Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1585, 139. löggjafarþing 864. mál: innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (iðgjald til sjálfstæðrar deildar Tryggingarsjóðs).
Lög nr. 55 31. maí 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. skulu innlánsstofnanir greiða iðgjald á árinu 2011 til sjálfstæðrar deildar sjóðsins samkvæmt því sem kveðið er á um í ákvæði þessu.
     Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 3. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 4. mgr. og renna í hina sjálfstæðu deild sjóðsins. Um ráðstöfun fjár úr deildinni skal fara samkvæmt lögum.
     Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum, eins og þær eru skilgreindar í 14. mgr., hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd skv. 15. mgr. eða 0,075% á ársfjórðungslegum gjalddaga. Fyrsti gjalddagi almenns iðgjalds vegna fyrsta og annars ársfjórðungs 2011 skal vera 1. september 2011.
     Auk iðgjalds skv. 3. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 3. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir. Fyrsti gjalddagi áhættuvegins iðgjalds er 1. september 2011 fyrir annan ársfjórðung 2011.
     Gjalddagi fyrir þriðja ársfjórðung er 1. nóvember 2011 og gjalddagi fyrir fjórða ársfjórðung er 1. mars 2012.
     Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber sjóðnum að innheimta viðbótariðgjald til deildarinnar ef eign hennar dugir ekki til að standa undir greiðslu þegar greiðsluskylda sjóðsins verður virk. Einnig er sjóðnum heimilt að innheimta viðbótariðgjöld til að standa straum af kostnaði, afborgunum og greiðslum vaxta af lánum. Iðgjald samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei vera hærra en nemur 0,6% af tryggðum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun.
     Iðgjöld eru óendurkræf.
     Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 3.–4. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
     Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 8. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 3.–4. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
     Iðgjöld skulu greidd í krónum og sama á við um greiðslur úr deildinni.
     Greiði innlánsstofnun sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum sem tilgreindir eru í 3.–5. mgr. leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins.
     Verði vanskil á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar er stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
     Sé innlánsstofnun svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskast ekki hagsmunir þeirra sem njóta tryggingaverndar.
     Með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.
     Eftirfarandi innstæður njóta ekki verndar samkvæmt lögum þessum:
  1. innstæður í eigu fjármálafyrirtækja,
  2. innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
  3. innstæður fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi,
  4. innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
  5. innstæður rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði,
  6. innstæður félaga í sömu samsteypu og þau sem falla undir 1. tölul.,
  7. innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
  8. innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun.

     Takmarkanir á tryggingavernd skv. 15. mgr. raska ekki rétthæð innstæðna í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð innlánsstofnunar skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.

2. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2011.