Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 737, 145. löggjafarþing 139. mál: peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (áreiðanleikakannanir, undanþága frá áreiðanleikakönnun, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 6 3. febrúar 2016.

Lög um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum (áreiðanleikakannanir, undanþága frá áreiðanleikakönnun, eftirlit o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Orðin „skv. 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994“ í c-lið 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað „og m-lið“ í 2. mgr., sbr. 1. gr. laga nr. 41/2012, kemur: m- og n-lið.


2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Millifærsla fjármuna: Hvers konar færsla fjármuna með rafrænum hætti í gegnum greiðslukerfi aðila skv. a-, m- og n-lið 1. mgr. 2. gr., innan lands eða yfir landamæri, sem framkvæmd er af greiðanda sem getur verið einstaklingur eða lögaðili og ætlað er að veita viðtakanda aðgang að fjármunum. Viðtakandi getur verið sá sami og greiðandi.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við millifærslu fjármuna, þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 150.000 kr. eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum eru ekki skyldugir til að kanna áreiðanleika viðskiptamanna í samræmi við ákvæði þessa kafla í tilvikum þar sem um er að ræða færslu fjármuna með greiðslukortum, farsíma eða hvers konar sambærilegum stafrænum búnaði eða upplýsingatæknibúnaði, þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. kort eða búnaður er eingöngu notaður til að greiða fyrir vörur eða þjónustu, og
  2. kortanúmer eða númer búnaðar fylgir öllum færslum sem leiðir af viðskiptunum.4. gr.

     2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Tilkynningarskyldur aðili skal ávallt afla fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 4. tölul. 3. gr. og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðfesta kennsl hans. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og hann skilji eignarhald og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver endanlegur móttakandi fjár verður skal krefjast frekari upplýsinga um það atriði. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver raunverulegur eigandi er skal tilkynningarskyldur aðili krefjast frekari upplýsinga. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, skal tilkynningarskyldur aðili grípa til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns.

5. gr.

     Í stað 1. málsl. 6. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn sína. Þeir skulu afla fullnægjandi upplýsinga og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna þær til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar, t.d. með athugun á viðskiptum sem eiga sér stað á meðan á samningssambandinu stendur.

6. gr.

     2. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
     Samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu, sem tekur á móti tilkynningum um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og greinir þær, skulu tilkynningarskyldir aðilar láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna greiningarinnar.

7. gr.

     Í stað „og m-lið“ í 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 41/2012, kemur: m- og n-lið.

8. gr.

     28. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal:
 1. um framkvæmd könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna skv. II. kafla,
 2. um auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann skv. III. kafla,
 3. um einfaldaða könnun á áreiðanleika viðskiptamanna skv. IV. kafla,
 4. um framkvæmd tilkynningarskyldu og aðrar skyldur aðila skv. V. kafla,
 5. hvaða upplýsingar um sendanda skulu fylgja millifærslum,
 6. sérstakar reglur um tilkynningar á millifærslum til eða í þágu einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
 7. sérstakar reglur um bann eða takmarkanir á heimildum tilkynningarskyldra aðila til að stofna til samningssambands eða framkvæma millifærslur til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
 8. sérstakar reglur um bann við því að tilkynningarskyldir aðilar miðli upplýsingum til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki hafa sambærilegar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi mæla fyrir um.


9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. janúar 2016.