Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 922, 145. löggjafarþing 228. mál: sjúkratryggingar og lyfjalög (heilbrigðisþjónusta yfir landamæri, EES-reglur).
2016  nr. 13  . mars

Lög um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (EES-reglur).


I. KAFLI
Breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Alþjóðlega viðurkennd læknismeðferð: Læknismeðferð sem telst nægilega gagnreynd, sbr. 44. gr., í ljósi aðstæðna hverju sinni og byggist á læknisfræðilegum rannsóknum, viðurkenndum aðferðum og reynslu.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. Orðin „sbr. 44. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
  2. Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Læknismeðferð erlendis sem ekki er unnt að veita hér á landi.


3. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Læknismeðferð erlendis sem unnt er að veita hér á landi.
     Nú velur sjúkratryggður að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiða þá sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hér á landi.
     Heimilt er að synja um endurgreiðslu kostnaðar skv. 1. mgr. ef:
  1. Hægt er að veita heilbrigðisþjónustuna hér á landi innan tímamarka sem má réttlæta læknisfræðilega þegar tekið er mið af heilsufarsástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms.
  2. Öryggi sjúklings eða almennings er stefnt í hættu með heilbrigðisþjónustu sem veitt er á grundvelli 1. mgr.
  3. Tilefni er til að efast um að veitandi heilbrigðisþjónustu fylgi gæða- og öryggiskröfum.

     Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um þjónustu við athafnir daglegs lífs, ráðstöfun líffæra og aðgengi að þeim til líffæraflutninga og bólusetningar gegn smitsjúkdómum.
     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, m.a. um hvenær sækja skuli um fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr.

4. gr.

     55. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum. M.a. er heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku sjúkratryggingastofnunarinnar í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í III. kafla.

5. gr.

     Á eftir 55. gr. laganna kemur ný grein, 55. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing EES-gerða.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í VI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009, um framkvæmd hennar.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/24/ESB, um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, eins og hún er felld inn í X. viðauka við EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2014 frá 9. júlí 2014.
     Reglugerðir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir sem greinin vísar til, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

II. KAFLI
Breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

6. gr.

     Í stað 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Lyfseðill er lyfjaávísun læknis eða tannlæknis sem hefur gilt lækningaleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Lyfseðill er enn fremur lyfjaávísun dýralæknis sem hefur gilt starfsleyfi hér á landi.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2016.

Samþykkt á Alþingi 1. mars 2016.