Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 495, 143. löggjafarþing 95. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (loftgæði, færanleg starfsemi, umhverfismerki o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 144 27. desember 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (færanleg starfsemi og EB-gerðir: umhverfismerki, loftgæði og efri losunarmörk).


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Færanleg starfsemi er starfsemi sem eðlis síns vegna er færanleg milli staða. Í starfseminni er notast við hreyfanlegan búnað til að vinna tímabundið verk á hverjum stað sem tengist ekki veitukerfum á staðnum. Um er að ræða starfsemi sem ekki er gert ráð fyrir á skipulagi eða þarf byggingarleyfi.
      Umhverfismerki eru norræna umhverfismerkið Svanurinn, sem er opinbert norrænt umhverfismerki, og umhverfismerki Evrópubandalagsins (EB), Blómið, sem er opinbert umhverfismerki á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 6. tölul. orðast svo: umhverfismerki á vörur og þjónustu, m.a. um umsóknir, mat á umsóknum, veitingu merkjanna og eftirlit með þeim, svo og gjaldtöku, sbr. 6. gr. c.
  2. 13. tölul. orðast svo: losunarbókhald fyrir tiltekin loftmengunarefni, mat á losun loftmengandi efna, losunarspá, varnir gegn loftmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, mengandi efni og losun þeirra út í andrúmsloftið, áætlun um loftgæði, upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi varðandi loftgæði og skyldu starfsleyfishafa til þess að veita þeim sem eftirlit hafa með ákvæðum starfsleyfis upplýsingar um losun mengandi efna og loftgæði og framsetningu upplýsinga.
  3. Við bætist nýr töluliður, 18. tölul., svohljóðandi: færanlega starfsemi og eftirlit heilbrigðisnefnda með færanlegri starfsemi, sbr. 6. gr. e.


3. gr.

     Á eftir 6. gr. b laganna koma þrjár nýjar greinar, 6. gr. c – 6. gr. e, svohljóðandi:
     
     a. (6. gr. c.)
     Umhverfismerki má veita vörutegund eða þjónustu sem uppfyllir viðmiðunarreglur fyrir viðkomandi vöruflokka eða þjónustu eins og nánar er mælt fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur. Viðmiðunarreglur um veitingu umhverfismerkja byggjast á því að viðkomandi vara eða þjónusta valdi almennt minna umhverfisálagi en önnur sambærileg vara eða þjónusta á markaði.
     Þeim sem veitt hefur verið leyfi til að auðkenna vörur með umhverfismerki er heimilt að nota það í auglýsingar- og kynningarskyni. Öll notkun umhverfismerkja eða auglýsing vöru eða þjónustu sem gefur til kynna að umhverfismerki hafi verið veitt án þess að formleg viðurkenning þess efnis liggi fyrir er óheimil.
     Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd löggjafar um umhverfismerki. Stofnunin sér um daglegan rekstur og alla umsýslu vegna norræna umhverfismerkisins Svansins og evrópska umhverfismerkisins Blómsins, svo sem meðferð umsókna og veitingu leyfa, og hefur jafnframt eftirlit með því að notkun umhverfismerkja sé í samræmi við lög og reglugerðir og samningsskilmála hverju sinni. Umhverfisstofnun birtir viðmiðunarreglur umhverfismerkja á heimasíðu sinni. Viðmiðunarreglur Svansins er heimilt að birta á ensku eða norrænu máli öðru en finnsku. Umhverfisstofnun veitir leiðbeiningar og beitir sér fyrir kynningu á umhverfismerkjum sem og vörum og þjónustu sem veitt hefur verið umhverfismerki. Þá getur Umhverfisstofnun, gegn sérstöku gjaldi, veitt þeim fyrirtækjum ráðgjöf sem hyggjast auka innkaup á umhverfismerktum vörum. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um umhverfismerki á vörur og þjónustu, m.a. um umsóknir, mat á umsóknum, veitingu merkjanna og eftirlit með þeim, svo og gjaldtöku, sbr. 4. og 5. mgr.
     Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta þjónustugjald fyrir meðferð umsókna um umhverfismerki, mat á umsóknum og eftirlit, sem og sérstakar leiðbeiningar til fyrirtækja um innkaup á umhverfisvottuðum vörum eða þjónustu, í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldtakan skal taka mið af raunkostnaði við umsýslu umsóknar, eftirlit og leiðbeiningar til fyrirtækja.
     Í gjaldskrá skv. 4. mgr. er heimilt að kveða á um innheimtu árgjalds sem tengist veltu vöru- eða þjónustutegundar sem fengið hefur leyfi til að nota umhverfismerkið Svaninn. Við ákvörðun slíks gjalds skal tekið mið af gjaldskrá umhverfismerkisins Svansins annars staðar á Norðurlöndum. Við ákvörðun gjalds skal tilgreina hámarks- og lágmarksgjald samkvæmt reglum um evrópska umhverfismerkið Blómið sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem sé þó aldrei hærra en sá meðalkostnaður sem Umhverfisstofnun ber af vörum og þjónustu sem hlotið hafa umhverfismerki.
     
     b. (6. gr. d.)
     Ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar sem háður er starfsleyfi skv. 5. gr. a og hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft skulu gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð.
     Ráðherra skal í reglugerð skilgreina og setja markmið um loftgæði, uppsetningu, staðsetningu og rekstur mælistöðva, og um skyldu atvinnurekstrar sem háður er starfsleyfi skv. 5. gr. a og annarra skv. 4. mgr. til að veita upplýsingar um loftgæði og losun mengandi efna út í andrúmsloftið.
     Í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og til að hafa eftirlit með framvindu og bættum loftgæðum skulu Umhverfisstofnun, sbr. 18. gr., og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, sbr. 13. gr., afla upplýsinga, meta loftgæði, setja upp og reka mælistöðvar eftir því sem þörf er á, og tryggja að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heilbrigðisnefndum ber þó einungis að setja upp og reka mælistöðvar vegna hugsanlegs álags vegna umferðar eða starfsemi telji heilbrigðisnefnd eða sveitarfélag það nauðsynlegt.
     Umhverfisstofnun heldur bókhald yfir losun tiltekinna efna sem menga andrúmsloftið, setur fram losunarspá og rekur loftgæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skulu hafa aðgang að loftgæðastjórnunarkerfinu. Umhverfisstofnun er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um þau gögn og þær upplýsingar sem þau búa yfir varðandi starfsemi sína, rekstur og innflutning á vörum og stofnunin þarfnast vegna losunarbókhalds samkvæmt þessari grein. Umhverfisstofnun skal haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Hún skal leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verður við komið. Skylt er að veita Umhverfisstofnun upplýsingarnar sem stofnunin þarfnast vegna losunarbókhalds á því formi sem hún óskar eftir eða um semst og innan þeirra tímamarka sem reglugerð sett skv. 13. tölul. 5. gr. kveður á um án þess að gjald komi fyrir. Umhverfisstofnun skal upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað.
     Umhverfisstofnun flokkar og metur svæði og þéttbýlisstaði með tilliti til loftgæða samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
     Ráðherra gefur út til tólf ára í senn almenna áætlun um loftgæði sem gildir fyrir landið allt. Umhverfisstofnun vinnur tillögu að áætluninni í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og leggur fyrir ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og fleiri aðila eftir því sem við á. Áætlunin skal taka mið af lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa það að markmiði að tryggja loftgæði. Í áætluninni skulu m.a. koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um loftgæði í landinu og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Umhverfisstofnun skal auglýsa drög að aðgerðaáætluninni í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Almenningi skal tryggður aðgangur að áætluninni, m.a. á vefsetri Umhverfisstofnunar. Áætlunina skal endurskoða á fjögurra ára fresti.
     Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skulu einar sér eða með samvinnu sín á milli gefa út áætlun um loftgæði á sínu svæði þar sem m.a. koma fram tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Þá skulu heilbrigðisnefndir vinna viðbragðsáætlanir sem taka til skammtímaaðgerða varðandi loftgæði á þeirra svæði. Heilbrigðisnefndir skulu gefa út tilkynningar til almennings um loftgæði á þeirra svæði eftir því sem við á. Ef hætta er á að styrkur mengunarefna í andrúmslofti á tilteknu svæði eða tilteknum þéttbýlisstað fari yfir umhverfismörk samkvæmt ákvæðum í reglugerð skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd gera aðgerðaáætlun með það að markmiði að draga úr hættu sem af því ástandi stafar eða stytta tímabilið sem ástandið varir. Í aðgerðaáætluninni skal koma fram til hvaða skammtímaráðstafana verði gripið til að draga úr þeirri áhættu eða stytta þann tíma sem farið er yfir umhverfismörk. Heimilt er að gera slíka aðgerðaáætlun til skamms tíma ef áhættan á við um ein eða fleiri umhverfismörk eða markgildi sem tiltekin eru nánar í reglugerð sem ráðherra setur skv. 5. gr. Heilbrigðisnefnd skal eftir því sem tök eru á hafa samráð við Umhverfisstofnun, aðrar heilbrigðisnefndir, viðkomandi sveitarfélag og forsvarsmenn hlutaðeigandi atvinnustarfsemi.
     Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur og hlutaðeigandi hagsmunasamtök fái upplýsingar um gæði andrúmslofts, ákvarðanir um frestun og undanþágur og áætlanir um loftgæði, sbr. nánari ákvæði í reglugerð sem ráðherra setur. Upplýsingarnar skulu vera aðgengilegar á vefsetri Umhverfisstofnunar og vera í samræmi við lög nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hvaða upplýsingar beri að veita og framsetningu þeirra.
     
     c. (6. gr. e.)
     Heilbrigðisnefnd sveitarfélaga er heimilt að beita úrræðum skv. VI. kafla þegar um er að ræða færanlega starfsemi sem er stunduð á svæði nefndarinnar og er með starfsleyfi gefið út á öðru heilbrigðiseftirlitssvæði.

4. gr.

     Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:
  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012, frá 26. október 2012.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011.
  3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2013.