Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 840, 143. löggjafarþing 189. mál: verðbréfaviðskipti og kauphallir (framkvæmd fyrirmæla o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 28 4. apríl 2014.

Lög um breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir (framkvæmd fyrirmæla, tilkynning um viðskipti o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skyldur við framkvæmd fyrirmæla á skipulegum verðbréfamarkaði.
     Við framkvæmd viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eru fjármálafyrirtæki ekki skuldbundin til þess að framfylgja skyldum skv. II. kafla þegar viðskipti eru framkvæmd þeirra á milli. Hins vegar skulu fjármálafyrirtæki framfylgja skyldum skv. II. kafla gagnvart viðskiptavinum sínum þegar þau framkvæma viðskiptafyrirmæli fyrir þeirra hönd á skipulegum verðbréfamarkaði.

2. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna bætist: við upphaf viðskiptasambands.

3. gr.

     Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjármálafyrirtæki er skylt að tilkynna um viðskipti með fjármálagerninga skv. 1. mgr. með einkvæmu auðkenni (kennitölu). Sé einkvæmt auðkenni (kennitala) ekki til staðar skal fjármálafyrirtæki tilkynna um viðskipti með fjármálagerninga á öðru formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „skipulegs verðbréfamarkaðar“ í 2. mgr. kemur: markaðstorgs.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ef viðskipti með framseljanleg verðbréf, sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum markaði, fara einnig fram á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) án samþykkis útgefanda er útgefandinn ekki skuldbundinn til að annast viðvarandi eða sérstaka fjárhagslega upplýsingagjöf um verðbréfin á því markaðstorgi.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 110/2007, um kauphallir, með síðari breytingum.

5. gr.

     Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Ráðstafanir vegna miðlægs mótaðila og greiðslujöfnunar og uppgjörs.
     Skipulegum verðbréfamörkuðum er heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir vegna miðlægs mótaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar og uppgjörskerfis í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu í því skyni að greiðslujafna eða gera upp sum eða öll viðskipti sem markaðsaðilar í þeirra kerfum ganga frá.
     Lögbært yfirvald skipulegs verðbréfamarkaðar má ekki hamla notkun miðlægs mótaðila, greiðslujöfnunarstöðva eða uppgjörskerfa í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu nema sýnt sé fram á að það sé nauðsynlegt til að viðhalda skipulegri starfsemi þess skipulega markaðar og að teknu tilliti til tæknilegra skilyrða um uppgjörskerfi skv. 27. gr.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. mars 2014.