Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1764, 139. löggjafarþing 710. mál: losun gróðurhúsalofttegunda (viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ESB-reglur).
Lög nr. 64 15. júní 2011.

Lög um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda (viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laganna er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi á hagkvæman og skilvirkan hátt og að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Lögin gilda um skráningu og bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda á landi og í mengunarlögsögu Íslands og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, svo og heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda frá tilteknum atvinnurekstri skv. I. og II. viðauka og flugstarfsemi skv. III. viðauka.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. 5. tölul. orðast svo: Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíð-ígildi á ári. Eitt tonn af koldíoxíð-ígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hlýnunarmátt, sbr. töflu í IV. viðauka.
 2. Við greinina bætast sex nýir töluliðir, 6.–11. tölul., svohljóðandi:
  1. Aðili: Einstaklingur eða lögaðili.
  2. Flugrekandi: Aðili sem rekur loftfar og notar það til að stunda flugstarfsemi sem tilgreind er í III. viðauka eða, ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda loftfars, eigandi loftfarsins.
  3. Losunarleyfi: Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda sem atvinnurekstri skv. II. viðauka ber að hafa til þess að geta sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum fyrir tímabilið 2013–2020.
  4. Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
  5. Tonnkílómetrar: Flugvegalengd margfölduð með þyngd farms. Með flugvegalengd er átt við stórbaugslengd (e. great circle distance) milli brottfararflugvallar og komuflugvallar auk 95 km staðlaðrar viðbótar. Með þyngd farms er átt við samanlagða þyngd þess sem flutt er af farmi, pósti og farþegum.
  6. Umsjónarríki: Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem ber ábyrgð á framkvæmd tilskipunar 2008/101/EB gagnvart flugrekanda.


4. gr.

     3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisstofnun fer með framkvæmd laga þessara, þar með talið bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda, skráningarkerfi, leyfisveitingar og eftirlit með losun koldíoxíðs frá atvinnurekstri skv. I. og II. viðauka og flugrekendum skv. III. viðauka. Umhverfisstofnun fer einnig með úthlutun losunarheimilda til flugrekenda skv. III. viðauka. Umhverfisstofnun skal vera úthlutunarnefndinni, sbr. 2. mgr., til ráðgjafar varðandi umsóknir um losunarheimildir og um annað sem nefndin óskar aðstoðar við.

5. gr.

     2. og 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Skráningarkerfið heldur utan um útgáfu, handhöfn, framsal og ógildingu losunarheimilda atvinnurekstrar skv. I. og II. viðauka, flugrekenda skv. III. viðauka og annarra aðila. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um nánari útfærslu á skráningarkerfinu, skilyrði fyrir stofnun reiknings í kerfinu, hvaða upplýsingar skuli skráðar í kerfið, um samvinnu og samtengingu við önnur kerfi, rekstur kerfisins og hvernig farið skuli með útgáfu, handhöfn, flutning, ógildingu og afskráningu losunarheimilda.
     Frá 1. janúar 2012 er hverjum þeim aðila sem uppfyllir sett skilyrði heimilt að stofna reikning í skráningarkerfinu og eiga losunarheimildir. Aðilum er heimilt að flytja losunarheimildir sínar á aðra reikninga í skráningarkerfum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Aðili getur hvenær sem er krafist þess að losunarheimildir á reikningi hans verði ógiltar. Þetta á þó ekki við um losunarheimildir sem atvinnurekstri skv. I. viðauka er úthlutað fyrir árin 2008–2012.

6. gr.

     Á undan 7. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Losunarleyfi atvinnurekstrar.
     Rekstraraðilar er stunda starfsemi sem getið er í II. viðauka skulu hafa losunarleyfi. Losunarleyfi er forsenda þess að atvinnurekstur geti sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum fyrir tímabilið 2013–2020. Sækja ber um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gefur út losunarleyfi innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst ef sýnt þykir að atvinnurekstur sé fær um að vakta losun frá starfsemi sinni og gefa um hana skýrslu skv. 13. gr.
     Í umsókn um losunarleyfi skal koma fram lýsing á eftirfarandi atriðum:
 1. starfsstöð og starfsemi rekstraraðila, þar á meðal þeirri tækni sem notuð er,
 2. hráefnum og hjálparefnum sem notuð eru í starfseminni og má ætla að valdi losun gróðurhúsalofttegunda,
 3. uppsprettum gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð,
 4. áætlun rekstraraðila um vöktun losunar og skýrslugjöf um hana, sbr. 13. gr.
Umsóknin skal jafnframt hafa að geyma lýsingu á almennu máli um þau atriði sem getið er í þessari málsgrein.
     Í losunarleyfinu skal eftirfarandi koma fram:
 1. nafn og heimilisfang rekstraraðila,
 2. lýsing á starfsemi og losun frá henni,
 3. skilyrði um vöktun, þ.m.t. aðferðafræði og tíðni vöktunar,
 4. skilyrði um skýrsluskil,
 5. ákvæði um skyldu til að skila losunarheimildum, öðrum en losunarheimildum sem gefnar eru út vegna flugstarfsemi. Skila skal losunarheimildum í samræmi við losun starfseminnar, fyrir hvert almanaksár, eins og hún hefur verið vottuð af til þess bærum aðilum. Skila skal losunarheimildum innan fjögurra mánaða frá lokum viðkomandi almanaksárs.

     Endurskoða skal losunarleyfi á fimm ára fresti hið minnsta. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um vöktunaráætlun vegna losunarleyfa og þau skilyrði sem hún þarf að uppfylla.

7. gr.

     Á eftir III. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, III. kafli A, Losunarheimildir flugrekenda, með fimm nýjum greinum, 14. gr. a – 14. gr. e, og III. kafli B, Gjaldtaka, með einni nýrri grein, 14. gr. f, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (14. gr. a.)
Gildissvið kaflans.
     Þessi kafli gildir um flugrekendur sem stunda flugstarfsemi sem getið er í III. viðauka, að því gefnu að viðkomandi starfsemi feli í sér lendingu eða flugtak á Evrópska efnahagssvæðinu. Kaflinn gildir þó eingöngu um flugrekanda ef Ísland telst umsjónarríki hans í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal mælt fyrir um niðurröðun flugrekenda á umsjónarríki í samræmi við lista sem gefinn er út árlega af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
     
     b. (14. gr. b.)
Skylda flugrekenda til að skila inn losunarheimildum.
     Flugrekendur skulu fyrir 30. apríl ár hvert standa skil á losunarheimildum í samræmi við losun frá viðkomandi flugstarfsemi á undanfarandi almanaksári samkvæmt skýrslu skv. 2. mgr. 14. gr. e.
     Flugrekendum er heimilt að efna skyldur sínar skv. 1. mgr. með losunarheimildum sem hefur verið úthlutað eða hafa verið seldar á uppboði í samræmi við tilskipun 2003/87/EB.
     
     c. (14. gr. c.)
Úthlutun losunarheimilda til flugrekenda undir umsjón íslenska ríkisins.
     Á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 og á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 verður losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust til flugrekenda í samræmi við árangursviðmið sem ráðherra skal ákveða með reglugerð fyrir 31. desember 2011. Ákvæði þeirrar reglugerðar skulu vera í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um árangursviðmið fyrir flugstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 verður tilteknum fjölda losunarheimilda úthlutað endurgjaldslaust til flugrekenda sem hefja flugstarfsemi sem getið er í III. viðauka að loknu árinu 2010 og þeirra flugrekenda sem aukið hafa starfsemi sína í tonnkílómetrum að meðaltali um meira en 18% á ári frá árinu 2010 til ársins 2015. Úthlutun samkvæmt þessari málsgrein skal byggjast á árangursviðmiði sem ráðherra ákveður í reglugerð í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um árangursviðmið fyrir flugstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Umsóknir um losunarheimildir skv. 1. mgr. skal senda Umhverfisstofnun fyrir 15. júní 2011. Umsóknir um losunarheimildir skv. 2. mgr. skal senda Umhverfisstofnun fyrir 30. júní 2015. Umhverfisstofnun skal taka afstöðu til umsókna innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi ákvörðun EES-nefndarinnar um árangursviðmið fyrir flugstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu er tekin. Ráðherra setur reglugerð með nánari ákvæðum um form og efni umsókna, þar á meðal um hvaða upplýsingar skulu fylgja umsókn, og um málsmeðferð við afgreiðslu Umhverfisstofnunar á umsóknum.
     Umhverfisstofnun úthlutar losunarheimildum fyrir 28. febrúar 2012 og eftir það fyrir 28. febrúar ár hvert á reikning viðkomandi flugrekenda í skráningarkerfinu.
     
     d. (14. gr. d.)
Uppboð losunarheimilda.
     Íslenska ríkið skal á hverju ári frá árinu 2012 bjóða upp losunarheimildir flugrekstrar í samræmi við heimildir sínar samkvæmt EES-samningnum. Ráðherra setur reglugerð um hve margar losunarheimildir verða boðnar upp af íslenska ríkinu og um tilhögun uppboðsins.
     
     e. (14. gr. e.)
Eftirlitsáætlanir, vöktun og skýrslugerð.
     Flugrekendur skulu útbúa eftirlitsáætlanir þar sem fram kemur hvernig vöktun og skýrslugerð um losun koldíoxíðs og tonnkílómetra verður háttað. Senda ber Umhverfisstofnun eftirlitsáætlanir í síðasta lagi fjórum mánuðum fyrir upphaf þess árs sem flugrekandi hyggst hefja starfsemi sem getið er í III. viðauka. Umhverfisstofnun fer yfir eftirlitsáætlanir flugrekenda í samráði við Flugmálastjórn ef þörf er á. Ef eftirlitsáætlanir uppfylla skilyrði laga þessara og reglugerðar skv. 3. mgr. ber Umhverfisstofnun að staðfesta þær innan þriggja mánaða frá því að þær berast.
     Flugrekendur skulu í síðasta lagi 31. mars ár hvert skila skýrslu um losun koldíoxíðs til Umhverfisstofnunar. Skýrslan skal vottuð af óháðum aðila sem til þess er bær í samræmi við reglugerð skv. 3. mgr. Ef skýrsla flugrekanda hefur ekki verið vottuð á fullnægjandi hátt hinn 31. mars skal Umhverfisstofnun koma í veg fyrir hvers konar aðgerðir á reikningi viðkomandi flugrekanda í skráningarkerfinu skv. 6. gr. þar til fullnægjandi skýrslu hefur verið skilað.
     Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar reglugerð með nánari ákvæðum um efni og form eftirlitsáætlana skv. 1. mgr., uppfærslu þeirra og reglulega endurskoðun, auk ákvæða um efni og form skýrslna um losun koldíoxíðs skv. 2. mgr. Í reglugerðinni skal gerð krafa um að skýrsla um losun koldíoxíðs sé vottuð af óháðum aðila sem er til þess bær samkvæmt lögum þessum.
     
     f. (14. gr. f.)
Gjaldtaka.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir eftirfarandi:
 1. Yfirferð yfir skýrslu atvinnurekstrar um losun koldíoxíðs og afgreiðslu umsókna um losunarleyfi atvinnurekstrar.
 2. Afgreiðslu umsókna flugrekenda um losunarheimildir, staðfestingu eftirlitsáætlana flugrekenda og yfirferð yfir skýrslu flugrekenda um losun koldíoxíðs.
 3. Gjald sem atvinnurekstur, flugrekendur og aðrir aðilar sem eiga reikning í skráningarkerfinu skv. 6. gr. skulu greiða.

     Upphæð gjalda samkvæmt þessari grein skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggjast á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalda byggist á og mega gjöldin ekki vera hærri en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld þessi má innheimta með fjárnámi.

8. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisstofnun leggur stjórnvaldssektir á atvinnurekstur og flugrekendur sem er skylt að eiga losunarheimildir og hafa ekki lagt inn nægjanlegar heimildir á lokareikning fyrir 1. maí hvert ár vegna næstliðins árs. Skal sektin nema sem svarar 100 evrum í íslenskum krónum vegna hverrar losunarheimildar sem upp á vantar í samræmi við skýrslu um losun koldíoxíðs frá atvinnurekstri þess árs, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Sektir samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð.
     Umhverfisstofnun er heimilt að ákvarða sektir allt að 100.000 kr. á dag ef atvinnurekstur sinnir ekki skyldu um skil á skýrslu skv. 13. gr. eða ef flugrekandi sinnir ekki skyldu um skil á skýrslu skv. 14. gr. e.

9. gr.

     Við lögin bætast fimm ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Starfandi atvinnurekstur sem fellur undir lög þessi skv. II. viðauka skal sækja um losunarleyfi skv. 6. gr. a í síðasta lagi 15. júní 2011.
     
     b. (II.)
     Starfandi flugrekendur sem falla undir lög þessi skulu í síðasta lagi 15. júní 2011 skila skýrslu um losun koldíoxíðs til Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 14. gr. e.
     
     c. (III.)
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð heimild til undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 14. gr. e að því er varðar frest til að senda Umhverfisstofnun eftirlitsáætlanir og skýrslu um losun koldíoxíðs. Eingöngu skal heimilt að veita slíka undanþágu í tilvikum þar sem flugrekandi hefur ekki sinnt skyldu varðandi eftirlitsáætlanir og skýrsluskil vegna atvika eða ástæðna sem ekki eru á hans valdi eða vegna atvika sem upp komu fyrir setningu laga þessara.
     
     d. (IV.)
     Ef flugrekandi sem fellur undir umsjón íslenska ríkisins hefur sent lögbæru yfirvaldi annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eftirlitsáætlanir og þær hafa hlotið staðfestingu í samræmi við ákvæði tilskipunar 2003/87/EB, með síðari breytingum, fyrir 31. desember 2010 skal Umhverfisstofnun staðfesta slíkar áætlanir. Er flugrekanda þá ekki skylt að skila áætlun skv. 14. gr. e. Flugrekandi sem sendi eftirlitsáætlun, skv. 1. mgr. 14. gr. e, til lögbærs yfirvalds annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu árið 2010 skal einnig senda skýrslu um losun fyrir árið 2010, skv. 2. mgr. 14. gr. e, og umsókn um losunarheimildir, skv. 3. mgr. 14. gr. e, til þess sama stjórnvalds árið 2011.
     
     e. (V.)
     Til 31. desember 2012 telst losunarheimild vera heimild til losunar koldíoxíðs. Ein losunarheimild jafngildir því heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíði á ári.

10. gr.

     Við lögin bætast fjórir nýir viðaukar, I.–IV. viðauki, svohljóðandi:
     
     a. (I. viðauki.)
Starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2012.
     Eftirfarandi atvinnurekstur er óheimill á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hann hafi aflað sér losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig hann muni afla sér losunarheimilda vegna tímabilsins í samræmi við lög þessi:
     
Starfsemi Gróðurhúsalofttegund
a. staðbundin orkuframleiðsla með brennslu jarðefnaeldsneytis sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega. Koldíoxíð
b. staðbundin iðnaðarframleiðsla sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega. Koldíoxíð

     
     b. (II. viðauki.)
Starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 1. janúar 2013 – 31. desember 2020.
     Eftirfarandi atvinnurekstur fellur undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda frá og með 1. janúar 2013 og ber að afla losunarleyfis í samræmi við lög þessi:
     
Starfsemi Gróðurhúsalofttegundir
Bruni eldsneytis í stöðvum með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW (að undanskildum stöðvum til brennslu á hættulegum úrgangi eða sorpi). Koldíoxíð
Hreinsun jarðolíu. Koldíoxíð
Framleiðsla á koksi. Koldíoxíð
Brennsla eða glæðing, einnig kögglun, málmgrýtis (þ.m.t. brennisteinsgrýti). Koldíoxíð
Framleiðsla á hrájárni eða stáli (fyrsta eða önnur bræðsla), þ.m.t. samfelld málmsteypa, þar sem afkastagetan er meiri en 2,5 tonn á klukkustund. Koldíoxíð
Framleiðsla eða vinnsla á járnríkum málmum (þ.m.t. járnblendi) þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW. Vinnslan tekur m.a. til völsunarstöðva, ofna til endurhitunar, glæðingarofna, smiðja, málmsteypna og eininga til yfirborðsmeðhöndlunar og sýruböðunar. Koldíoxíð
Framleiðsla á hrááli. Kodíoxíð og perflúorkolefni
Framleiðsla á endurunnu áli þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW. Koldíoxíð
Framleiðsla eða vinnsla á járnlausum málmum, þ.m.t. framleiðsla á málmblöndum, hreinsun, steypumótun o.s.frv. þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli (þ.m.t. eldsneyti sem er notað sem afoxunarefni) sem er yfir 20 MW. Koldíoxíð
Framleiðsla á sementsgjalli í hverfiofnum með afkastagetu sem er yfir 500 tonnum á dag eða í annars konar ofnum þar sem framleiðsluafköstin eru yfir 50 tonnum á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla á kalki eða glæðing á dólómíti eða magnesíti í hverfiofnum eða annars konar ofnum sem hafa framleiðslugetu sem er yfir 50 tonnum á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla glers, einnig glertrefja, þar sem bræðsluafköstin eru meiri en 20 tonn á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla á leirvörum með brennslu, einkum þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteini, þaksteini og leirmunum eða postulíni, þar sem framleiðslugetan er yfir 75 tonnum á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla á einangrunarefni úr steinull þar sem notað er gler, berg eða gjall og bræðsluafköstin eru yfir 20 tonnum á dag. Koldíoxíð
Þurrkun eða glæðing á gifsi eða framleiðsla á gifsplötum og öðrum gifsvörum þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW. Koldíoxíð
Framleiðsla á pappírsdeigi úr timbri eða öðrum trefjaefnum. Koldíoxíð
Framleiðsla á pappír eða pappa þar sem framleiðslugetan er meiri en 20 tonn á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla kinroks, sem felur í sér kolun á lífrænum efnum á borð við olíu, tjöru og sundrunar- og eimingarleif, þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW. Koldíoxíð
Framleiðsla á saltpéturssýru. Koldíoxíð og nituroxíð
Framleiðsla á adipínsýru. Koldíoxíð og nituroxíð
Framleiðsla á glýoxali og glýoxýlsýru. Koldíoxíð og nituroxíð
Framleiðsla á ammoníaki. Koldíoxíð
Framleiðsla á lífrænum íðefnum í lausu með sundrun, umbreytingu, oxun, að hluta eða til fulls, eða með svipuðum ferlum þar sem framleiðslugetan er meiri en 100 tonn á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla á vetni (H2) og tilbúnu gasi með umbreytingu eða hlutaoxun þar sem framleiðslugetan er meiri en 25 tonn á dag. Koldíoxíð
Framleiðsla á natríumkarbónati (Na2CO3) og natríumbíkarbónati (NaHCO3). Koldíoxíð
Föngun gróðurhúsalofttegunda frá stöðvum sem falla undir þessa tilskipun, í því skyni að flytja þær til geymslu í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB. Koldíoxíð
Flutningur gróðurhúsalofttegunda eftir leiðslum til geymslu í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB. Koldíoxíð
Geymsla gróðurhúsalofttegunda í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB. Koldíoxíð
 1. Stöðvar, eða hlutar þeirra, sem eru notaðar fyrir rannsóknir, þróun og prófun á nýjum vörum og aðferðum og stöðvar sem nota eingöngu lífmassa falla ekki undir þennan viðauka.
 2. Markgildin hér að framan eiga almennt við um framleiðslugetu eða -afköst. Ef margar tegundir starfsemi sem falla undir sama flokk eru reknar í sömu stöðinni er afkastageta þeirra lögð saman.
 3. Þegar heildarnafnvarmaafl stöðvar er reiknað til þess að ákveða hvort hún verði tekin með í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda skal leggja saman nafnvarmaafl allra tæknieininga í stöðinni þar sem eldsneyti er brennt. Þessar einingar geta tekið til allra tegunda af kötlum, brennurum, hverflum, hiturum, bræðsluofnum, brennsluofnum, glæðingarofnum, hitunarofnum, þurrkofnum, hreyflum, efnarafölum, tengibrunaeiningum (e. chemical looping combustion units), afgaslogum og eftirbrennurum eða hvarfakútum (e. thermal or catalytic post-combustion units). Einingar sem hafa nafnvarmaafl undir 3 MW og einingar sem nota eingöngu lífmassa teljast ekki með við þessa útreikninga. „Einingar, sem nota eingöngu lífmassa“ eru m.a. einingar þar sem jarðefnaeldsneyti er eingöngu notað við gangsetningu eða stöðvun.
 4. Ef eining er notuð við tiltekna starfsemi og viðmiðunarmörkin fyrir eininguna eru ekki gefin upp sem heildarnafnvarmaafl skulu mörkin fyrir þessa starfsemi vega þyngra þegar ákvörðun er tekin um upptöku í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.
 5. Ef í ljós kemur að farið hefur verið yfir markgildin fyrir einhverja tegund starfsemi í þessum viðauka í tiltekinni stöð skulu allar einingar sem brenna eldsneyti, aðrar en einingar sem brenna hættulegum úrgangi eða sorpi, koma fram í leyfinu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.

     
     c. (III. viðauki.)
Flugstarfsemi sem fellur undir lögin.
     Flugsamgöngur falla innan gildissviðs laga þessara en frá og með 1. janúar 2012 falla þær undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Flugsamgöngur teljast allar flugferðir sem lýkur eða hefjast á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins. Eftirfarandi flug eru undanþegin gildissviði viðskiptakerfisins og laga þessara:
 1. flugferðir sem eingöngu eru til flutninga í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra landa, annarra en aðildarríkja, ef þær eru rökstuddar með viðeigandi stöðuvísi á flugáætluninni,
 2. herflug herloftfara og toll- og lögregluflug,
 3. flug í tengslum við leit og björgun, flug í tengslum við slökkvistarf, flug í mannúðarskyni og sjúkraflug sem viðurkennt er af viðeigandi, lögbæru yfirvaldi,
 4. flug sem er eingöngu samkvæmt sjónflugsreglum eins og þær eru skilgreindar í 2. viðauka við Chicago-samninginn,
 5. flug sem endar á flugvellinum þar sem loftfarið tók flugið og þar sem engin lending á sér stað í millitíðinni,
 6. æfingaflug, eingöngu að því er varðar öflun vottorðs eða áritunar ef um flugáhafnir er að ræða, þar sem þetta er rökstutt með viðeigandi athugasemd í flugáætluninni, ef flugið er hvorki til farþega- eða farmflutninga né vegna staðsetningar eða flutnings á loftfarinu,
 7. flug sem er eingöngu vegna vísindarannsókna eða til að skoða, prófa eða votta loftför eða búnað, hvort sem er í lofti eða á jörðu niðri,
 8. flug loftfara með staðfestan hámarksflugtaksmassa sem er minni en 5.700 kg,
 9. flugferðir sem farnar eru innan ramma um skyldur um opinbera þjónustu, sem settar eru fram í samræmi við reglugerð (EBE) nr. 2408/92, eins og tilgreint er í 2. mgr. 299. gr. Rómarsáttmálans, eða á flugleiðum þar sem flutningsgetan sem í boði er er ekki meiri en 30.000 sæti á ári, og
 10. flug sem félli undir lögin ef ekki væri fyrir tilstilli þessa liðar og er á vegum flugrekanda í rekstri sem annast annaðhvort færri en 243 flugferðir á hverju tímabili í þrjú samfelld fjögurra mánaða tímabil eða flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 10.000 tonn. Flugferðir sem eingöngu eru til flutninga í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra aðildarríkis má ekki undanskilja að því er varðar þennan lið.

     
     d. (IV. viðauki.)
     Eftirfarandi tafla sýnir hversu mikið magn þeirra gróðurhúsalofttegunda sem lögin ná til samsvara einu tonni af koldíoxíð-ígildi:
Magn (í tonnum) er
Gróðurhúsalofttegundir samsvarar einu tonni
af koldíoxíð-ígildi
Koldíoxíð (CO2) 1
Metan (CH4) 25
Köfnunarefnisdíoxíð (N2O) 298
HFC-23 14.800
HFC-134a 1.430
Brennisteinshexaflúoríð (SF6) 22.800


11. gr.

Innleiðing EES-gerða.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:
 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007.
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi.


12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2011.