Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1048, 139. löggjafarþing 557. mál: framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna (verksvið landskjörstjórnar).
Lög nr. 23 15. mars 2011.

Lög um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.


1. gr.

     Orðin „sveitarstjórna eða“ í 3. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana og ónotaða og ónýtta kjörseðla í þeim umbúðum er segir í lögum um kosningar til Alþingis. Á áður auglýstum stað og stund opnar yfirkjörstjórn atkvæðakassana og fer síðan fram talning atkvæða á sama hátt og segir í lögum um kosningar til Alþingis. Um það hvort kjörseðill telst gildur eða ekki og um meðferð ágreiningsseðla fer samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.
     Landskjörstjórn skipar umboðsmenn í hverju kjördæmi sem hafa það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála.

3. gr.

     1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn landskjörstjórn eftirrit af gerðabók sinni ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórnar. Þegar landskjörstjórn hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til fundar til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að umboðsmönnum gefist færi á að vera viðstaddir. Að því loknu tilkynnir landskjörstjórn ráðuneytinu um niðurstöður sínar.

4. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni.

5. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.
     Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2011.