkis sinnir ekki tilmælum slökkviliðsstjóra um úrbætur án ástæðulauss dráttar, eða ef um ítrekuð brot viðkomandi eiganda eða forráðamanns er að ræða, skal kæra málið til lögreglu.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Sveitarfélagi er heimilt að setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir aðkomu slökkviliðs við gerð öryggis- og lokaúttekta skv. a-lið 1. mgr. og um innheimtu þeirra. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem fram koma þau rök sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjald skal ekki vera hærra en nemur kostnaði við úttektina. Gjöldum þessum fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.


10. gr.

     Í stað orðanna „umsögn Brunamálastofnunar og samþykki sveitarstjórnar“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: samþykki Mannvirkjastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.

11. gr.

     Á undan 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. a laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Mannvirkjastofnun annast framkvæmd eldvarnaeftirlits vegna mannvirkja samkvæmt grein þessari og setur um það reglur sem hljóta skulu staðfestingu ráðherra.

12. gr.

     1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórn ræður slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri ræður annað starfslið slökkviliðsins. Í forföllum slökkviliðsstjóra er varaslökkviliðsstjóri yfirmaður slökkviliðs.

13. gr.

     Á eftir orðinu „brunavörnum“ í 4. mgr. 16. gr. laganna kemur: björgunarstörfum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Ráðherra“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: Mannvirkjastofnun.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Slökkviliðsmenn sem stunda reykköfun skulu hafa staðist læknisskoðun, þrekpróf, þolpróf og aðra mælingu líkamsástands samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
 4. 2. mgr., sem verður 3. mgr., orðast svo:
 5.      Ráðherra skal að fenginni tillögu Mannvirkjastofnunar setja reglugerð um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu, um reglubundna læknisskoðun vegna reykköfunar og um réttindi og skyldur slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna.


15. gr.

     1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku, á öllum þeim stöðum þar sem skoðunar eða eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum. Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgangi inn í íbúðarhús sem tekið hefur verið í notkun án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum úrskurði dómara.

16. gr.

     2. og 3. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
     Þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum er hverjum manni skylt að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf eða aðgerðir vegna mengunaróhapps. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds eða mengunar. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við störf sín þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum.
     Fjártjón sem hlýst af ráðstöfunum vegna eldsvoða skv. 2. mgr. telst brunatjón og skal viðkomandi vátryggingafélag bæta það sé eign brunatryggð. Sveitarstjórn greiðir kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs og vátryggingafélag greiðir ekki. Sveitarstjórn greiðir einnig kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða vegna mengunaróhapps í þeim tilvikum þegar sá sem veldur mengunaróhappi er ekki ábyrgur fyrir kostnaði við slíkar aðgerðir samkvæmt öðrum lögum.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 23. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „byggingarnefndar“ í 1. málsl. kemur: byggingarfulltrúa.
 2. 2. málsl. orðast svo: Áður en byggingarfulltrúi veitir samþykki sitt skal hann leita álits slökkviliðsstjóra.


18. gr.

     2. og 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Brunahönnun skal lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar, sé hún til staðar, að öðrum kosti byggingarfulltrúa. Byggingarnefnd eða byggingarfulltrúi skulu leita álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt.

19. gr.

     4. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
     Telji Mannvirkjastofnun að vara fullnægi ekki kröfum skv. 1. mgr. er stofnuninni heimilt að banna sölu eða afhendingu vörunnar og krefjast þess að hún verði afturkölluð og tekin af markaði. Um málsmeðferð Mannvirkjastofnunar og réttarfarsúrræði fer samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga um mannvirki.

20. gr.

     Orðin „og Löggildingarstofu“ í 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna falla brott.

21. gr.

     Við 28. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Mannvirkjastofnun getur krafið sveitarfélög nauðsynlegra upplýsinga um stöðu brunavarna og um búnað og starfsemi slökkviliða í sveitarfélaginu.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
 1. Orðin „í notkun“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott og á eftir orðunum „eldfimra efna“ í sama málslið kemur: eða vegna brota á ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
 2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
 3. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Slökkviliðsstjóri getur ákveðið að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda eða forráðamanns mannvirkis.


23. gr.

     37. gr. laganna fellur brott.

24. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna orðast svo: Mannvirkjastofnun annast úthlutun styrkja.

25. gr.

     Á eftir 38. gr. laganna kemur ný grein, 38. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Þjónustuaðilar brunavarna.
     Þeir sem bjóða þjónustu við viðhald, skoðun, áfyllingu og þrýstiprófun handslökkvitækja og reykköfunarbúnaðar skulu hafa starfsleyfi Mannvirkjastofnunar. Skilyrði til að öðlast slíkt starfsleyfi er að viðkomandi þjónustuaðili uppfylli kröfur reglugerðar sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað vegna starfseminnar og að þeir starfsmenn sem annast uppsetningu, viðhald og skoðun slíks búnaðar hafi lokið námi og staðist próf sem Mannvirkjastofnun heldur.
     Þeir sem annast uppsetningu, viðhald og þjónustu brunaviðvörunarkerfa og slökkvikerfa, svo og þeir sem annast brunaþéttingar mannvirkja, skulu hafa starfsleyfi frá Mannvirkjastofnun og skulu viðkomandi starfsmenn hafa lokið námi sem Mannvirkjastofnun viðurkennir.
     Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis skv. 1. og 2. mgr. er að sett hafi verið upp fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi vegna starfseminnar í samræmi við kröfur sem ákveðnar eru í reglugerð.
     Mannvirkjastofnun getur svipt þjónustuaðila starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef þjónustuaðili hlítir ekki fyrirmælum Mannvirkjastofnunar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari kröfur um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um veitingu starfsleyfis fyrir starfsmenn þjónustuaðila og um nám þeirra og próf.
     Mannvirkjastofnun er heimilt að innheimta gjald við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þessari grein og fyrir námskeiðshald. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem fram koma þau rök sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

26. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skulu umhverfisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hrinda af stað vinnu sem miði að því að samræma gildissvið laga nr. 75/2000, um brunavarnir, með síðari breytingum, og laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Vinnan skal miða að því að skýra ákvæði laganna, m.a. hvað varðar viðbragðsstyrk á flugvöllum, starfsleyfisskyldu þeirra og eftirlit með þeirri starfsemi. Niðurstaða þeirrar vinnu skal kynnt umhverfisnefnd Alþingis og samgöngunefnd Alþingis eigi síðar en 15. maí 2011.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2010.