Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1264, 143. löggjafarþing 176. mál: jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla (vörukaup, þjónusta o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 62 27. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum (atvinna, störf o.fl.).


1. gr.

     1.–5. tölul. 2. gr. laganna orðast svo:
  1. Bein mismunun: Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni fær, hefur fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður.
  2. Óbein mismunun: Þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kæmi verr við einstaklinga af öðru kyninu borið saman við einstaklinga af hinu kyninu nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
  3. Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  4. Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  5. Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.


2. gr.

     Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „kynbundinni eða kynferðislegri áreitni“ í 1. mgr. kemur: kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni.
  2. Í stað orðanna „ætlaðrar kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni“ í 2. mgr. kemur: ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.


4. gr.

     Við 1. mgr. 24. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum. Enn fremur telst kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni til mismununar samkvæmt lögum þessum sem og hvers konar óhagstæð meðferð einstaklings sem rekja má til þess að hann hafi vísað á bug kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða hafi látið hana yfir sig ganga.

5. gr.

     Í stað orðanna „opinberra mála“ í 3. mgr. 32. gr. laganna kemur: laga um meðferð sakamála.

6. gr.

     Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing tilskipana.
     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/54/EB, frá 5. júlí 2006, um framkvæmd meginreglunnar um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 33/2008. Auk þess er með lögum þessum innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/41/ESB frá 7. júlí 2010 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 86/613/EBE, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2011.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.