Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1125, 143. löggjafarþing 140. mál: eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (framleiðsla og dreifing áburðar o.fl.).
Lög nr. 37 22. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum (áburðareftirlit, fóðureftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. a laganna:
 1. Við bætist ný skilgreining á viðeigandi stað í stafrófsröð, svohljóðandi: Dreifing er hvers konar flutningur, framboð og afhending, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu.
 2. Í stað skilgreiningarinnar Markaðssetning fóðurs kemur ný skilgreining, svohljóðandi: Markaðssetning fóðurs, áburðar eða sáðvöru er að hafa umráð yfir fóðri, áburði eða sáðvöru með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða vöruna til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.


2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem verða 2.–4. mgr., svohljóðandi:
     Matvælastofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum.
     Framsal skv. 2. mgr. getur líka tekið til ákvarðana um þvingunarúrræði og viðurlög skv. 9. gr. og 9. gr. a – 9. gr. j og gjaldtöku fyrir eftirlitið skv. 8. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd framsals á eftirliti.

3. gr.

     Í stað 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur, framleiða lyfjablandað fóður eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Til framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs þarf einnig leyfi Lyfjastofnunar.

4. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki sem skráir vöru hjá Matvælastofnun er ábyrgt fyrir því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu og ber að veita allar nauðsynlegar upplýsingar vegna vörulýsingarinnar.

5. gr.

     2. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     7. gr. h laganna orðast svo:
     Fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri skulu tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri eða umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóður- eða matvælafyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

7. gr.

     Á eftir 7. gr. j laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Reglur um áburð, með fimm nýjum greinum, 7. gr. k – 7. gr. o, svohljóðandi, og breytast önnur kaflanúmer samkvæmt því:
     
     a. (7. gr. k.)
     Áburðarfyrirtæki skal leggja fram vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Vottorð þetta skal lagt fram árlega til staðfestingar á niðurstöðum mælinga á þeim áburðartegundum sem eru markaðssettar.
     Hámark kadmíuminnihalds í áburði skal ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur.
     
     b. (7. gr. l.)
     Verði breyting á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðar skal slík breyting tafarlaust tilkynnt Matvælastofnun sem tekur ákvörðun um það hvort varan verði afskráð eða haldi skráningu sinni skv. 5. gr. og þá með hvaða skilyrðum.
     Í þeim tilvikum þegar áburður hefur verið afskráður hefur Matvælastofnun heimild til að stöðva markaðssetningu áburðarins að nýju, eftir að varan er komin til landsins, þar til Matvælastofnun hefur staðfest með sýnatöku að varan sé í samræmi við skráða vörulýsingu, framlögð vottorð eða aðrar upplýsingar um vöruna.
     
     c. (7. gr. m.)
     Ef stjórnandi áburðarfyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að áburður, sem hann hefur flutt inn, framleitt, unnið eða dreift, sé ekki í samræmi við kröfur um efnainnihald, eiginleika áburðarins samkvæmt vörulýsingu eða öryggi, skal hann tafarlaust tilkynna það til Matvælastofnunar, gera ráðstafanir til úrbóta og taka umræddan áburð af markaðnum ef hann telst ekki öruggur til notkunar. Áburður telst ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem þegar hafa verið afhentar og standast ekki fyrrgreindar kröfur. Ef framleiðslueiningin, lotan eða vörusendingin stenst ekki fyrrgreindar kröfur skal farga áburðinum eða endursenda nema Matvælastofnun fallist á aðra lausn. Stjórnandi skal án tafar upplýsa notendur áburðarins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan uppfyllti ekki kröfur, var tekin af markaðnum eða innkölluð.
     
     d. (7. gr. n.)
     Stjórnandi áburðarfyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.
     
     e. (7. gr. o.)
     Áburðareftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat. Stjórnendur áburðarfyrirtækja skulu innleiða, koma á og viðhalda framleiðsluaðferðum sem byggjast á meginreglum um áhættugreiningu.
     Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd eftirlits og um vottorð í reglugerð.

8. gr.

     8. gr. a laganna orðast svo:
     Ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna og tilkynninga. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og tilkynninga og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

9. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Einnig er Matvælastofnun heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs eða sáðvöru, stöðva eða takmarka framleiðslu, afskrá vöruna, stöðva inn- og útflutning eða markaðssetningu og innkalla af markaði og leggja hald á slíka vöru þegar rökstuddur grunur er um að hún sé ekki í samræmi við vörulýsingu eða uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

10. gr.

     9. gr. d laganna orðast svo:
     Ákvarðanir Matvælastofnunar má kæra til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Kæra vegna stjórnsýsluákvörðunar í tengslum við eftirlit með innflutningi fóðurs, sem unnið er úr dýraafurðum og kemur til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal þó borin fram innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.

11. gr.

     Í stað 9. gr. e laganna koma sex nýjar greinar sem verða 9. gr. e – 9. gr. j, svohljóðandi:
     
     a. (9. gr. e.)
     Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
 1. tilkynningar- eða starfsleyfisskyldu skv. 4. gr. eða skilyrðum sem Matvælastofnun hefur sett skv. 2. mgr. 4. gr.,
 2. skráningarskyldu vörunnar og ábyrgð á því að efnainnihald og eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 5. gr.,
 3. banni við notkun dýrapróteins úr aukaafurðum úr dýrum í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis skv. 1. mgr. 7. gr. b,
 4. banni við fóðrun dýra á dýrapróteini sem er unnið úr dýrum eða afurðum dýra af sömu tegund skv. 3. mgr. 7. gr. b,
 5. banni við markaðssetningu fóðurs og áburðar sem ekki uppfyllir kröfur um öryggi skv. 7. gr. a og 7. gr. m,
 6. skyldu til innköllunar fóðurs og áburðar og tilkynningarskyldu stjórnenda skv. 7. gr. e og 7. gr. m,
 7. tilkynningarskyldu vegna greininga á örverum í fóðri og umhverfissýnum sem varða tilkynningarskylda matarsjúkdóma skv. 7. gr. h.

     Brot skv. 1. mgr. varða sektum eða fangelsi ef þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
     Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot skv. 1. mgr. þessarar greinar.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Heimilt er að gera upptækan með dómi ávinning sem hlotist hefur af broti skv. 1. mgr.
     
     b. (9. gr. f.)
     Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn sakamáls að undangenginni kæru Matvælastofnunar til lögreglu.
     Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Matvælastofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Matvælastofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar hjá lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Matvælastofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot styðst við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Matvælastofnunar um að kæra mál til lögreglu.
     Matvælastofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Matvælastofnun er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Matvælastofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.
     
     c. (9. gr. g.)
     Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki sem brjóta gegn:
 1. tilkynningar- eða starfsleyfisskyldu skv. 4. gr. eða skilyrðum sem Matvælastofnun hefur sett skv. 2. mgr. 4. gr.,
 2. tilkynningar- og skráningarskyldu vörunnar og ábyrgð á því að efnainnihald og eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 5. gr.,
 3. banni við markaðssetningu fóðurs og áburðar sem ekki uppfyllir kröfur um öryggi skv. 7. gr. a og 7. gr. m,
 4. banni við notkun dýrapróteins úr aukaafurðum úr dýrum í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis skv. 1. mgr. 7. gr. b,
 5. banni við fóðrun dýra á dýrapróteini sem er unnið úr dýrum eða afurðum dýra af sömu tegund skv. 3. mgr. 7. gr. b,
 6. skyldu til innköllunar fóðurs og áburðar og tilkynningarskyldu stjórnenda skv. 7. gr. e og 7. gr. m,
 7. skyldu til að geta rakið feril dýrafóðurs skv. 7. gr. f,
 8. tilkynningarskyldu vegna greininga á örverum í fóðri og umhverfissýnum sem varða tilkynningarskylda matarsjúkdóma skv. 7. gr. h,
 9. tilkynningarskyldu vegna innflutnings frá þriðju ríkjum skv. 7. gr. i,
 10. skyldu til að leggja fram vottorð um kadmíuminnihald skv. 7. gr. k,
 11. tilkynningarskyldu vegna innflutnings áburðar skv. 7. gr. m,
 12. ákvæðum varðandi kröfur um starfsemi fóður- og áburðarfyrirtækja skv. 7. gr. d og 7. gr. n.

     Ráðherra getur í reglugerð ákveðið fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
     Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins og hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili haft ávinning af broti. Skal fjárhæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim ávinningi sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þó innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga í samræmi við skilgreiningu á fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki í 7. tölul. 2. gr. a geta numið frá 10 þús. kr. til 10 millj. kr. en sektir á lögaðila geta numið frá 25 þús. kr. til 25 millj. kr.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga hennar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga hennar. Ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla.
     Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
     
     d. (9. gr. h.)
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Matvælastofnunar á grundvelli þeirra er Matvælastofnun heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Matvælastofnun setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
     
     e. (9. gr. i.)
     Heimild Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Matvælastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
     
     f. (9. gr. j.)
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 2014.