Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1051, 145. löggjafarþing 133. mál: uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum (heildarlög).
Lög nr. 20 30. mars 2016.

Lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára skv. 3. gr. og þriggja ára verkefnaáætlun skv. 4. gr. sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar.

2. gr.

Gildissvið og skilgreiningar.
     Lög þessi ná til svæða innan efnahagslögsögu Íslands þar sem er að finna ferðamannastaði, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Ferðamannaleið: Skilgreind leið sem tengir saman ferðamannastaði. Ferðamannaleiðir geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir.
  2. Ferðamannastaður: Skilgreindur staður sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru hans eða sögu.
  3. Ferðamannasvæði: Skilgreint landsvæði sem ferðamenn sækja vegna náttúru þess og sögu og tekur til fleiri en eins ferðamannastaðar.
  4. Innviðir: Innviðir í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum sem gera kleift að taka á móti ferðamönnum og draga úr skemmdum eða öðru álagi á náttúruna, svo sem göngustígar, pallar, göngubrýr, áningarstaðir, merkingar, salerni, varsla, umgengnisreglur o.fl.


3. gr.

Stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára.
     Í samráði við ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál leggur ráðherra á þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum þar sem mótuð skal stefna og markmið fyrir slíka uppbyggingu til tólf ára.
     Landsáætlunin tekur til verndaraðgerða, öryggismála, uppbyggingar, eftirlits, undirbúnings og reksturs staða, leiða og svæða og viðhalds innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum í landinu. Í áætluninni skal leggja til grundvallar vernd náttúru og menningarsögulegra minja og viðmið um sjálfbæra nýtingu og skilgreina þá stefnu við uppbyggingu og viðhald sem unnið verður eftir á gildistíma áætlunarinnar auk þess sem ferðamannaleiðir, ferðamannastaðir og ferðamannasvæði sem áætlunin tekur til hverju sinni skulu tilgreind nánar. Við gerð áætlunarinnar skal m.a. byggja á þeim markmiðum að náttúra og menningarsögulegar minjar séu verndaðar, komið sé í veg fyrir náttúruspjöll og þau lagfærð, dregið sé úr raski af völdum ferðamanna, álagi sé dreift og ný svæði metin með það í huga hvort og hvers konar uppbygging innviða sé æskileg, uppbygging innviða falli vel að heildarsvipmóti lands, horft sé til heildarlausna í uppbyggingu innviða og öryggi ferðamanna sé tryggt. Sjálfbær þróun skal höfð að leiðarljósi við gerð áætlunarinnar.
     Við gerð landsáætlunar skal einnig taka mið af því að fjármunir nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir uppbyggingu innviða vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar á landinu í heild og í einstökum landshlutum. Gera skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir framkvæmdum, rekstri og viðhaldi eftir því sem við á.
     Áður en landsáætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur ráðherra, í samráði við ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál, fram stefnu sína um vernd náttúru og menningarsögulegra minja vegna uppbyggingar innviða til verkefnisstjórnar skv. 5. gr. Verkefnisstjórnin undirbýr og semur tillögu að áætlun og leggur fyrir ráðherra til endanlegrar afgreiðslu og ákvörðunar.
     Stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára skal endurskoða á þriggja ára fresti eða oftar ef þörf krefur.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð stefnumarkandi landsáætlunar til tólf ára, m.a. um þau viðmið sem hafa ber til hliðsjónar við forgangsröðun verkefna.

4. gr.

Þriggja ára verkefnaáætlun.
     Í samráði við ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál vinnur ráðherra þriggja ára verkefnaáætlun tólf ára landsáætlunar. Verkefnaáætlun skal rúmast innan ramma tólf ára landsáætlunar og í henni skal skilgreindum verkefnum tólf ára áætlunarinnar forgangsraðað og framkvæmd þeirra og ábyrgð nánar útfærð. Gerð skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir framkvæmdum. Verkefnin geta m.a. falist í hvers konar verndaraðgerðum, undirbúningi, úrbótum, uppbyggingu, eftirliti, umsjón, rekstri og viðhaldi innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum. Áður en þriggja ára verkefnaáætlun tekur gildi skal hún kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð þriggja ára verkefnaáætlunar.

5. gr.

Verkefnisstjórn.
     Ráðherra skipar til þriggja ára í senn verkefnisstjórn sem hefur umsjón með gerð tillagna að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára og þriggja ára verkefnaáætlun. Ráðherrar ferðamála, þjóðlendumála og menningarminjamála tilnefna einn fulltrúa hver, einn stjórnarmaður er tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera skipaður formaður verkefnisstjórnarinnar. Sömu aðilar tilnefna jafnmarga varamenn sem eru skipaðir með sama hætti.
     Verkefnisstjórn annast upplýsingaöflun, forgangsröðun og gerð tillagna um stefnumarkandi tólf ára áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun. Verkefnisstjórn skal við undirbúning tillagna að stefnumarkandi tólf ára áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun afla tillagna og leita eftir faglegri aðstoð hjá þeim opinberu stofnunum sem hafa umsjón með ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem eiga aðild að áætlununum, sbr. 8. gr.
     Ráðherra setur reglur um hvernig verkefnisstjórn skuli starfa, m.a. um upplýsingaöflun, samráð og kynningarferla. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.

6. gr.

Ráðgjafarnefnd um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára.
     Ráðherra skipar til þriggja ára í senn ráðgjafarnefnd um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára. Einn fulltrúi er tilnefndur af Minjastofnun, einn af Náttúrufræðistofnun Íslands, einn af Ferðamálastofu, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af Samtökum ferðaþjónustunnar, einn af Landssamtökum landeigenda, einn af ferðamálasamtökum, einn af útivistarfélögum, einn af náttúruverndarsamtökum og einn af háskólasamfélaginu. Sömu aðilar tilnefna jafnmarga varamenn sem eru skipaðir með sama hætti.
     Ráðgjafarnefnd er verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning stefnumarkandi landsáætlunar til tólf ára.

7. gr.

Samráð.
     Þegar verkefnisstjórn hefur unnið drög að tillögum um stefnumarkandi tólf ára landsáætlun og þriggja ára verkefnaáætlun skal hún leita samráðs við almenning og umsagna um drögin hjá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum auk þess að halda opinn kynningarfund um drögin. Að loknu samráðs- og kynningarferli, og að loknu umhverfismati í samræmi við lög um umhverfismat áætlana, skal verkefnisstjórn leggja tillögur sínar fyrir ráðherra.

8. gr.

Aðild að tólf ára stefnumarkandi áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun.
     Ferðamannaleiðir, ferðamannastaðir og ferðamannasvæði í eigu hins opinbera, þ.m.t. innan þjóðlendna, falla sjálfkrafa undir tólf ára stefnumarkandi landsáætlun skv. 3. gr. og þriggja ára verkefnaáætlun skv. 4. gr. Sveitarfélög eða landshlutasamtök þeirra skulu, að fengnu samþykki landeigenda, gera tillögur til verkefnisstjórnar skv. 5. gr. um ferðamannaleiðir, ferðamannastaði og ferðamannasvæði sem þau kjósa að falli undir áætlanirnar, liggja innan marka þeirra og eru ekki í eigu hins opinbera.

9. gr.

Samningar við landeigendur.
     Um ferðamannaleiðir, ferðamannastaði og ferðamannasvæði sem eru ekki í eigu opinberra aðila og falla undir landsáætlun skal gera samning um vernd, uppbyggingu, viðhald og aðgengi ferðamanna. Ferðamannaleiðir, ferðamannastaðir og ferðamannasvæði sem njóta greiðsluþátttöku úr ríkissjóði af því að þau eru í landsáætlun skulu vera opin gjaldfrjálsri umferð almennings eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum. Landeiganda er þó heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð og innihald samninga samkvæmt grein þessari.

10. gr.

Gildistaka tólf ára landsáætlunar og þriggja ára verkefnaáætlunar.
     Stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára tekur gildi þegar Alþingi hefur samþykkt hana sem þingsályktun. Þriggja ára verkefnaáætlun tekur gildi við undirskrift ráðherra.

11. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára skv. 3. gr. skal lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 1. janúar 2017.

II.
     Ráðherra skal innan sex mánaða frá samþykkt laga þessara, að höfðu samráði við aðila sem eiga fulltrúa í verkefnisstjórn skv. 5. gr. og í samráði við þá ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál, leggja fram og birta opinberlega áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem gildi til 1. janúar 2018. Áætlunin skal auglýst til umsagnar í a.m.k. fjórar vikur áður en hún er samþykkt.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 2016.