Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 796, 139. löggjafarþing 431. mál: brunavarnir (mannvirki og brunahönnun).
Lög nr. 10 10. febrúar 2011.

Lög um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum (mannvirki).


1. gr.

     Skilgreining hugtaksins mannvirki í 3. gr. laganna verður svohljóðandi: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, samgöngumannvirki, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

     1. og 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Sérstök eldhætta eða hætta á mengun frá mannvirki eða lóð þess.
     Skylt er að láta fara fram sérstaka brunahönnun á mannvirki og/eða lóð þegar um er að ræða nýtt mannvirki þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Brunahönnun skal lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar, sé hún til staðar, að öðrum kosti byggingarfulltrúa. Byggingarnefnd eða byggingarfulltrúi skal leita álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt.
     Sé um að ræða lóð eða mannvirki sem þegar er byggt og er í rekstri og þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða skal slökkviliðsstjóri gera úttekt á brunavörnum þess, gera kröfu um úrbætur ef ástæða er til og leggja hana fyrir eiganda eða forráðamann. Sé brunavörnum slíks mannvirkis og lóðar í veigamiklum atriðum ábótavant getur slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi gert kröfu um að gerð sé brunahönnun á mannvirkinu.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. febrúar 2011.