Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1267, 143. löggjafarþing 392. mál: fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri (takmörkun tilkynningarskyldu, EES-reglur).
Lög nr. 57 27. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum (nefnd lögð niður, takmörkun tilkynningarskyldu).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Kerfisáhætta: Þegar samspil fjármálakerfis og þjóðarbúskapar felur í sér hagsveiflumögnun, fjármálafyrirtæki verða viðkvæm fyrir aðgerðum annarra aðila og hætta er á atburðarás sem getur ógnað fjármálastöðugleika með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á þjóðarbúskapinn.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. 5.–7. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „nefnd um erlenda fjárfestingu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ráðherra.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Tilkynna ber ráðherra erlenda fjárfestingu á þeim sviðum þar sem sérstakar takmarkanir gilda, sbr. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr., jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir.
 2. Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
 3.      Tilkynningarskylda hvað varðar 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. gildir þó ekki um einstaklinga eða lögaðila þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðilar að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða um Færeyinga, enda séu viðkomandi aðilar búsettir eða með heimilisfesti í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. 1. mgr. fellur brott.
 2. Í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Nú telur ráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst vitneskja um hlutaðeigandi fjárfestingu.
 3. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Ráðherra er heimilt að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum þegar slík fjárfesting felur í sér kerfisáhættu.
       Ráðherra er heimilt að stöðva erlenda fjárfestingu skv. 2. og 3. mgr. á grundvelli ábendinga þar til bærra aðila.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.