Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 636, 140. löggjafarþing 306. mál: tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (framlenging gildistíma laganna).
Lög nr. 158 23. desember 2011.

Lög um breytingu á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum (framlenging á tímabundnum endurgreiðslum).


1. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við útreikning á endurgreiðslu er tekið mið af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis án tillits til þess hvaða þáttur í framleiðslunni skapar þann kostnað.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 3. og 4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sérstök þriggja manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu ráðherra sem fer með kvikmyndir og ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar.
  2. 2. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. A-liður 1. mgr. orðast svo: að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.
  2. B-liður 1. mgr. fellur brott.
  3. H-liður 1. mgr. orðast svo: að fyrir liggi hvernig staðið verði að almennri dreifingu.
  4. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður sem orðast svo: að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar vangoldnar kröfur hér á landi vegna framleiðslunnar.
  5. Í stað orðanna „um ætlað listrænt gildi viðkomandi framleiðslu“ í 3. mgr. kemur: um skilyrði endurgreiðslunnar.
  6. 4. mgr. orðast svo:
  7.      Auglýsinga- og fréttatengt efni, stuttmyndir, upptökur af íþróttaviðburðum og skemmtunum, efni sem fyrst og fremst er ætlað til kynningar á tiltekinni vöru eða þjónustu, svo og framleiðsla efnis sem fyrst og fremst er ætlað til sýninga í eigin dreifikerfi, skal eigi njóta endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum.
  8. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar sérstaklega stendur á getur nefnd um endurgreiðslur, sbr. 3. gr., veitt undanþágu frá þessu skilyrði í að hámarki fimm ár frá dagsetningu vilyrðis.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað 5. málsl. 2. mgr. koma sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Framleiðslukostnaður telst allur sá kostnaður sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og fellur til hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 2. gr. Enn fremur skal stjórn og framkvæmdastjóri umsækjanda staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Nemi endurgreiðslan hærri fjárhæð en 20 milljónum króna skal kostnaðaruppgjör jafnframt vera endurskoðað. Í því skyni að staðreyna kostnaðaruppgjör getur nefnd skv. 3. gr. óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá skattyfirvöldum sem og bókhaldi félagsins. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal hún leggja til við ráðherra að beiðni um endurgreiðslu verði hafnað.
  2. 3. mgr. fellur brott.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „úr Kvikmyndasjóði Íslands“ í 1. mgr. kemur: frá opinberum aðilum.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Samanlagður styrkur opinberra aðila og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 5. gr. skal ekki fara yfir 85% af heildarframleiðslukostnaði sömu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.


6. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Hinn 31. desember 2016 falla úr gildi lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum. Endurgreiðslubeiðnir sem samþykktar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2011.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2011.