Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 995, 140. löggjafarþing 59. mál: upplýsingaréttur um umhverfismál (frumkvæðisskylda stjórnvalda).
Lög nr. 24 22. mars 2012.

Lög um breytingu á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að:
  1. tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd,
  2. treysta rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín á grundvelli upplýsinga,
  3. stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál,
  4. tryggja rétt almennings til þess að fá upplýsingar um umhverfismál,
  5. kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar um umhverfismál, sbr. 10. gr.


2. gr.

     Við 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna bætist: nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.

3. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er stjórnvöldum ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Ráðherra er heimilt að afmarka nánar í reglugerð hvað teljist skaðleg eða hættuleg frávik.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 2012.