Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 494, 143. löggjafarþing 110. mál: matvæli (eftirlit og gjaldtökuheimild, EES-reglur).
Lög nr. 143 27. desember 2013.

Lög um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (eftirlit, verkaskipting, gjaldskrárheimild).


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: innflutningi efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli.

2. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Heilbrigðisnefnd hefur opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli, að undanskildum innflutningi, sbr. 6. gr.
     Þeir sem framleiða eða flytja inn efni og hluti sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli skulu tilkynna heilbrigðisnefnd um starfsemi sína áður en hún hefst.
     Þeim sem framleiða, flytja inn eða dreifa efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli er skylt að gæta þess á öllum stigum að vörur þeirra spilli ekki þeim matvælum sem þær eru ætlaðar fyrir þannig að þau stofni heilbrigði manna í hættu, gæði þeirra rýrni eða matvælin teljist óneysluhæf. Matvælaframleiðendur bera sömu skyldur. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um efnainnihald og viðmiðunarmörk fyrir efni og hluti sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli.
     Rekjanleika efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli skal tryggja á öllum stigum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skyldu framleiðenda, innflutningsaðila og dreifingaraðila til að hafa kerfi og verklagsreglur sem tryggja rekjanleika efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli til að auðvelda eftirlit, innköllun gallaðra vara, miðlun upplýsinga til neytenda og matvælaframleiðenda og til að ákvarða ábyrgð á hinni gölluðu vöru.
     Þegar eftirlitsaðili hefur rökstudda ástæðu til að ætla að þeir sem framleiða, flytja inn eða dreifa efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli hafi brotið gegn skyldum sínum skv. 3. mgr. er eftirlitsaðila heimilt að takmarka eða stöðva dreifingu viðkomandi vöru. Sama á við þegar eftirlitsaðili á grundvelli nýrra upplýsinga eða endurmats á fyrirliggjandi upplýsingum hefur rökstudda ástæðu til að ætla að notkun efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli stofni heilbrigði manna í hættu, valdi óviðunandi breytingum á samsetningu matvæla, spilli skynmatseiginleikum þannig að matvælin teljist óneysluhæf eða rýri gæði þeirra á annan hátt.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
  1. Inngangsmálsliður 1. mgr. orðast svo: Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu matvælafyrirtæki eða þeir sem framleiða, flytja inn eða dreifa efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þetta tekur jafnframt til viðbótareftirlits með aðilum sem framleiða, flytja inn eða dreifa efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli.


4. gr.

     Orðin „tilkynningarskyldu þeirra sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli og efni eða efnablöndur sem nota á við framleiðslu og dreifingu matvæla“ í 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. a laganna falla brott.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2013.