Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1446, 145. löggjafarþing 671. mál: öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga (markaðseftirlit o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 66 10. júní 2016.

Lög um breytingu á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum (markaðseftirlit o.fl., EES-reglur).


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast fjórar nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
 1. Dreifingaraðili raffangs: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður rafföng fram á markaði.
 2. Framleiðandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir rafföng eða lætur framleiða eða hanna rafföng og markaðssetur þann búnað undir sínu nafni eða vörumerki.
 3. Innflytjandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem setur rafföng frá þriðja landi á markað á Evrópska efnahagssvæðinu.
 4. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda raffangs til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.


2. gr.

     Við 3. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rafsegultruflanir af völdum raffanga og rafbúnaðar skulu vera innan marka samkvæmt því sem nánar er skilgreint í reglugerð, sem og ónæmi slíks búnaðar fyrir rafsegultruflunum.

3. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Rafverktakar skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt ásamt því að tilkynna lok verks til Mannvirkjastofnunar samkvæmt skilgreindum verklagsreglum stofnunarinnar. Þetta gildir bæði um vinnu við nýjar neysluveitur og breytingar á neysluveitum í rekstri.

4. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 5. gr. a – 5. gr. d, svohljóðandi:
     
     a. (5. gr. a.)
     Bannað er að leggja háspenntar loftlínur yfir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, aðrar byggingar og mikilvæg íþrótta- og útivistarsvæði. Jafnframt er óheimilt að reisa slíkar byggingar undir háspenntum loftlínum. Þó mega háspenntar loftlínur liggja yfir byggingum minni en 50 m 2 að flatarmáli sem ekki eru notaðar til íbúðar eða tímabundinnar dvalar fólks.
     Háspenntar loftlínur skulu lagðar í öruggri fjarlægð yfir jörð, frá gróðri, öðrum línum, umferðarleiðum og byggingum. Fjarlægðir skulu ákvarðast í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki.
     
     b. (5. gr. b.)
     Framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar, innflytjendur og dreifingaraðilar raffanga skulu tryggja að rafföng sem sett eru á markað uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Óheimilt er að setja á markað rafföng sem uppfylla ekki þessar kröfur.
     Áður en raffang er sett á markað skal framleiðandi útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta framkvæma mat á því hvort raffangið uppfylli kröfur um öryggi, kröfur um rafsegulsamhæfi eða aðrar kröfur sem kveðið er á um í reglugerð að raffangið þurfi að uppfylla. Samræmismat skal framkvæmt af tilkynntum aðila eftir því sem við á og í samræmi við kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð. Framleiðandi skal á grundvelli samræmismats gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merki á viðkomandi raffang. Framleiðandi ber allan kostnað af samræmismati og CE-merkingu.
     Sá sem markaðssetur raffang hér á landi skal halda skrá yfir öll rafföng sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af tæknilegum gögnum um vöruna og samræmisyfirlýsingu. Enn fremur skal hann að beiðni Mannvirkjastofnunar afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans ef það er að mati stofnunarinnar nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.
     
     c. (5. gr. c.)
     Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila hér á landi sem hafa heimild til að annast samræmismat samkvæmt ákvæðum þessara laga og reglugerða settra samkvæmt þeim. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum en getur falið Mannvirkjastofnun að annast það fyrir sína hönd.
     Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að framkvæma samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.
     
     d. (5. gr. d.)
     Rafföng eru álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla ákvæði samhæfðra evrópskra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar fyrir slíka vöru. Mannvirkjastofnun birtir á vef sínum lista yfir staðla sem varða rafföng. Ráðherra getur með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðla samkvæmt þessari málsgrein.
     Séu samhæfðir evrópskir staðlar ekki til eru rafföng álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla kröfur staðla Alþjóðaraftækniráðsins (IEC) og kröfur landsstaðla sem í gildi eru í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem jafnframt er framleiðsluland viðkomandi raffanga, uppfylli slíkir staðlar kröfur á Íslandi.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. Í stað 5. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Mannvirkjastofnun getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu raffangs ef það uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem um merkingar, þ.m.t. CE-merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk, svo sem samræmisyfirlýsingu, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
       Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri prófunarstofu að prófa vöru og meta hvort hún uppfyllir ákvæði laga þessara.
       Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi eða dreifingaraðili ber allan kostnað af innköllun raffangs. Sé raffang ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans eða innflytjandi bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifingaraðili greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa, innflytjanda eða dreifingaraðila er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings, enda sé það gert í samráði við Mannvirkjastofnun og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
       Mannvirkjastofnun getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit við innflutning.
 3. Í stað „7. mgr.“ í 9. mgr. kemur: 10. mgr.
 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Sá sem fellst ekki á ákvörðun tilkynnts aðila, sem hefur heimild til að framkvæma samræmismat hér á landi, getur óskað eftir endurskoðun hans á slíkri ákvörðun innan þriggja vikna frá því að honum var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þær ákvarðanir sem um er að ræða eru synjun á útgáfu vottorðs um samræmismat, takmörkun á útgáfu þess, tímabundin niðurfelling vottorðs eða afturköllun. Tilkynnti aðilinn skal taka beiðni viðkomandi til skoðunar og tilkynna honum um endanlega ákvörðun. Höfnun tilkynnts aðila um breytingu á upphaflegri ákvörðun er heimilt að kæra til ráðherra. Kærufrestur er þrjár vikur frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun tilkynnta aðilans.


6. gr.

     Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: nánari kröfur vegna markaðssetningar raffanga, þ.m.t. um:
 1. Skilgreiningu á skyldum og ábyrgð framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila.
 2. Kröfur sem gerðar eru vegna samræmismats. Samræmismat getur m.a. falið í sér kröfu um EB-gerðarprófun, gæðatryggingu í framleiðslu, sannprófun vöru, gerðarsamræmi, gæðatryggingu vöru, innra eftirlit með framleiðslu eða sannprófun eintaka.
 3. Gerð og form samræmisyfirlýsingar og kröfur um CE-merkingu, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að samræmisyfirlýsing og leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál séu á íslensku.
 4. Kröfur sem gerðar eru til tilkynnts aðila og um hlutverk hans og skyldur við framkvæmd samræmismats og eftir atvikum afturköllun vottorða.
 5. Kröfur um gerð og afhendingu tæknilegra gagna og annarra gagna, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að slík gögn séu á íslensku.
 6. Öryggiskröfur og kröfur vegna rafsegultruflana sem rafföng þurfa að uppfylla.
 7. Kröfur sem gerðar eru til framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila um vistun gagna og upplýsinga vegna markaðseftirlits.
 8. Birtingu staðla.
 9. Framkvæmd markaðseftirlits og réttarúrræði Mannvirkjastofnunar.


7. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     Mannvirkjastofnun er heimilt að birta skýrslur um niðurstöður markaðseftirlits með rafföngum á vef stofnunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi verið veittur sanngjarn frestur til úrbóta. Mannvirkjastofnun skal gefa út verklagsreglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og birta á vef stofnunarinnar.

8. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn 4., 5. og 5. gr. b eða ákvörðunum Mannvirkjastofnunar skv. 11. gr.
     Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5.000.000 kr.
     Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
     Heimild Mannvirkjastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 7. mgr. rofnar þegar Mannvirkjastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

9. gr.

     18. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á ákvæðum eftirfarandi gerða:
 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi (endurgerð).
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurgerð).


10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.