Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1499, 144. löggjafarþing 418. mál: veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands (hafnríkisaðgerðir).
Lög nr. 38 7. júlí 2015.

Lög um breyting á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum (hafnríkisaðgerðir).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er erlendum skipum óheimilt að koma til íslenskrar hafnar í eftirfarandi tilvikum:
    1. Skip stundar veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á.
    2. Skip stundar veiðar eða vinnslu á afla í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að, þ.m.t. skip sem hafa verið skráð hjá svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, og sigla ekki undir fána aðildarríkja þeirra, fyrir brot gegn reglum settum á grundvelli slíkra samninga.
    3. Skip stundar veiðar eða vinnslu á afla og er í eigu eða rekstri aðila sem á eða rekur skip sem fellur undir 2. tölul.

         Óheimilt er að veita skipum sem um ræðir í 2. mgr., skipum sem flytja afla þeirra og skipum sem þjónusta þau, sem og útgerðum þessara skipa, þjónustu, þ.m.t. í íslenskum höfnum, í fiskveiðilandhelgi Íslands og utan hennar. Komist skip sem um ræðir í 2. mgr. til íslenskrar hafnar er óheimilt að landa eða umskipa afla í höfn og skal án tafar vísa skipunum úr höfn eftir að þau hafa verið skoðuð af eftirlitsaðilum og eftir atvikum veitt neyðaraðstoð. Kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskistofu í té, ókeypis og í því formi sem þessi stjórnvöld ákveða, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd þessarar greinar.
  3. Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ tvívegis í 3. mgr. kemur: 2.–3. mgr.
  4. Í stað tilvísunarinnar „2.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 2.–4. mgr.
  5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Landhelgisgæslan skal, ef við á, krefja fánaríki skips um staðfestingu, innan frests sem ákveðinn er í reglugerð, til samræmis við ákvæði 4. gr., um að afli um borð í skipinu hafi ekki verið veiddur í bága við ákvæði 1.–3. tölul. 2. mgr., skipið hafi ekki verið við starfsemi sem greinir í 1. málsl. 3. mgr. eða stundað veiðar eða vinnslu afla þannig að gangi gegn verndartilgangi skv. 4. mgr. Í þessum tilvikum gilda fyrirmæli 3. mgr. um skipið þar til fullnægjandi staðfesting hefur borist eða ella þykir sýnt, að höfðu samráði við Fiskistofu eða ráðherra ef við á, að skipið falli ekki undir ákvæði þessarar greinar. Þó er heimilt, hafi skipið komið til hafnar, að landa afla úr skipinu til geymslu meðan beðið er staðfestingar fánaríkis. Óheimilt er að ráðstafa aflanum frekar og er Fiskistofu heimilt að setja hann undir innsigli. Falli skipið og afli þess undir ákvæði þessarar greinar skal aflinn gerður upptækur og skipi þegar vísað úr höfn. Hafi staðfesting fánaríkis ekki borist innan tiltekins hæfilegs tíma frá því að hennar var óskað, sbr. reglugerð, skal gera aflann upptækan.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Á undan orðinu „tólf“ í 2. málsl. kemur: a.m.k.
  2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Erlend veiðiskip og vinnsluskip sem sigla um íslenska fiskveiðilandhelgi skulu hafa uppi fána síns ríkis til auðkenningar.
  3. Lokamálsliður fellur brott.


3. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari fyrirmæli um:
  1. Framkvæmd laga þessara og um framkvæmd einstakra milliríkjasamninga í samræmi við reglur um sambærilegar veiðar íslenskra skipa innan fiskveiðilandhelgi Íslands ef ekki hefur verið um annað samið í milliríkjasamningum.
  2. Framkvæmd laga þessara og einstakra milliríkjasamninga sem varða framkvæmd þeirra, m.a. ákvæða um hafnríkiseftirlit. Heimilt er að birta eingöngu erlendan texta þessara fyrirmæla, enda varði þau veiðar erlendra skipa.
  3. Veiðarfæri, veiðisvæði og veiðitíma og reglur sem lúta að eftirliti með veiðum erlendra skipa, svo sem um vigtun afla, færslu afladagbóka, rafræna færslu og miðlun upplýsinga o.fl.
  4. Tilkynningar til stjórnvalda, fjareftirlit og skyldu til að sigla inn í og út úr fiskveiðilandhelgi Íslands á tilteknum athugunarstöðvum.
  5. Skráningu og birtingu upplýsinga um hafnir sem heimilað er að taka við erlendum fiskiskipum.


4. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á samningi hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Túlka skal ákvæði laganna með hliðsjón af ákvæðum samningsins.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Reglugerðir sem hafa verið settar með stoð í lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, halda gildi sínu.

Samþykkt á Alþingi 29. júní 2015.