Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 87, 142. löggjafarþing 15. mál: veiðigjöld (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.).
Lög nr. 84 9. júlí 2013.

Lög um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.).


1. gr.

     Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar umtalsverður tími líður frá úthlutun þar til veiðar fara fram á viðkomandi tegund er ráðherra þó heimilt að ákveða aðra gjalddaga. Síðasti gjalddagi skal þó eigi vera síðar en 1. júlí.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða I í lögunum:
  1. B–d-liður falla brott.
  2. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. skulu veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2013/2014 vera sem hér segir: 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 38,25 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum. Almennt veiðigjald skal vera 9,5 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló.
         Sérstakt þorskígildi hverrar fisktegundar, sbr. 2. mgr., skal ákveðið af ráðherra með reglugerð, eigi síðar en 15. júlí 2013, með þeim hætti sem hér segir: Taka skal mið af tólf mánaða tímabili frá 1. maí 2012 til 30. apríl 2013. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil. Sérstök þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda, að frádregnu því magni og verðmæti sem unnið er um borð í fiskiskipi, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Þegar fisktegund er að nær öllu leyti unnin um borð í fiskiskipi er heimilt að líta til sambærilegra tegunda til hliðsjónar við mat á sérstöku þorskígildi hennar. Þegar botnfiskur er seldur ferskur erlendis skal draga frá verði hans 85 kr. á hvert kíló af slægðum fiski vegna kostnaðar við útflutning. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar. Að öðru leyti fer um sérstök þorskígildi og sérstök þorskígildiskíló sem væru þorskígildi og þorskígildiskíló samkvæmt lögum þessum.
         Ráðherra skal vinna tillögur að endurskoðun þessara laga sem lagðar verði fram á Alþingi löggjafarþingið 2013–2014.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. júlí 2013.