Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1500, 140. löggjafarþing 349. mál: loftferðir (flugvernd, neytendavernd, loftferðasamningar, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 50 22. júní 2012.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum (flugvirkt, flugvernd, neytendavernd, EES-skuldbindingar, loftferðasamningar o.fl.).


1. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Um starfrækslu og lofthæfi loftfars sem ekki fellur undir reglur Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) og sinnir lög- og tollgæslu, leit og björgun, slökkvistarfi, landhelgisgæslu eða sambærilegu verkefni skulu gilda sambærilegar kröfur og gerðar eru til starfrækslu annarra loftfara samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Flugmálastjórn gefur út sérstakt lofthæfiskírteini fyrir loftfar sem fellur undir 1. mgr. eða sem uppfyllir að öðru leyti kröfur 20. gr., sbr. 22. gr.
     Rekstraraðili loftfars skv. 1. mgr. skal hafa útgefið sérstakt flugrekendaskírteini frá Flugmálastjórn að uppfylltum skilyrðum þar um. Um eftirlit fer skv. 21. gr., 27. gr. og öðrum ákvæðum laga þessara og laga um stofnunina.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur, m.a. um skilyrði útgáfu lofthæfiskírteinis, lofthæfistaðfestingarvottorðs og flugrekendaskírteinis og um íhluti, viðhald, vottun, þjálfun starfsfólks og önnur atriði er lúta að starfrækslu loftfars sem fellur undir grein þessa.

2. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna orðast svo: Loftför í opinberum rekstri.

3. gr.

     Við 4. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki rétthafa má fella loftfar af loftfaraskrá ef ákvæði b-, c- eða d-liðar 1. mgr. eiga við og fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að loftfarið verði ekki lofthæft á ný eða verðmæti réttindanna eru óveruleg í ljósi þeirra atvika og hagsmuna sem í húfi eru.

4. gr.

     2. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt með samningi við erlent stjórnvald eða annan þar til bæran aðila að fela honum að hluta eða öllu leyti að skoða, gera úttektir eða hafa eftirlit með starfrækslu og viðhaldi loftfars sem skrásett er hér á landi en staðsett utan Evrópska efnahagssvæðisins til lengri eða skemmri tíma samkvæmt samningi um starfrækslu loftfarsins þar. Í samningi Flugmálastjórnar við erlent stjórnvald eða annan aðila skal kveðið nánar á um fyrirkomulag eftirlits, til hvaða þátta eða starfsemi það tekur, skráningu samningsins og önnur skilyrði sem uppfylla þarf og leiðir af alþjóðlegum kröfum. Með staðfestingu stjórnvalda á slíkum samningi er Flugmálastjórn leyst undan skyldum sínum samkvæmt lögum þessum vegna loftfars sem samningurinn tekur til, að því marki sem þær flytjast yfir til hins samningsaðilans. Á sama hátt getur Flugmálastjórn Íslands eða annar til þess bær aðili með samningi við erlent stjórnvald eða annan þar til bæran aðila tekið að sér að skoða, gera úttekt á eða hafa eftirlit með starfrækslu og viðhaldi loftfars sem skrásett er utan Evrópska efnahagssvæðisins en staðsett hér á landi til lengri eða skemmri tíma enda liggi fyrir samningur um starfrækslu loftfarsins.

5. gr.

     7. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um lofthæfi, þ.m.t. um vottun loftfara, íhluta og búnaðar, um viðurkenningu á viðhaldsstöðvum og skilyrði hennar og um hæfniskröfur til starfsfólks á þessu sviði.

6. gr.

     Við 1. mgr. 56. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, sem orðast svo: Stofnunin kveður á um hverjar skuldbindingar flugvalla eru samkvæmt alþjóðasamningum á sviði flugmála. Niðurstöðu stofnunarinnar um umfang skuldbindinga verður skotið til ráðherra.

7. gr.

     Í stað orðanna „flugrekstraraðilar“ og „flugrekstraraðilum“ í b- og c-lið 1. mgr. 57. gr. c laganna kemur: flugrekendur; og: flugrekendum.

8. gr.

     Á eftir 57. gr. d laganna kemur ný grein, 57. gr. e, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Flugvirkt.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um flugvirkt og gerð flugvirktaráætlunar, þ.e. hvernig háttað skuli samhæfingu opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Flugmálastjórn Íslands sér um framkvæmd flugvirktar.
     Ráðherra skipar flugvirktarráð til þriggja ára í senn en hlutverk þess er m.a.:
 1. að vera samráðsvettvangur opinberra aðila og annarra um framkvæmd, samvinnu, samhæfingu og áætlanagerð á sviði flugvirktar,
 2. gerð tillagna um breytingar á reglum eða löggjöf sem miða að aukinni samhæfingu og skilvirkni við framkvæmd flugvirktar eins og tilefni er til,
 3. annað sem ráðherra felur því.

     Ráðherra skipar tvo fulltrúa í flugvirktarráð án tilnefningar. Skal annar vera formaður en hinn varaformaður. Aðra fulltrúa í ráðinu skipar ráðherra úr hópi opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm, eftir tilnefningu í samræmi við reglur sem hann setur um skipan og starfsemi flugvirktarráðs.

9. gr.

     Við 70. gr. b laganna bætist ný málsgrein, sem orðast svo:
     Rekstraraðila flugvallar er heimilt í samráði við ríkislögreglustjóra að þjálfa og nota leitarhunda til aðstoðar við framkvæmd flugverndar á flugvöllum. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um þjálfun og notkun leitarhunda við flugvernd.

10. gr.

     70. gr. c laganna orðast svo:
     Áður en Flugmálastjórn Íslands, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda er heimilt að veita einstaklingi aðgang að haftasvæði flugverndar og viðkvæmum upplýsingum um flugvernd eða heimila honum að sækja námskeið í flugverndarþjálfun skal óska eftir bakgrunnsskoðun og öryggisvottun lögreglu sem aflar upplýsinga um viðkomandi, svo sem úr skrám lögreglu, sakaskrá eða öðrum opinberum skrám, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings. Skal slík athugun fara fram með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Bakgrunnsskoðun lögreglu er liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgangsheimild samkvæmt framangreindu eða hvort honum skuli synjað um hana. Endanleg ákvörðun um aðgang samkvæmt framangreindu er Flugmálastjórnar, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda eftir atvikum, sbr. þó ákvæði 4. mgr.
     Lögreglu er heimilt að óska eftir því að einstaklingur gangi undir fíkniefnapróf, þ.m.t. blóð- og þvagrannsókn, telji lögregla niðurstöðu slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöðu athugunar lögreglu.
     Áður en lögregla lýkur athugun sinni skal þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum að. Hann á jafnframt rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að synja honum um öryggisvottun. Ákvörðun lögreglu um synjun öryggisvottunar á grundvelli neikvæðrar bakgrunnsskoðunar sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     Flugmálastjórn Íslands, rekstraraðila flugvallar eða rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu er óheimilt að veita einstaklingi heimild til aðgangs að haftasvæði flugverndar, aðgang að upplýsingum um flugvernd eða heimild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun hafi lögregla synjað viðkomandi um öryggisvottun samkvæmt grein þessari. Flugrekanda er óheimilt að veita einstaklingi heimild til aðgangs að tilgreindum haftasvæðum flugverndar með útgáfu áhafnakorts og aðgang að framangreindum upplýsingum eða heimild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun hafi lögregla synjað viðkomandi um öryggisvottun samkvæmt grein þessari.

11. gr.

     N-liður 1. mgr. 70. gr. d laganna orðast svo: athuganir á bakgrunni vegna flugverndar, sem leiðir m.a. af athugun á viðkomandi í skrám lögreglu eða öðrum opinberum skrám og öflun upplýsinga um sakaferil sem framkvæmd er af lögreglu að beiðni Flugmálastjórnar Íslands, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda, og almenn viðmið um slíkt mat.

12. gr.

     Í stað orðanna „2. mgr.“ í 6. mgr. 71. gr. a laganna kemur: 3. mgr.

13. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 83. gr. laganna orðast svo: Flugmálastjórn er heimilt að áskilja að tilnefndir yfirmenn flugrekenda sanni kunnáttu sína og hæfni með sérstakri próftöku eða annarri viðurkenndri aðferð sem stofnunin ákveður.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
 1. Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: eða vegna þess að flutningi hefur verið flýtt.
 2. Í stað orðanna „töfum í flutningi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: þessum völdum.
 3. Í stað orðanna „sem orðið hefur fyrir töfum“ í 3. mgr. kemur: vegna atvika sem greint er frá í 1. mgr.
 4. Í stað orðsins „tafa“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: atvika sem greint er frá í 1. mgr.
 5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ábyrgð flytjanda vegna tafa eða vegna þess að flutningi hefur verið flýtt.


15. gr.

     Á eftir orðinu „farþegum“ í 1. mgr. 108. gr. laganna kemur: eða vegna þess að flutningi hefur verið flýtt.

16. gr.

     Við a-lið 1. mgr. 125. gr. laganna bætist: eða þegar flutningi er flýtt.

17. gr.

     Orðin „frá Íslandi og“ í 1. málsl. 1. mgr. 126. gr. a laganna falla brott.

18. gr.

     Við 126. gr. c laganna bætist ný málsgrein, sem orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar af kvörtunum sem berast frá neytendum á grundvelli þessarar greinar og 104.–106. gr. og 123. gr.–126. gr. b. Stofnuninni er heimilt að innheimta gjaldið af viðkomandi þjónustuveitanda sem kvartað er yfir í hlutfalli við fjölda ákvarðana sem af kvörtunum leiðir. Um gjaldið og kostnaðargrunn þess fer að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga um Flugmálastjórn Íslands.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 136. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Rekstraraðili flugvallar skal verða við beiðni Umhverfisstofnunar um að aftra för loftfars uns lögmælt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, er varða viðkomandi loftfar, eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.
 2. 4. mgr. fellur brott.


20. gr.

     Á eftir 136. gr. laganna kemur ný grein, 136. gr. a, er orðast svo:
     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, að tillögu Flugöryggisstofnunar Evrópu, að leggja sektir á fyrirtæki, sem hafa skírteini útgefin af Flugöryggisstofnun Evrópu, fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á reglum á sviði Flugöryggisstofnunarinnar enda er sú starfsemi, sem tillaga um sekt grundvallast á, óheimil samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 146. gr. b laganna:
 1. Á eftir orðinu „gera“ kemur: loftferðasamninga og aðra.
 2. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
 3.      Flugmálastjórn Íslands annast úthlutun réttinda og veitingu heimilda skv. 1. mgr. Stofnuninni er heimilt að binda nýtingu réttinda og heimilda þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru, takmarka þau eða hafna þeim, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur skv. 3. mgr., m.a. til að tryggja að jafnræði á grundvelli gagnkvæmni ríki milli þeirra sem réttinda njóta í samningum skv. 1. mgr. eða öðrum samningum um hagnýtingu sambærilegra réttinda.
       Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er á um umsóknarferli, skilyrði úthlutunar og birtingu á samantekt réttinda samkvæmt samningum. Þegar um er að ræða takmörkuð réttindi til úthlutunar skal í reglugerð kveða á um hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við slíka úthlutun, m.a. varðandi hagsmuni neytenda, samkeppni, jákvæða þróun flutningastarfsemi, þjónustu, tíðni, tímabil, tegund umferðar, aðgengi, verðlagningu, tengiflug og umhverfisáhrif.


22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

23. gr.

     Við gildistöku laga þessara bætist ný málsgrein við 34. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, svohljóðandi:
     Heimilt er að leggja á gjöld sem ætlað er að standa undir kostnaði við vinnu lögreglu vegna bakgrunnsathugunar á einstaklingi og útgáfu öryggisvottunar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Við ákvörðun gjalda er heimilt að leggja til grundvallar kostnað vegna vinnu við stofnun og skráningu máls, úrvinnslu gagna, skoðunar, skráningar og vöktunar í skráningarkerfum lögreglu eða öðrum gagnagrunnum og stjórnsýslulegrar meðferðar, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Skilyrði gjaldtöku er að kveðið sé á um heimild til bakgrunnsathugunar í lögum. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar. Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem m.a. er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2012.