Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1257, 143. löggjafarþing 156. mál: verslun með áfengi og tóbak (heimildir ÁTVR til að hafna áfengi).
Lög nr. 69 28. maí 2014.

Lög um breyting á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum (heimildir ÁTVR til að hafna áfengi).


1. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Jafnræðis skal gætt við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis.
     ÁTVR er heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning:
  1. höfðar sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára, m.a. hvað varðar texta, myndmál eða form,
  2. sýnir börn eða ungmenni yngri en 20 ára,
  3. gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu,
  4. gefur til kynna að áfengi hafi lækningaeiginleika,
  5. felur í sér happdrætti, tilboð eða kaupauka,
  6. hvetur til óhóflegrar neyslu áfengis,
  7. tengist aðstæðum þar sem neysla áfengis skapar slysahættu eða er refsiverð,
  8. skírskotar eða hvetur til refsiverðrar háttsemi,
  9. skírskotar eða hvetur til neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna.

     ÁTVR er heimilt að hafna áfengi ef umbúðir þess líkjast svo annarri vöru sem boðin er til sölu eða auglýst á almennum markaði hér á landi að neytendur geta ekki auðveldlega greint á milli þeirra.
     ÁTVR er heimilt að hafna áfengi sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni.
     Ráðherra setur nánari reglur um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi. Reglurnar skulu miða að því að tryggja vöruúrval m.a. með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.