Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1044, 141. löggjafarþing 12. mál: dómstólar o.fl (endurupptökunefnd).
Lög nr. 15 5. mars 2013.

Lög um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála (endurupptökunefnd).


I. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

     1. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur Hæstiréttur falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til einstakra flokka erinda, svo sem umsókna um áfrýjunarleyfi.

2. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Endurupptökunefnd, með einni nýrri grein, 34. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytast númer annarra kafla og greina samkvæmt því:
Endurupptökunefnd.
     Endurupptökunefnd er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem tekur ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti.
     Um endurupptöku máls fer eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála.
     Endurupptökunefnd skipa þrír fulltrúar og þrír til vara sem allir skulu hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi. Einn aðalmaður skal tilnefndur af Hæstarétti, annar af dómstólaráði og Alþingi kýs þann þriðja. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Óheimilt er að tilnefna alþingismenn, starfsmenn Stjórnarráðs Íslands, dómara eða aðra starfsmenn dómstóla í nefndina.
     Nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra. Skipunartími í nefndina er sex ár en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út annað hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en einu sinni. Formaður nefndarinnar er skipaður af ráðherra til tveggja ára í senn og skal hann fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti hæstaréttardómara.
     Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstaks máls fer eftir ákvæðum réttarfarslaga um hæfi dómara.
     Ákvarðanir nefndarinnar eru teknar með meiri hluta atkvæða fulltrúa í nefndinni. Þær skulu vera rökstuddar og birtar opinberlega eftir að þær hafa verið kunngerðar aðilum málsins.
     Ákvörðun nefndarinnar um að synja beiðni um endurupptöku máls er endanleg og verður ekki skotið til dómstóla.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um störf nefndarinnar og starfsskilyrði.

3. gr.

     Á eftir 45. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Þegar skipað er í fyrsta sinn í endurupptökunefnd skv. 34. gr. skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til tveggja ára, annar aðalmaður ásamt varamanni til fjögurra ára og þriðji aðalmaðurinn ásamt varamanni til sex ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa. Ef aðalmaður er skipaður til tveggja eða fjögurra ára skv. 2. málsl. er heimilt að skipa hann í nefndina einu sinni að nýju.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 211. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 1. mgr. kemur: endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla.
 2. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 3. mgr. kemur: Endurupptökunefnd.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 212. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: endurupptökunefndar.
 2. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 3. mgr. kemur: endurupptökunefnd.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 213. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Verði ekki farið með beiðni um endurupptöku samkvæmt því sem í 3. mgr. 212. gr. segir skulu hún og gögnin, sem henni fylgdu, send til gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín til hennar innan tiltekins frests. Hafi dómfelldi borið fram beiðnina og staðið sjálfur að henni getur þó endurupptökunefnd fyrst skipað honum lögmann og gefið honum kost á að gera beiðni á nýjan leik. Skylt er endranær að skipa dómfellda eða ákærða lögmann til að gæta réttar hans vegna beiðni um endurupptöku ef hann óskar eftir því.
 3. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 2. og 3. mgr. kemur: endurupptökunefnd.
 4. 4. mgr. orðast svo:
 5.      Endurupptökunefnd getur gefið aðilum kost á að tjá sig munnlega um beiðni um endurupptöku máls.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 214. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Endurupptökunefnd tekur ákvörðun um hvort mál verði endurupptekið. Sé beiðni tekin til greina skal fyrri dómur í málinu falla úr gildi, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta, nema nefndin ákveði að réttaráhrif hans haldist þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp.
 3. Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. kemur: endurupptökunefndar.


8. gr.

     1.–3. mgr. 215. gr. laganna orðast svo:
     Endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla getur leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 211. gr.
     Um beiðni um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti og meðferð hennar gilda ákvæði 212. og 213. gr. eftir því sem við á.
     Endurupptökunefnd tekur ákvörðun um hvort mál verði endurupptekið og gilda ákvæði 1. mgr. 214. gr. um þá ákvörðun.

III. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 167. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 1. mgr. kemur: endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla.
 2. Orðin „í héraði“ í a-lið 1. mgr. falla brott.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 168. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: endurupptökunefndar.
 2. Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 2. mgr. kemur: endurupptökunefnd.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Endurupptökunefnd ákveður hvort af endurupptöku verði. Fallist nefndin á beiðni skal hún um leið taka afstöðu til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður meðan málið er rekið. Endurupptaka hindrar ekki aðför eftir dómi nema áhrif hans séu felld niður með þessum hætti.


11. gr.

     1. mgr. 169. gr. laganna orðast svo:
     Endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála sem hafa borist Hæstarétti fyrir 1. janúar 2013 fer eftir eldri reglum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála eftir því sem við á.

Samþykkt á Alþingi 20. febrúar 2013.