Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1851, 139. löggjafarþing 830. mál: atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum (starfstengd vinnumarkaðsúrræði, upplýsingaskylda, desemberuppbót o.fl.).
Lög nr. 103 3. september 2011.

Lög um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir orðinu „Fangelsismálastofnun“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: tollyfirvöld, eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög nr. 42/2010, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, Vegagerðin, Lánasjóður íslenskra námsmanna.

2. gr.

     Á eftir 2. mgr. 29. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sá tími sem Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði telst ekki hluti tímabilsins skv. 1. mgr. í tilvikum er hinn tryggði nýtur launa frá vinnuveitanda sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans meðan á þátttöku hans í vinnumarkaðsúrræði stendur og fær ekki greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 33. gr.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
  1. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er enn fremur heimilt að ákveða í reglugerð, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að greiddar séu sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur í lok hvers árs að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.
  2. 4. mgr. orðast svo:
  3.      Þegar Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði og hinn tryggði nýtur launa frá vinnuveitanda sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans meðan á þátttöku hans í vinnumarkaðsúrræði stendur á hinn tryggði hvorki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum né grunnatvinnuleysisbótum á sama tíma.


4. gr.

     Í stað orðanna „veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur“ í 60. gr. laganna kemur: lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar.

5. gr.

     Í stað orðanna „til 30. júní 2011“ í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: frá 20. júlí 2011 til og með 31. desember 2011.

6. gr.

     Í stað orðanna „til 30. júní 2011“ í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: frá 20. júlí 2011 til og með 31. desember 2011.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Þegar um er að ræða aðilaskipti að fyrirtæki sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal framsalshafi virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri vinnuveitanda á þeim degi er úrskurður var kveðinn upp um að fyrirtækið skyldi tekið til gjaldþrotaskipta þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða annar samningur kemur í hans stað. Vanefndir þess vinnuveitanda á skyldum hans gagnvart starfsmönnum fyrir þann dag færast ekki yfir til framsalshafa. Hið sama gildir komi innan þriggja mánaða frá framsali hins gjaldþrota fyrirtækis til endurráðningar fyrrum starfsmanna þess sem voru í starfi á úrskurðardegi.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      1. og 2. mgr. eiga ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.


III. KAFLI
Gildistaka.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. september 2011.