Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 955, 144. löggjafarþing 157. mál: vegalög (gjaldtaka af umferð o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 14 26. febrúar 2015.

Lög um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum (framkvæmd og stjórnsýsla, innleiðing EES-gerða o.fl.).


1. gr.

     2. málsl. 4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     5. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:
Framkvæmd og stjórnsýsla laganna.
     Vegagerðin annast þátt ríkisins í framkvæmd laga þessara nema á annan veg sé kveðið í lögunum.
     Samgöngustofa annast eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja. Samgöngustofa skal setja verklagsreglur um framkvæmd eftirlitsins.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um hlutverk Vegagerðarinnar og Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „10 km“ í 1. málsl. b-liðar 2. mgr. kemur: 2 km.
 2. 1. og 2. málsl. c-liðar 2. mgr. orðast svo: Héraðsvegir eru vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis, eru ákveðnir í staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Landeigandi skal þó kosta og vera veghaldari síðustu 50 m að framangreindum stöðum ef vegur endar þar.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Uppfylli vegur ekki lengur skilyrði laga þessara til að geta talist þjóðvegur skal Vegagerðin tilkynna aðilum að fyrirhugað sé að fella hann af vegaskrá frá og með næstu áramótum og þar með sé veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar.


4. gr.

     Orðin „innan þéttbýlis“ í 9. gr. laganna falla brott.

5. gr.

     3. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     6. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um gjaldtöku af umferð samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um álagningu veggjalda og notkunargjalds og fyrirkomulag innheimtu, sem og um viðurlög við brotum á ákvæðum reglugerðarinnar þar að lútandi, sbr. 59. gr. Þá setur ráðherra reglur um starfsemi og búnað sem er notaður við rafræna gjaldtöku. Ráðherra setur jafnframt reglur um hvernig upplýsingaöflun um kostnað vegna reksturs samgöngumannvirkja skuli háttað. Samgöngustofa annast eftirlit með gjaldtöku af umferð samkvæmt ákvæði þessu og þeim reglum sem settar eru á grundvelli þess, sbr. 6. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

7. gr.

     Á eftir 3. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skal Vegagerðin þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Nú hafa gjöld ekki verið innheimt í samræmi við ákvæði 17. gr. og er þá Samgöngustofu heimilt að ákvarða gjaldtakanda stjórnvaldssekt í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Ráðherra mælir nánar fyrir um fjárhæð stjórnvaldssekta í reglugerð. Stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæði þessu skulu aldrei nema hærri fjárhæð en nemur 1% af heildarveltu síðasta rekstrarárs gjaldtakanda og skulu þær renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við eftirlit, álagningu og innheimtu sektar. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá því að ákvörðun var tekin skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um innheimtu stjórnvaldssekta samkvæmt ákvæði þessu.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Ákvarðanir Samgöngustofu um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Slíkum ákvörðunum má skjóta til ráðherra innan mánaðar frá því aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.
 5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Viðurlög.


9. gr.

     Á eftir 59. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 59. gr. a og 59. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (59. gr. a.)
Sameining sveitarfélaga.
     Nú hefur sameining sveitarfélaga þau áhrif að vegur færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega og skal þá Vegagerðin halda við veginum í að hámarki fimm ár frá sameiningu. Að þeim tíma loknum skal vegurinn afhentur sveitarfélaginu að fullu en heimilt er að semja um styttri tíma í þessu sambandi.
     
     b. (59. gr. b.)
Innleiðing á EES-gerðum.
     Í lögum þessum eru eftirfarandi EES-gerðir innleiddar í íslenskan rétt:
 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/38/EB frá 17. maí 2006 um breytingu á tilskipun 1999/62/EB um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2012, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga þessara.
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/62/EB frá 17. júní 1999 um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/2002, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga þessara.


10. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Vegagerðinni er heimilt að semja við sveitarfélög um yfirfærslu vega frá Vegagerðinni til sveitarfélaga sem færðust úr flokki stofnvega við gildistöku laga nr. 80/2007. Heimilt er að Vegagerðin annist veghald veganna eða semji við sveitarfélögin um það til ársloka 2019.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. febrúar 2015.