Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 934, 139. löggjafarþing 60. mál: raforkulög (flutningskerfi, gjaldskrár, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 19 9. mars 2011.

Lög um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. 6. tölul. orðast svo: Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna. Skil milli virkjunar og flutningsfyrirtækis eru við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtæki á því vélaspenni, eldingavara og tengingu við tengivirki. Með sama hætti eru skil milli flutningsfyrirtækis annars vegar og dreifiveitna/stórnotenda hins vegar við útgangandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins.
 2. 17. tölul. orðast svo: Stórnotandi: Notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári.
 3. 19. tölul. orðast svo: Tekjumörk: Hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði. Þau skulu sett til fimm ára en uppfærð árlega eftir á miðað við breytingar á viðmiðum tekjumarka eins og þau eru tilgreind í 12. og 17. gr.


2. gr.

     Í stað „7 MW“ í 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 10 MW.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Lokamálsliður 1. mgr. orðast svo: Flutningsfyrirtækið skal vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi samkvæmt lögum þessum til að stunda viðskipti með raforku.
 4. 3. og 4. mgr. falla brott.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Flutningsfyrirtækið má ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum eða samkvæmt öðrum lögum. Því er þó heimilt að:
  1. reka raforkumarkað,
  2. eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða, svo fremi samkeppni sé ekki raskað,
  3. selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað, svo fremi samkeppni sé ekki raskað,
  4. að fengnu leyfi Samkeppniseftirlitsins, skv. 15. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, að eiga hlut í, ásamt öðrum, fjarskiptafélagi sem hefur það hlutverk að reka öryggisfjarskiptakerfi raforkukerfisins. Félaginu skal vera heimilt að bjóða út umframflutningsgetu, ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað.
  Fyrirtækinu ber að halda reikningum vegna þeirrar starfsemi sem getið er í a–c-lið aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi í bókhaldi. Um bókhaldslegan aðskilnað fer að öðru leyti skv. 41. gr. Stjórn flutningsfyrirtækisins skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku.
 7. Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: um stofnun flutningsfyrirtækisins.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „ef reisa á línur“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fyrir nýjum raflínum.
 2. Í stað tilvísunarinnar „12. gr.“ í 1. tölul. 3. mgr. kemur: 12. gr. a.
 3. Við 3. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiða þeim dreifiveitum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforkuafhendingu. Kveðið skal á um fjárhæð bóta og bótaskyld tilvik í reglugerð.


5. gr.

     2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Í sérstökum tilvikum má sækja um leyfi ráðherra til að reisa sjálfstætt flutningsvirki og flytja raforku beint frá virkjun til notanda, enda tengist hvorki virkjun né notandi flutningskerfinu beint eða um dreifiveitu. Leita skal umsagnar flutningsfyrirtækis og eftir atvikum viðkomandi dreifiveitu varðandi slíkar tengingar áður en leyfi er veitt.

6. gr.

     12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tekjumörk flutningsfyrirtækisins.
     Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri flutningsfyrirtækisins og tryggja að tekjur þess séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem því er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi. Til að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri flutningsfyrirtækisins eru tekjumörk afmörkuð í tímabil, tekjumarkatímabil.
     Orkustofnun setur flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku. Tekjumörk skulu vera tvískipt, þ.e. vegna flutnings á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Tekjumörk skulu ákveðin fyrir fram til fimm ára í senn og uppfærð árlega miðað við breytingar á viðmiðum sem tilgreind eru í 3. mgr. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna reksturs og fjárfestinga vegna flutnings til dreifiveitna annars vegar og til stórnotenda hins vegar. Starfsemi flutningsfyrirtækisins skv. 5. mgr. 8. gr., sem ekki er nauðsynleg vegna rekstursins, er undanskilin við ákvörðun tekjumarka. Sama gildir um orkukaup vegna tapa í flutningskerfinu og aðföng vegna kerfisþjónustu.
     Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
 1. Rekstrarkostnaði sem tengist flutningsstarfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun. Við ákvörðun rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til meðalrekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og áhrifa nýrra stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað flutningsfyrirtækisins. Þegar stórar fjárfestingar bætast við fastafjármuni flutningsfyrirtækisins skal skipting rekstrarkostnaðar milli tekjumarka annars vegar fyrir stórnotendur og hins vegar fyrir dreifiveitur uppfærð. Við setningu nýrra tekjumarka skal liggja fyrir endurskoðuð skipting rekstrarkostnaðar á milli stórnotenda og dreifiveitna.
 2. Arðsemi flutningsfyrirtækisins af flutningsstarfsemi skal vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði, að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Arðsemi til grundvallar tekjumörkum skal vera jöfn hlutfalli milli annars vegar hagnaðar fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld en að frádregnum sköttum (EBIT að frádregnum sköttum) og hins vegar bókfærðs virðis fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs flutningskerfisins auk 20% af tekjumörkum síðasta árs til að mæta kostnaði af veltufjármunum. Við mat á vegnum fjármagnskostnaði skal m.a. taka tillit til rekstraráhættu flutningsfyrirtækisins. Kveða skal nánar á um mat á vegnum fjármagnskostnaði í reglugerð. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir voru 31. desember 2004 og miðast við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum sem hafa komið til eftir þann tíma eða síðar kunna að koma til, afskriftum þeirra og endurmati eins og það er á hverjum tíma. Stærri fjárfestingar skulu teljast til fastafjármuna frá þeim tíma sem þær fara í notkun en minni fjárfestingar skulu taldar til fastafjármuna frá þeim tíma sem fjárfestingin á sér stað. Eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju skal vera í bandaríkjadölum. Eignir sem voru í eignagrunni 31. júlí 2007 skulu metnar miðað við virði og gengi þann dag. Þegar eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju er færður í krónur við uppgjör tekjumarka skal miðað við meðalgengi bandaríkjadals fyrir uppgjörsárið. Skipting eignastofns á milli tekjumarka annars vegar fyrir stórnotendur og hins vegar fyrir dreifiveitur skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Á grundvelli þessa töluliðar skal arðsemi ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila. Við mat hinna sérfróðu aðila ber þeim að hafa samráð við framleiðendur raforku, neytendur, stórnotendur, dreifiveitur og Landsnet.
 3. Afskriftum af fastafjármunum, sbr. 2. tölul.
 4. Sköttum.

     Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri flutningsfyrirtækisins með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja flutningsfyrirtækinu hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil, að fengnu mati sérfróðra aðila, eftir að flutningsfyrirtækinu hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar fyrirætlanir. Slík hagræðingarkrafa skal byggjast á sjónarmiðum sem byggt er á í sambærilegum rekstri um hvað telst skilvirkni í rekstri, studd af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun skal tilkynna flutningsfyrirtækinu með tveggja mánaða fyrirvara ef framkvæma á slíkt mat og skal því lokið eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir upphaf viðkomandi tekjumarkatímabils.
     Eigi síðar en 15. september árið áður en ný tekjumörk taka gildi skal Orkustofnun setja tekjumörk fyrir flutningsfyrirtækið fyrir næsta tekjumarkatímabil.
     Eigi síðar en 1. maí ár hvert skal flutningsfyrirtækið skila Orkustofnun rekstrarupplýsingum vegna fyrra árs. Eigi síðar en 1. ágúst ár hvert skal Orkustofnun skila uppfærðum tekjumörkum og uppgjöri vegna fyrra árs til flutningsfyrirtækisins sem og viðeigandi rökstuðningi fyrir breytingum ef einhverjar eru. Í uppgjöri tekjumarka við lok hvers árs skulu bornar saman rauntekjur og uppfærð tekjumörk ársins.
     Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka en uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur skulu aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.
     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörkin, m.a. um setningu þeirra og uppgjör, afskriftareglur, arðsemismarkmið, útreikning vegins fjármagnskostnaðar, mat fastafjármuna, skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar, kröfur um hagræðingu og um mat sérfróðra aðila skv. 2. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla, auk annarra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

7. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.
     Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 12. gr. Gjaldskráin skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda sem skal ákvörðuð í bandaríkjadölum.
     Byggt skal á því að verðlagning flutningsfyrirtækisins vegna flutnings til dreifiveitna sé í samræmi við meðalkostnað að teknu tilliti til sjónarmiða um arðsemi. Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum, sbr. 6. tölul. 3. gr., skal miðast við að raforka sé afhent á 66 kV spennu. Ef orka frá flutningskerfi er afhent til dreifiveitna á hærri spennu ber að lækka gjaldtöku með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til afhendingaröryggis við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum. Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðisins auk þess sem móttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins, sbr. þó 3. mgr. Ekki skal greitt af notkun í einangruðum kerfum innan dreifiveitusvæða sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið.
     Greiða skal úttektargjald til flutningsfyrirtækisins vegna framleiðslu virkjana sem tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu sem hér segir:
 1. Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1,42 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
 2. Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1,42–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 60% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
 3. Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–10 MW skal greiða 60% fulls úttektargjalds.

     Varaaflsstöðvar sem eru nýttar þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.
     Sé orka afhent beint til stórnotenda, frá virkjun sem nýtur tengingar við flutningskerfið, án þess að orkan fari um flutningskerfið og án þess að flutningskerfið taki þátt í kostnaði við tengingu notandans skal greiðsla úttektargjalds til flutningskerfis nema 60% af úttektargjaldi til stórnotenda. Heimilt er að veita frekari afslátt af úttektargjaldi ef úttekt stórnotandans er alfarið háð því að orkan komi frá virkjuninni. Í öllum tilvikum skal greiða fyrir kerfisþjónustu samkvæmt gildandi gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.
     Notandi sem í framleiðslu sinni er algjörlega háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en aðeins raforku getur óskað heimildar til beinnar tengingar við virkjunina skv. 5. gr. enda þótt hann nái ekki stórnotendaviðmiðinu. Gjald fyrir úttekt þessa fer skv. 5. mgr.
     Flutningsfyrirtækinu er heimilt að afhenda raforku til stórnotenda á 66 kV eða lægri spennu enda standi sérstök gjaldtaka undir viðbótarkostnaði.
     Flutningsfyrirtækið skal einnig setja gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu og töp í flutningskerfinu sem tekur mið af kostnaði ásamt hæfilegri þóknun.
     Eigi síðar en sex vikum fyrir fyrirhugaða gildistöku skal gjaldskrá flutningsfyrirtækisins send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan þriggja vikna frá móttöku. Gjaldskráin tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrána opinberlega.
     Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.
     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá auk þeirra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

8. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó er flutningsfyrirtæki heimilt að flytja/dreifa rafmagni á sérleyfissvæði dreifiveitu til stórnotenda sem fá raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV.

9. gr.

     Við 3. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiða þeim notendum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforkuafhendingu. Kveðið skal á um fjárhæð bóta og bótaskyld tilvik í reglugerð.

10. gr.

     17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tekjumörk dreifiveitna.
     Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri dreifiveitna og tryggja að tekjur þeirra séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem þeim er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi. Til að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri dreifiveitu eru tekjumörk afmörkuð í tímabil, tekjumarkatímabil.
     Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 2. mgr. 17. gr. a, skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar. Tekjumörk skulu ákveðin fyrir fram til fimm ára í senn og uppfærð árlega miðað við breytingar á grunnforsendum. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna reksturs og fjárfestinga.
     Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
 1. Rekstrarkostnaði sem tengist dreifingu fyrirtækisins á rafmagni, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu. Við ákvörðun rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til rekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og áhrifa nýrra stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað dreififyrirtækisins.
 2. Arðsemi dreifiveitu af dreifingu raforku skal vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði, að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Arðsemi til grundvallar tekjumörkum skal vera jöfn hlutfalli milli annars vegar hagnaðar fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld en að frádregnum sköttum (EBIT að frádregnum sköttum) og hins vegar bókfærðs virðis fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs dreifiveitunnar auk 20% af tekjumörkum síðasta árs til að mæta kostnaði af veltufjármunum. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir voru 31. desember 2004 og miðast við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum sem hafa komið til eftir þann tíma eða síðar kunna að koma til, afskriftum þeirra og endurmati eins og það er á hverjum tíma. Fjárfestingar skulu teljast til fastafjármuna frá þeim tíma sem fjárfestingin á sér stað. Á grundvelli þessa töluliðar skal arðsemi ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila.
 3. Afskriftum af fastafjármunum, sbr. 2. tölul.
 4. Sköttum.

     Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri dreifiveitu með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja viðkomandi dreifiveitu hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil, að fengnu mati sérfróðra aðila, eftir að dreifiveitunni hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar fyrirætlanir. Slík hagræðingarkrafa skal byggjast á sjónarmiðum sem byggt er á í sambærilegum rekstri um hvað telst skilvirkni, studd af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun skal tilkynna dreifiveitunni með tveggja mánaða fyrirvara ef framkvæma á slíkt mat og skal því lokið eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir upphaf viðkomandi tekjumarkatímabils.
     Eigi síðar en 15. september árið áður en ný tekjumörk taka gildi skal Orkustofnun setja tekjumörk fyrir dreifiveitur fyrir næsta tekjumarkatímabil.
     Eigi síðar en 1. maí ár hvert skal hver dreifiveita skila Orkustofnun rekstrarupplýsingum vegna fyrra árs. Eigi síðar en 1. september ár hvert skal Orkustofnun skila uppfærðum tekjumörkum og uppgjöri vegna fyrra árs til viðkomandi dreifiveitu sem og viðeigandi rökstuðningi fyrir breytingum ef einhverjar eru. Í uppgjöri tekjumarka við lok hvers árs skulu bornar saman rauntekjur og uppfærð tekjumörk ársins.
     Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka en uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur skulu aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.
     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörkin, m.a. um setningu þeirra og uppgjör, afskriftareglur, arðsemismarkmið, útreikning vegins fjármagnskostnaðar, mat fastafjármuna, skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar, kröfur um hagræðingu, gæði dreifiveitu og um mat sérfróðra aðila skv. 2. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla, auk annarra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

11. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gjaldskrá dreifiveitna.
     Hver dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 17. gr. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230–400 V spennu. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu.
     Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Það er skilyrði fyrir heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskrár að notkun á viðkomandi dreifbýlissvæði sé a.m.k. 5% af heildarnotkun dreifiveitusvæðisins. Með umsókn um skiptingu gjaldskrár skulu fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun svæða, landnotkun og fjölda íbúa á viðkomandi svæði, auk gagna sem sýna fram á að kostnaður við dreifingu til notenda á svæðinu sé hærri en til annarra.
     Eigi síðar en fjórum vikum fyrir fyrirhugaða gildistöku skal gjaldskrá dreifiveitu send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við dreifiveitu innan tveggja vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveita skal birta gjaldskrána opinberlega.
     Dreifiveitu er skylt að greiða virkjun sem tengist henni og er undir 3,1 MW þann ávinning, að hluta eða að fullu, sem felst í því að þurfa ekki að greiða úttektargjald að fullu til flutningskerfisins, sbr. ákvæði 3. mgr. 12. gr. a, með eftirfarandi hætti:
 1. Greiða skal virkjun undir 0,3 MW að fullu hreinan ávinning veitunnar af niðurfellingu úttektargjaldsins.
 2. Fyrir virkjun sem er 0,3–3,1 MW skal minnka greiðsluna hlutfallslega þar til ekkert er greitt sé virkjunin 3,1 MW eða stærri.

     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá auk þeirra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

12. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Leyfi til að reka raforkumarkað.
     Leyfi ráðherra þarf til þess að reka raforkumarkað. Slíkt leyfi felur hvorki í sér sérleyfi né önnur sérréttindi til handa leyfishafa. Leyfi verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila. Umsækjandi skal sýna fram á fjárhagslegan styrkleika og þekkingu á raforkumarkaði til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar. Nánar skal kveðið á um skilyrði leyfisveitingar og starfsemi raforkumarkaðar í reglugerð.

13. gr.

     Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitið.

14. gr.

     Í stað orðsins „Samkeppnisstofnunar“ í fyrirsögn 27. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitsins.

15. gr.

     Í stað orðanna „og 1. mgr. 18. gr.“ í 32. gr. laganna kemur: 1. mgr. 18. gr. og 18. gr. a.

16. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I, III–XI, XIV og XV í lögunum falla brott.

17. gr.

     Viðauki við lögin, Afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfi skv. 6. tölul. 3. gr., fellur brott.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 3. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2015 og ákvæði 6., 7., 10. og 11. gr. ná til setningar tekjumarka frá og með árinu 2011.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu.
     Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.

II.
     Ef uppsafnaðar ofteknar tekjur nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum í árslok 2010 skal flutningsfyrirtækið eða dreifiveita eftir því sem við á setja gjaldskrá sína ár hvert frá og með árinu 2011 og þar til hlutfallið er komið undir 10% þannig að hlutfall uppsafnaðra oftekinna tekna lækki. Skulu uppsafnaðar ofteknar tekjur ekki nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum við lok árs 2020. Ef uppsafnaðar vanteknar tekjur nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum í árslok 2010 er heimilt að setja gjaldskrá þannig að hlutfallið lækki niður fyrir 10% fyrir lok árs 2020, þó þannig að tekjur hvers árs fari ekki meira en 3% fram úr uppfærðum tekjumörkum þess árs af þessum orsökum. Uppsafnaðar ofteknar tekjur í árslok 2010 skulu færðar í bandaríkjadali miðað við gengi þess dags þegar samtala oftekinna tekna liggur fyrir.

Samþykkt á Alþingi 1. mars 2011.