Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1503, 140. löggjafarþing 692. mál: réttindagæsla fyrir fatlað fólk (ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu).
Lög nr. 59 25. júní 2012.

Lög um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 (ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Lög þessi gilda um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Markmið laga þessara er að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.


2. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk, með tíu nýjum greinum, 10.–19. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist töluröð kafla og greina samkvæmt því:
     
     a. (10. gr.)
Bann við fjarvöktun og beitingu nauðungar.
     Öll beiting nauðungar í samskiptum við fatlað fólk er bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr. eða um sé að ræða neyðartilvik skv. 13. gr. Fjarvöktun á heimilum fatlaðs fólks er bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr.
     Ákvæði þessa kafla taka til allra þeirra sem veita fötluðu fólki þjónustu á heimilum þess og í daglegu lífi.
     Þjónustuaðilum er skylt að fræða þá sem vinna með fötluðu fólki um hvað nauðung sé og til hvaða aðgerða megi grípa til þess að koma í veg fyrir að beita þurfi nauðung.
     
     b. (11. gr.)
Skilgreiningar.
     Nauðung samkvæmt lögum þessum er athöfn sem skerðir sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og fer fram gegn vilja hans eða þrengir svo að sjálfsákvörðunarrétti hans að telja verði það nauðung þótt hann hreyfi ekki mótmælum.
     Til nauðungar telst meðal annars:
 1. Líkamleg valdbeiting, til dæmis í því skyni að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur skaði sjálfan sig eða aðra, eða valdi stórfelldu tjóni á eigum sínum eða annarra.
 2. Húsnæði sem tilheyrir fötluðum einstaklingi er læst.
 3. Fatlaður einstaklingur er læstur inni eða ferðafrelsi hans skert með öðrum hætti.
 4. Fatlaður einstaklingur er fluttur milli staða gegn vilja sínum.
 5. Aðgangur fatlaðs einstaklings að eigum sínum er takmarkaður eða þær fjarlægðar gegn vilja hans.
 6. Einstaklingur er þvingaður til athafna, svo sem til að taka lyf eða nota hjálpartæki.
 7. Valdi eða þvingun er beitt við athafnir daglegs lífs.

     Fjarvöktun í skilningi laga þessara er rafræn vöktun með myndavél eða hljóðnema.
     
     c. (12. gr.)
Undanþágur.
     Í sérstökum og einstaklingsbundnum tilvikum er heimilt að víkja frá banni 1. mgr. 10. gr. að fengnu leyfi undanþágunefndar skv. 15. gr. enda sé sýnt fram á að tilgangur nauðungar eða fjarvöktunar sé eftirfarandi:
 1. Að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.
 2. Að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklings, svo sem varðandi mat, heilbrigði og hreinlæti, eða til þess að draga úr hömluleysi sem af fötlun kann að leiða.

     Þegar þjónustuaðili, forstöðumaður eða annar sem ber ábyrgð á þjónustu við fatlaðan einstakling þarf að bregðast við aðstæðum þannig að til greina komi að beita þurfi viðkomandi einstakling nauðung í skilningi laganna skal hann leita til sérfræðiteymis skv. 14. gr.
     Fjarvöktun skal jafnframt uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
     
     d. (13. gr.)
Neyðartilvik.
     Sé nauðsynlegt að grípa inn í atburðarás til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum er heimilt að beita nauðung án undangenginnar ákvörðunar skv. 18. gr. Tafarlaust skal látið af nauðung þegar hættu hefur verið afstýrt eða ástand er liðið hjá. Þjónustuaðilar skulu skrá öll slík tilvik þar sem meðal annars skal gerð grein fyrir tilefni þess að nauðung var beitt, hvers eðlis hún var og hvaða hagsmunir voru í húfi. Þjónustuaðilar skulu senda atvikalýsingu vegna hvers tilviks til sérfræðiteymis skv. 14. gr. innan viku frá því að nauðung var beitt.
     
     e. (14. gr.)
Sérfræðiteymi.
     Ráðherra skipar allt að sjö einstaklinga til fjögurra ára í senn í sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Hann skipar formann úr hópi þeirra. Sérfræðiteymið skal skipað einstaklingum með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks og þekkingu og reynslu af aðferðum til að koma í veg fyrir beitingu nauðungar. Gert er ráð fyrir að a.m.k. þrír fulltrúar fjalli um hvert mál.
     Hlutverk sérfræðiteymisins er eftirfarandi:
 1. Að veita þjónustuaðilum og forstöðumönnum ráðgjöf, meðal annars um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar.
 2. Að veita umsögn um beiðnir um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar og um undanþágur frá banni við fjarvöktun.
 3. Að taka við tilkynningum um beitingu nauðungar samkvæmt ákvæðum 13. gr. og skýrslum um beitingu nauðungar og fjarvöktun á grundvelli undanþágu og halda skrá um beitingu nauðungar. Um meðferð og varðveislu skrárinnar og gagna sem fengin eru með fjarvöktun fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ef ljóst er af atvikaskráningu varðandi tiltekinn einstakling að aðgerðir þær sem fengin hefur verið undanþága fyrir séu ekki til þess fallnar að ná markmiði því sem stefnt var að getur teymið lagt til við undanþágunefnd að undanþágan verði felld úr gildi.

     Kostnaður vegna teymisins greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra setur nánari reglur um skipan og starfshætti sérfræðiteymisins með reglugerð.
     
     f. (15. gr.)
Nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.
     Ráðherra skipar þriggja manna undanþágunefnd og formann úr hópi þeirra til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu búa yfir sérþekkingu á mannréttindamálum, þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd laga á því sviði. Varamenn skulu vera jafnmargir og uppfylla sömu skilyrði og aðalmenn.
     Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um beiðnir þjónustuaðila um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og banni við fjarvöktun og taka ákvörðun um hvort undanþága verði veitt.
     Felist í beiðni ráðagerð um verulega og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi einstaklings þannig að hann geti ekki farið frjáls ferða sinna innan heimilis eða út af því ber nefndinni að vísa beiðninni til dómstóla. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum 9.–17. gr. lögræðislaga eftir því sem við á. Heimild til takmörkunar á ferðafrelsi einstaklings skal aðeins veitt sé sýnt fram á að hætta sé á því að viðkomandi valdi sjálfum sér eða öðrum verulegu líkams- eða eignatjóni sé ekki gripið til takmarkana á ferðafrelsi hans. Úrskurður dómara samkvæmt þessari grein sætir kæru til Hæstaréttar. Um málskot fer samkvæmt lögum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum.
     Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra setur nánari reglur um starfshætti nefndarinnar með reglugerð.
     
     g. (16. gr.)
Beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.
     Þjónustuaðili skal senda undanþágunefnd skv. 15. gr. skriflega beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og undanþágu frá banni við fjarvöktun. Þegar um sjálfráða einstakling er að ræða ber réttindagæslumanni að sjá til þess að honum sé leiðbeint um rétt sinn til að velja sér persónulegan talsmann.
     Beiðnin skal rituð á þar til gert eyðublað sem undanþágunefndin lætur í té. Í beiðninni skal meðal annars koma fram:
 1. Hver beri faglega ábyrgð á framkvæmd nauðungar.
 2. Lýsing á þeim aðstæðum sem kalla á beitingu nauðungar og rökstuðningur fyrir beitingu hennar.
 3. Nauðsynlegar upplýsingar um heilsu viðkomandi.
 4. Hvort leitað hafi verið eftir afstöðu viðkomandi og hver hún sé.
 5. Staðfesting á að leitað hafi verið eftir afstöðu lögráðamanns eða persónulegs talsmanns viðkomandi. Hafi viðkomandi ekki valið sér persónulegan talsmann skal liggja fyrir að honum hafi verið leiðbeint um rétt sinn í þeim efnum.
 6. Umsögn sérfræðiteymis skv. 14. gr.
 7. Upplýsingar um fjölda starfsmanna, menntun þeirra og þjálfun.
 8. Hvernig staðið verði að skráningu og innra eftirliti.

     Ef um barn er að ræða skal auk þess liggja fyrir upplýst samþykki forsjáraðila fyrir beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.
     
     h. (17. gr.)
Málsmeðferð.
     Undanþágunefnd skal taka beiðni til meðferðar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðni berst henni. Telji nefndin þörf á að afla frekari gagna skal það gert án tafar og ákvörðun tekin svo fljótt sem auðið er. Gefa skal hinum fatlaða, lögráðamanni hans, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda eftir atvikum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina áður en hún tekur ákvörðun í málinu.
     Við afgreiðslu beiðna skal nefndin meðal annars líta til eftirfarandi atriða auk skilyrða 12. gr.:
 1. Hvort leitað hafi verið allra annarra leiða sem ekki fela í sér nauðung.
 2. Menntunar og reynslu þeirra sem bera faglega ábyrgð á framkvæmd nauðungar.
 3. Hvort nauðung gagnvart hinum fatlaða geti komið niður á öðrum einstaklingum sem búa á sama heimili.
 4. Að nauðung sú sem sótt er um gangi ekki lengra en nauðsynlegt telst til þess að tilgangi hennar verði náð.

     
     i. (18. gr.)
Form og efni ákvörðunar.
     Fallist undanþágunefnd á beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar ber henni að kynna ákvörðun sína hinum fatlaða einstaklingi, lögráðamanni hans, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda og leiðbeina þeim um rétt viðkomandi til að bera málið undir dómstóla. Jafnframt skal tilkynna réttindagæslumanni á viðkomandi svæði um ákvörðun nefndarinnar.
     Ákvörðunin skal vera rökstudd og í henni skal greina með skýrum hætti til hvers konar aðgerða hún tekur og kveðið á um gildistíma hennar. Þar skal einnig greina skilyrði þau sem sett eru fyrir beitingu nauðungarinnar, svo sem hvernig skuli staðið að henni, hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanna sem henni beita og annað sem nefndin telur mikilvægt. Sé veitt undanþága til líkamlegrar valdbeitingar skal það gert að skilyrði að viðkomandi starfsmenn hafi sótt námskeið um líkamlega valdbeitingu.
     Heimildin skal vera tímabundin og aldrei veitt til lengri tíma en nauðsynlegt er, þó lengst til tólf mánaða í senn.
     Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Að öðru leyti fer um málsmeðferð eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.m.t. endurupptöku vegna verulega breyttra atvika. Heimilt er að bera ákvörðun nefndarinnar undir héraðsdómara í þeirri þinghá þar sem viðkomandi á lögheimili og skal hann úrskurða í málinu innan viku frá því að kæra berst honum. Úrskurður dómara samkvæmt þessari grein sætir kæru til Hæstaréttar. Um málskot fer samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum. Kæra samkvæmt þessari grein frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
     
     j. (19. gr.)
Skráning.
     Þjónustuaðilar skulu halda skrá um öll atvik þar sem einstaklingur er beittur nauðung, hvort sem henni er beitt á grundvelli undanþágu eða í neyðartilvikum skv. 13. gr. Sama á við um fjarvöktun.
     Í skráningunni skal greina hvernig nauðungin eða fjarvöktunin var framkvæmd, hversu lengi hún stóð yfir, hverjir önnuðust framkvæmd hennar og önnur atriði sem þýðingu hafa, svo sem hvort einhver meiðsl hafi orðið eða eignatjón af hennar völdum.
     Þjónustuaðilar skulu mánaðarlega senda sérfræðiteymi skv. 14. gr. skýrslu um beitingu nauðungar eða fjarvöktun á grundvelli undanþágu. Upplýsingar um beitingu nauðungar í neyðartilvikum skulu sendar sérfræðiteymi innan viku frá atviki.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þjónustuveitendur sem beita fatlaða einstaklinga nauðung í skilningi laga þessara til að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni eða til að uppfylla grunnþarfir hans, og telja nauðsynlegt að halda því áfram, skulu sækja um undanþágu frá banni 10. gr. laganna eigi síðar en sex mánuðum eftir að lög þessi hafa tekið gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2012.