Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1022, 144. löggjafarþing 107. mál: jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku (jöfnunargjald).
Lög nr. 20 12. mars 2015.

Lög um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald).


1. gr.

     Á eftir orðunum „hverju sinni“ í 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: í samræmi við innheimt jöfnunargjald skv. 3. gr. a.

2. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Jöfnunargjald vegna dreifingar raforku.
     Til að standa straum af jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda samkvæmt lögum þessum er innheimt sérstakt jöfnunargjald.
     Dreifiveitur greiða jöfnunargjald samkvæmt grein þessari af raforku sem er móttekin frá flutningskerfi flutningsfyrirtækisins eða beint frá virkjunum að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfinu inn á flutningskerfið.
     Fjárhæð jöfnunargjalds er 0,30 kr. á hverja kílóvattstund. Fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku er 0,10 kr. á hverja kílóvattstund.
     Orkustofnun annast innheimtu jöfnunargjalds fyrir ríkissjóð. Gjalddagi er 1. desember ár hvert vegna þess almanaksárs og byggist gjaldið á rauntölum vegna liðins árs. Aðför má gera til fullnustu kröfum um gjaldið án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar.
     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um innheimtu jöfnunargjalds.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. a skal fjárhæð jöfnunargjalds á árinu 2015 vera 0,20 kr. á hverja kílóvattstund.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. a skal fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku á árinu 2015 vera 0,066 kr. á hverja kílóvattstund af skerðanlegum flutningi raforku.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. apríl 2015.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 2015.