Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1521, 144. löggjafarþing 4. mál: fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (EES-reglur).
Lög nr. 68 9. júlí 2015.

Lög um breyting á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46 13. maí 2005 (EES-reglur, innleiðing).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
 1. Orðin „Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins“, „Þróunarbanki Mið-Ameríkuríkja“ og „Fjárfestingarlánastofnun Ameríkuríkja“ í 2. tölul. falla brott.
 2. Í stað orðanna „og Fjárfestingarbanki Evrópu“ í 2. tölul. kemur: Fjárfestingarbanki Evrópu, Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin, Alþjóðlegi ónæmisaðgerðasjóðurinn, Íslamski þróunarbankinn og Þróunarbanki Evrópuráðsins.
 3. B–d-liður 3. tölul. orðast svo:
  1. vátryggingafélög og líftryggingafélög, sbr. lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi,
  2. verðbréfasjóðir, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði,
  3. lánastofnun, fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengd fjármálasviði, vátryggingafélög, líftryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 1. tölul. orðast svo: Fjármálagerningur: Hlutabréf í félögum og önnur verðbréf, sem jafngilda hlutabréfum í félögum, og skuldabréf og skuldagerningar í öðru formi, ef unnt er að versla með þau á fjármagnsmarkaði, og önnur verðbréf, sem venja er að höndla með og veita rétt til kaupa á slíkum hlutabréfum, skuldabréfum eða öðrum verðbréfum, með áskrift, kaupum eða skiptum, eða bréf sem eru gerð upp í reiðufé (að undanskildum greiðsluskjölum), þ.m.t. hlutdeildarskírteini í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, peningamarkaðsgerningar og kröfur í tengslum við eða réttindi í eða viðkomandi einhverju af framangreindu, að undanskildum eigin hlutabréfum tryggingarveitanda, hlutabréfum hans í móðurfélagi eða dótturfélagi og óskráðum hlutabréfum hans í félögum sem eingöngu er ætlað að eiga fasteignir.
 2. Á eftir 2. tölul. koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og árlega veltu og/eða efnahagsreikning undir 1,5 milljörðum kr., sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um aðstoð við örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki.
  2. Neytandi: Einstaklingur sem á lánaviðskipti enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
 3. 6. og 7. tölul., sem verða 8. og 9. tölul., orðast svo:
  1. Samningur um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu: Samningur, þ.m.t. endurhverf verðbréfamarkaðsviðskipti, um að eigandi fjárhagslegrar tryggingar framselji öll eignarréttindi sín, eða rétt til að eignast trygginguna, til framsalshafa til tryggingar á efndum á fjárhagslegum skuldbindingum.
  2. Samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu: Samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu þar sem veðþoli veitir veðhafa veðréttindi til tryggingar á efndum á fjárhagslegum skuldbindingum án þess að framselja hinn beina eða fullgilda eignarrétt eða rétt til að eignast fjárhagslegu trygginguna.
 4. Á eftir 8. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Skuldakrafa: Fjárhagsleg krafa sem hefur orðið til á grundvelli samnings þegar lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns. Lán veitt neytanda, örfyrirtæki eða litlu fyrirtæki í skilningi laga þessara falla ekki undir skuldakröfur nema þegar tryggingarhafi eða tryggingarveitandi eru ein þeirra stofnana sem taldar eru upp í 2. tölul. 1. gr.
 5. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Örfyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 10 starfsmenn og árlega veltu og/eða efnahagsreikning undir 300 millj. kr.


3. gr.

     Í stað orðanna „reiðufé eða fjármálagerningur“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: reiðufé, fjármálagerningur eða skuldakröfur.

4. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæðið á ekki við um skuldakröfur.

5. gr.

     1.–3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
 1. verðgildi reiðufjár eða skuldakrafna sé jafnað á móti fjárskuldbindingum og gert upp,
 2. fjármálagerningar eða skuldakröfur séu seldar,
 3. tryggingarhafi taki fjármálagerninga eða skuldakröfur til eignar, enda sé samið um aðferð við verðmat á fjármálagerningunum eða skuldakröfunum í samningnum.


6. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37, fela lög þessi í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009, um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem stofnað er til eftir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.