Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1491, 145. löggjafarþing 676. mál: sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring).
Lög nr. 77 16. júní 2016.

Lög um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
  1. Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að ákveða að gjald fyrir þjónustuna skuli vera hærra sæki sjúkratryggður þjónustuna á aðra heilsugæslustöð eða til annars heimilislæknis en hann er skráður hjá.
  2. Við 2. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að ákveða að gjald fyrir þjónustu sérfræðilækna skuli vera lægra ef sjúkratryggður sækir þjónustuna með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni.
  3. Við 3. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að ákveða að gjald fyrir þjónustuna skuli vera lægra ef sjúkratryggður sækir þjónustuna með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni. Þá er heimilt að ákveða að gjald vegna þjónustu fyrir börn verði lægra eða falli niður ef þjónustan er sótt með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni.
  4. Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Greiðslur sjúkratryggðs fyrir heilbrigðisþjónustu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. mynda afsláttarstofn. Afsláttarstofn er nýttur við ákvörðun á greiðslum sjúkratryggðs við kaup á heilbrigðisþjónustu. Afsláttarstofn verður aldrei hærri en hámarksgreiðsla sjúkratryggðs í almanaksmánuði, sbr. 3. mgr. Afsláttarstofn flyst á milli mánaða að frádregnum 1/ 6 hluta af hámarksgreiðslum um hver mánaðamót, óháð greiðslum sjúkratryggðs.
         Ráðherra ákveður með reglugerð hámarksgreiðslur sjúkratryggðs í hverjum almanaksmánuði fyrir heilbrigðisþjónustu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. Heimilt er að ákveða að kostnaður vegna tiltekinnar þjónustu falli utan hámarksgreiðslna sjúkratryggðra og teljist ekki í afsláttarstofn, svo sem kostnaður vegna námskeiða og heilbrigðisskoðana í tengslum við leyfisveitingar. Hámarksgreiðsla skal vera lægri hjá öldruðum, öryrkjum og börnum og skal ekki vera hærri en 2/ 3 hlutar af greiðslum annarra sjúkratryggðra.
         Við ákvörðun greiðsluþátttöku sjúkratryggðs vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. 17.–19. gr. og 21.–22. gr., skal leggja saman afsláttarstofn og greiðslur sjúkratryggðs við kaup á heilbrigðisþjónustu. Séu samanlagðar greiðslur lægri en hámarksgreiðsla, sbr. 3. mgr., greiðir sjúkratryggður kostnaðinn allt að hámarksgreiðslu í samræmi við reglugerð, sbr. 1. mgr. Kostnaður umfram hámarksgreiðslu sjúkratryggðs greiðist af sjúkratryggingastofnuninni ef um er að ræða þjónustu sem stofnunin tekur þátt í að greiða, annars af viðkomandi heilbrigðisstofnun.


2. gr.

     Á eftir 29. gr. a laganna kemur ný grein, 29. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Miðlægur heilbrigðisþjónustugrunnur.
     Sjúkratryggingastofnunin ber ábyrgð á og starfrækir gagnagrunn með þeim upplýsingum um greiðslur sjúkratryggðra sem nauðsynlegar eru vegna greiðsluþátttökukerfis heilbrigðisþjónustunnar til að reikna út greiðslur þeirra og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á heilbrigðisþjónustu. Í gagnagrunninn skal skrá upplýsingar um greiðslur sjúkratryggðs vegna heilbrigðisþjónustu, tegund heilbrigðisþjónustu og stöðu sjúkratryggðs innan kerfisins.
     Heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum sem innheimta gjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem fellur undir hámarksgreiðslur sjúkratryggðra, sbr. 3. mgr. 29. gr., er skylt að tengjast gagnagrunninum, nýta upplýsingar gagnagrunnsins við útreikning á greiðsluþátttöku og veita upplýsingar í hann.
     Ráðherra setur reglugerð um rekstur gagnagrunnsins. Þar skal m.a. kveðið á um:
  1. hvaða upplýsingar skuli skrá í gagnagrunninn,
  2. eyðingu skráðra upplýsinga,
  3. aðgang heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna að upplýsingum í gagnagrunninum,
  4. skyldu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna til að tengjast gagnagrunninum og til að nýta upplýsingar gagnagrunnsins við útreikning á greiðsluþátttöku, og
  5. skyldu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna til að veita upplýsingar í gagnagrunninn.


3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skal afsláttarstofn miðast við greiðslur sjúkratryggðs fyrir þjónustu skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna síðustu fimm mánuði fyrir gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.