Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 404, 144. löggjafarþing 105. mál: Ábyrgðasjóður launa (EES-reglur).
Lög nr. 107 4. nóvember 2014.

Lög um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum (EES-mál).


1. gr.

     Í stað orðanna „að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti“ í b-lið 5. gr. laganna kemur: enda hafi kröfuhafi ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Ef launin í nýja starfinu eru lægri en í fyrra starfi skal greiða honum bætur fyrir launamissi skv. 1. málsl. sem nemur launamismuninum en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur mismuninum á lægri laununum og hámarksfjárhæð skv. 1. mgr. 6. gr.

2. gr.

     Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Innleiðing.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 51/2009 frá 24. apríl 2009, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. október 2014.