Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1663, 145. löggjafarþing 680. mál: búvörulög o.fl. (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).
Lög nr. 102 20. september 2016.

Lög um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).


I. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
 1. Afurðastöð er hver sá lögaðili eða einstaklingur sem tekur við afurðum úr höndum frumframleiðenda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu eða dreifingar eða vinnur úr eða selur eigin frumframleiðslu umfram magn sem skilgreint er.
 2. Álagsgreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist fyrir gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
 3. Búvörur teljast í lögum þessum afurðir búfjár, þ.m.t. afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, afurðir nytjajurta og afurðir hlunninda. Lög þessi taka ekki til afurða alifiska.
 4. Framleiðandi er hver sá sem á eigin vegum hefur með búvöruframleiðslu að gera, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú.
 5. Garðyrkjubýli, gróðrarstöð og garðyrkjustöð merkir í lögum þessum lögaðila eða býli, með virðisaukaskattsskylda veltu, sem framleiðir grænmeti (útirækt/ylrækt), skrautjurtir, garðplöntur eða tré og runna.
 6. Greiðslumark lögbýlis er tiltekinn fjöldi ærgilda eða magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.
 7. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla eru afurðir sem framleiddar eru samkvæmt kröfum í 41. gr.
 8. Heildargreiðslumark er fjöldi ærgilda eða tiltekið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er í samræmi við samning skv. 30. gr. og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
 9. Lögbýli eða jörð er í lögum þessum skilgreint skv. 2. gr. jarðalaga.
 10. Verðlagsár er almanaksárið.
 11. Vetrarfóðraðar kindur eru ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin eru fram skv. 10. gr. laga um búfjárhald.


2. gr.

     2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Við 5. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig tilnefnir ráðherra fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkur sem áheyrnarfulltrúa í nefndina og skal hann hafa tillögurétt.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Orðin „við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Verðlagsnefnd metur framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „framleiðnikröfur til afurðastöðva“ í 2. mgr. kemur: og einstakra framleiðsluvara.
 2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Afurðastöð skal selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir á verði sem er í samræmi við 1. mgr. Söluskylda afurðastöðvar nemur allt að 20% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur á móti frá frumframleiðendum.


6. gr.

     Í stað orðsins „mjólkursamlag“ og „mjólkursamlags“ í 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: afurðastöð; og: afurðastöðvar.

7. gr.

     30. gr. laganna orðast svo:
     Til þess að vinna að markmiðum stjórnvalda á hverjum tíma um framleiðslu búvara er ráðherra:
 1. heimilt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Bændasamtök Íslands um framleiðsluskilyrði, stuðning og stjórn á magni búvara. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Ráðherra er heimilt í stað fyrrgreindra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda nautgripa- og sauðfjárafurða á lögbýlum og framleiðenda garðyrkjuafurða á garðyrkjubýlum,
 2. heimilt að ákveða mismunandi stuðningsgreiðslur eftir landsvæðum með tilliti til byggðasjónarmiða og mikilvægis einstakra búgreina á hverjum stað.

     Heimilt er að mæla fyrir um endurskoðun samnings skv. 1. mgr. á samningstímanum þar sem metin eru áhrif og þróun samkvæmt samningi og teknar upp samningaviðræður að nýju teljist þess þörf.
     Þeir framleiðendur einir fá greiðslur í samræmi við samning samkvæmt þessari grein sem stunda landbúnað á lögbýli eða garðyrkjubýli, eru með virðisaukaskattsnúmer og starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.
     Á hverju lögbýli eða garðyrkjubýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi greiðslna. Þó er einstaklingum í hjúskap eða óvígðri sambúð á hverju lögbýli heimilt að skrá tvo framleiðendur sem handhafa greiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.

8. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar sex menn í framkvæmdanefnd búvörusamninga. Ráðherra tilnefnir tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður. Ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins tilnefnir einn fulltrúa og Bændasamtök Íslands tilnefna þrjá fulltrúa. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
     Framkvæmdanefnd búvörusamninga er sjálfstæð í störfum sínum og setur sér starfsreglur.
     Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila um framkvæmd samninga skv. 30. gr. Nefndin er ráðherra til ráðgjafar við framkvæmd samninga skv. 30. gr. Hún tekur ákvarðanir um tilfærslur framlaga milli einstakra samningsliða og greiðslutilhögun framlaga.
     Ákvarðanir í nefndinni skulu teknar með einföldum meiri hluta atkvæða. Séu ákvæði jöfn sker atkvæði formanns úr um niðurstöðu. Ákvarðanir framkvæmdanefndar búvörusamninga eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Fundargerðir og ákvarðanir nefndarinnar skal birta opinberlega.

9. gr.

     32. gr. laganna orðast svo:
     Matvælastofnun er heimilt að ákveða að greiðslur í samræmi við samning skv. 30. gr. verði greiddar til framleiðanda óháð framleiðslu á lögbýli eða garðyrkjubýli ef framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, þannig að búskapur hafi dregist saman eða fallið niður um tíma, t.d. vegna stórfellds öskufalls eða jökulflóða, vegna óvenjulegs veðurfars, alvarlegra búfjár- eða plöntusjúkdóma eða vegna þess að afurðasala frá býlinu hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á.
     Nú hefur framleiðandi fengið greiddar bætur vegna tjóns sem hann á jafnframt rétt á að fá bætt með greiðslum samkvæmt þessu ákvæði og er þá heimilt að lækka greiðslurnar sem bótunum nemur. Jafnframt er ráðherra heimilt að áskilja að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á síðar vegna tjónsins renni í ríkissjóð.
     Ráðherra er heimilt að víkja frá ásetningshlutfalli skv. 3. mgr. 39. gr. á býlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið skv. 1. mgr.
     Um þær greiðslur sem eru framleiðslutengdar skal taka mið af meðaltalsframleiðslu síðustu þriggja ára fyrir röskun framleiðsluskilyrða. Þó er Matvælastofnun heimilt að víkja frá þessu viðmiði ef málefnalegar ástæður eru fyrir því.
     Heimilt er að binda ákvörðun um fyrirgreiðslu því skilyrði að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á frá þriðja aðila renni sem fyrirgreiðslunni nemur í ríkissjóð.

10. gr.

     34. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     VIII. kafli laganna, Um aðlögun búvöruframleiðslunnar, 35. gr., fellur brott.

12. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Markmið með ákvæðum þessa kafla um starfsskilyrði sauðfjárræktar eru:
 1. að stuðla að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu,
 2. að treysta stoðir sauðfjárræktar í byggða- og atvinnulegu tilliti,
 3. að auðvelda nýliðun og nauðsynleg kynslóðaskipti sem tryggi að stuðningur ríkisins nýtist starfandi bændum á hverjum tíma,
 4. að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
 5. að efla gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og aðra þætti sem henni tengjast eins og velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvitund og sjálfbæra landnýtingu, og
 6. að efla markaðsstarf, nýsköpun og markaðsvitund í sauðfjárrækt.


13. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til sauðfjárræktar í samræmi við samning skv. 30. gr.
     Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar en sem nemur 0,4% af heildarframlögum hvers árs.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
 1. 3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: til 31. desember 2020.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Frá og með 1. janúar 2026 fellur greiðslumark úr gildi. Greiðslumark sem er óvirkt í þrjú ár samfellt á tímabilinu 1. janúar 2017 til 31. desember 2025 fellur niður.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Til að fá fullar beingreiðslur til 1. janúar 2021 þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks.
 2. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 3. Í stað orðsins „beingreiðslur“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: greiðslur.
 4. 6. mgr. orðast svo:
 5.      Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2020. Við innlausn greiðir ríkissjóður handhafa greiðslumarks núvirt andvirði beingreiðslna næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Matvælastofnun skal sjá um framkvæmd innlausnar greiðslumarks.


16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Framleiðandi sem á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 uppfyllir skilyrði um gæðastýrða framleiðslu á rétt á sérstakri álagsgreiðslu sem greiða skal fyrir allt framleitt kindakjöt frá framleiðanda sem uppfyllir kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skal m.a. ná til landnota, aðbúnaðar og umhverfis, skýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður skulu skjalfestar, svo sem með landbótaáætlun.
 5. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 6. 4. mgr. orðast svo:
 7.      Tíðni eftirlits með framleiðendum í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skal byggjast á áhættuflokkun, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlun.
 8. 5. málsl. 6. mgr. fellur brott.
 9. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 10.      Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að ákvarða mismunandi stuðla í þeim tilgangi að greiða misháar álagsgreiðslur á einstaka flokka lambakjöts og ærkjöts og vegna mismunandi sláturtíma.


17. gr.

     2. mgr. 50. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

     Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði sauðfjárræktar 2017–2026.

19. gr.

     51. gr. laganna orðast svo:
     Markmið ákvæða þessa kafla um starfsskilyrði nautgriparæktar eru:
 1. að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu nautgripaafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði,
 2. að auðvelda nýliðun og nauðsynleg kynslóðaskipti sem tryggi að stuðningur ríkisins nýtist starfandi bændum á hverjum tíma,
 3. að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
 4. að gætt sé sjónarmiða um velferð dýra og heilnæmi afurða,
 5. að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og skapa aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum, og
 6. að greinin geti endurnýjað framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð dýra.


20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
 1. Orðin „þremur mánuðum“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. 2. mgr. fellur brott.


21. gr.

     53. gr. laganna orðast svo:
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Matvælastofnun skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því. Þó er heimilt þegar um fleiri sjálfstæða aðila er að ræða sem standa að búinu að skrá þá sérstaklega.
     Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Við innlausn greiðir ríkissjóður handhafa greiðslumarks tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Greiðslumark sem innleyst er skal boðið til sölu á sama verði. Nýliðar og framleiðendur sem hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark árin 2013–2015 skulu hafa forgang að kaupum upp að tilteknu marki samkvæmt reglugerð.
     Ef innleyst greiðslumark selst ekki þannig að jöfnuður verði á innlausn og sölu skal því mætt með skerðingu á öðrum framlögum samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga. Matvælastofnun skal sjá um framkvæmd innlausnar og sölu greiðslumarks.
     Greiðslumark þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. eitt verðlagsár skal falla niður.

22. gr.

     54. gr. laganna orðast svo:
     Aðilaskipti að greiðslumarki eru óheimil frá 1. janúar 2017. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila.
     Tilfærsla greiðslumarks tekur ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.

23. gr.

     55. gr. laganna orðast svo:
     Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til nautgriparæktar í samræmi við samning skv. 30. gr.
     Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar en sem nemur 0,7% af heildarframlögum hvers árs.
     Greiðsla út á greiðslumark er stuðningur við framleiðslu og markað fyrir mjólkurafurðir, greiddur úr ríkissjóði til greiðslumarkshafa. Greiðsla út á greiðslumark er greidd mánaðarlega og ákveður framkvæmdanefnd búvörusamninga nánar greiðslutilhögun og fráviksmörk beingreiðslu fyrir upphaf hvers verðlagsárs, að fengnum tillögum Landssambands kúabænda.
     Greiðslur út á innvegna mjólk eru greiddar mánaðarlega á alla innvegna mjólk óháð greiðslumarki og skal skipt í tólf jafna hluta þannig að jafnhá upphæð er greidd í hverjum mánuði óháð framleiðslumagni mánaðarins. Upphæð hvers mánaðar deilist jafnt á alla innvegna lítra í þeim mánuði.

24. gr.

     Á eftir 55. gr. laganna kemur ný grein, 55. gr. A, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að ráðstafa framlögum milli tiltekinna liða í samningi skv. 30. gr. til að bregðast við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
 1. Orðið „fullvirðisrétt“ í 2. mgr. fellur brott.
 2. 3. mgr. fellur brott.


26. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði nautgriparæktar 2017–2026.

27. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Markmið með ákvæðum þessa kafla um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða eru:
 1. að auka framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og auka vitund um hollustu og heilbrigða lífshætti,
 2. að stuðla að fjölbreyttara framboði á garðyrkjuafurðum árið um kring á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
 3. að auka fagmennsku, hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar garðyrkjuframleiðslu,
 4. að treysta tekju- og starfsgrundvöll framleiðenda garðyrkjuafurða, og
 5. að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu.


28. gr.

     58. gr. laganna orðast svo:
     Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til framleiðenda garðyrkjuafurða í samræmi við samning skv. 30. gr.
     Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða en sem nemur 10% af heildarframlögum til beingreiðslna og 15% af heildarframlögum til niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku.
     Heimilt er ráðherra að fela Matvælastofnun eða öðrum opinberum aðila að annast faglega umsjón með verkefnum sem samið er um skv. 1. mgr. og framkvæmd þeirra, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.

29. gr.

     2. og 3. málsl. 2. mgr. 59. gr. laganna falla brott.

30. gr.

     60. gr. laganna orðast svo:
     Framleiðandi sem er umsækjandi um beingreiðslur skal leggja fram upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör.
     Ef framleiðandi verður ekki við kröfum skv. 1. mgr. skal réttur til beingreiðslna felldur niður þar til framleiðandi hefur gert fullnægjandi úrbætur innan ákveðinna tímamarka.

31. gr.

     2. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.

32. gr.

     Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða 2017–2026.

33. gr.

     63. gr. laganna fellur brott.

34. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úthlutun tollkvóta samkvæmt viðauka IIIB nær aðeins til vara sem flokkast undir tollskrárnúmerin 0602.9091, 0602.9093, 0603.1100, 0603.1400 og 0603.1909 í 6. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög. Um toll á aðrar vörur viðauka IIIB fer skv. 2. mgr. 12. gr. tollalaga.
 2. Lokamálsliður 3. mgr. fellur brott.


35. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. B laganna:
 1. Í stað orðanna „4. mgr. 12. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 5. mgr. 12. gr.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal ráðherra úthluta tollkvóta sem fellur undir vörulið 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög eftir hlutkesti en hver aðili hljóti þó að hámarki 15% af heildarmagni ef viðkomandi vara er skráð í samræmi við reglur um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.


36. gr.

     75. gr. laganna fellur brott.

37. gr.

     Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Innflutningur landbúnaðarvara og úthlutun tollkvóta.

38. gr.

     81. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
 1. Stærðarmörk afurðastöðva vegna frumframleiðslu sinnar skv. 2. gr.
 2. Réttindi framleiðenda og skilyrði fyrir greiðslum skv. 30. gr.
 3. Framkvæmd vegna röskunar framleiðsluskilyrða og greiðslur og úttektir skv. 32. gr.
 4. Skilyrði fyrir greiðslum skv. 37. gr., greiðslumark sauðfjár, beingreiðslur fyrir sauðfé, ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna, hvernig þeim skuli ráðstafað og af hvaða opinbera aðila, innlausn greiðslumarks og aðilaskipti á greiðslumarki skv. IX. kafla.
 5. Gæðastýrða sauðfjárframleiðslu varðandi landnýtingarskilyrði, gæðakerfi, tilkynningar og fresti, kæruheimildir, eftirlit og úttektaraðila, landbótaáætlanir og tilhögun álagsgreiðslna skv. 41. gr.
 6. Heildargreiðslumark mjólkur og skiptingu þess á lögbýli, greiðslur út á greiðslumark og innvegna mjólk, innlausnarskyldu á greiðslumarki, aðilaskiptingu og skráningu þeirra og greiðslur til framleiðenda nautakjöts skv. X. kafla.
 7. Tilfærslur milli liða búvörusamninga skv. 30. gr., sbr. 55. gr. A.
 8. Beingreiðslur til framleiðenda garðyrkjuafurða, heildarfjárhæð beingreiðslna og skiptingu milli tegunda, fjárhæð á kíló, gæðaflokkun eftir tímabilum og önnur framlög til garðyrkju, framkvæmd og tilhögun skv. XI. kafla.
 9. Eftirlit með innflutningi afurða þar sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiði, sýnatökur og rannsóknir skv. 2. mgr. 64. gr.
 10. Úthlutun tollkvóta skv. 5. mgr. 65. gr., 5. mgr. 65. gr. A og 2. mgr. 65. gr. B.
 11. Eftirlit skv. 66. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um verkefni, valdsvið og starfsskilyrði framkvæmdanefndar búvörusamninga skv. 31. gr.

39. gr.

     83., 84. og 85. gr. laganna falla brott.

40. gr.

     B-liður 2. mgr. 87. gr. laganna fellur brott.

41. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða K, O, Q, U, Ú, V, W, X, Y og Z í lögunum falla brott.

42. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007, með síðari breytingum, fellur niður 1. janúar 2017, þó heldur ákvæði til bráðabirgða T gildi sínu til 31. desember 2017.

II. KAFLI
Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

43. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða 1. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „sæðingarstöð“ í 9. tölul. kemur: einangrunarstöð.
 2. Á eftir 10. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Landgreiðslur eru greiðslur sem greiddar eru út á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar.


44. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að:
 1. almenn starfsskilyrði við framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði,
 2. tryggja að bændum standi til boða leiðbeiningarþjónusta og skýrsluhaldshugbúnaður til að styðja við framgang markmiða samnings skv. 3. gr.,
 3. við búvöruframleiðsluna sé gætt sjónarmiða um velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu,
 4. auka vægi lífrænnar framleiðslu,
 5. stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu bænda,
 6. auðvelda nýliðun þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda,
 7. tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.


45. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „fimm“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tíu.
 2. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Samningurinn skal endurskoðaður á samningstímanum.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Ríkissjóður veitir árlega framlög til verkefna á sviði kynbóta, þróunar, jarðabóta, landgreiðslna, nýliðunar, lífrænnar framleiðslu, varðveislu búfjárstofna, átaksverkefna og leiðbeiningarstarfsemi samkvæmt lögum þessum.
 5. Á eftir orðunum „Bændasamtök Íslands“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: félög í fullri eigu samtakanna.
 6. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 7.      Þeir framleiðendur einir fá greiðslur í samræmi við samning skv. 1. mgr. sem stunda landbúnað á lögbýli eða garðyrkjubýli, eru með virðisaukaskattsnúmer og starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40. Skilyrði þetta á ekki við um framlög sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins ráðstafar skv. 1. mgr. Á hverju lögbýli eða garðyrkjubýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi greiðslna. Þó er einstaklingum í hjúskap eða óvígðri sambúð á hverju lögbýli heimilt að skrá tvo framleiðendur sem handhafa greiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.


46. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „framlags“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða landgreiðslna.
 2. Á eftir orðinu „jarðabóta“ í 2. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: og landgreiðslna.


47. gr.

     Í stað orðanna „Búnaðarsambönd eða leiðbeiningarmiðstöð“ í 8. gr. laganna kemur: Matvælastofnun.

48. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Jarðabætur og landgreiðslur.

49. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „búfjárræktar“ í 1. málsl. kemur: kynbóta.
 2. Í stað 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einnig skal tryggja framfarir á sviði stofnræktunar og útvalsathugana plantna. Kynbótaverkefni skulu taka mið af skuldbindingum Íslendinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.


50. gr.

     Orðin „fyrir búfé“ í 1. málsl. 11. gr. laganna falla brott.

51. gr.

     Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Kynbótaverkefni.

52. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 20.–22. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     
     a. (20. gr.)
Framkvæmdanefnd búvörusamninga.
     Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila um framkvæmd samnings skv. 3. gr. Ráðherra skipar nefndina samkvæmt ákvæðum búvörulaga. Nefndin er ráðherra til ráðgjafar við framkvæmd samnings skv. 3. gr. Hún tekur ákvarðanir um tilfærslur framlaga milli einstakra samningsliða og greiðslutilhögun framlaga. Fundargerðir og ákvarðanir nefndarinnar skal birta opinberlega.
     Ákvarðanir framkvæmdanefndar búvörusamninga eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     
     b. (21. gr.)
Þróunarframlög.
     Þróunarframlög eru veitt til að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt sem og öðrum búgreinum.
     Framleiðnisjóður landbúnaðarins ráðstafar framlögum til verkefna skv. 1. mgr. að fenginni umsögn fagráðs í viðkomandi búgrein.
     
     c. (22. gr.)
Aðlögun að lífrænni framleiðslu.
     Framlög eru veitt til að greiða fyrir aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum og aðstoða framleiðendur við að uppfylla kröfur um lífræna búvöruframleiðslu.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

53. gr.

     Við 5. gr. laganna bærist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Magntollur samkvæmt viðauka I með lögum þessum á vörur sem falla undir tollskrárnúmer í viðauka VI með lögum þessum skal uppfærður fyrsta virka dag marsmánaðar ár hvert í réttu hlutfalli við breytingu á skráðu tollafgreiðslugengi SDR við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Uppfærðan magntoll skal birta fyrir lok febrúarmánaðar árlega í A-deild Stjórnartíðinda.

54. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
 1. 3. tölul. fellur brott.
 2. 1. málsl. 11. tölul. orðast svo: Af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll (A1-tollur) úr tollnúmerum 0406.2000, 0701.9009, 1517.1009 og 1905.4000 samkvæmt viðauka I við lög þessi og ætluð eru í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur.
 3. Við 11. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Ráðherra er fer með málefni landbúnaðar skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði innflutnings til aðvinnslu samkvæmt þessum tölulið, m.a. um það hverjir geti sótt um undanþágu, lágmarkskröfur um bókhald leyfishafa og upplýsingagjöf leyfishafa til ráðherrans og tollyfirvalda. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.


55. gr.

     Á eftir orðunum „SDR/kg“ í 3. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: miðað við sölugengi SDR fyrsta virka dag marsmánaðar.

56. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 4. mgr. 5. gr. skal magntollur samkvæmt viðauka I með lögum þessum á vörur sem falla undir tollskrárnúmer í viðauka VI með lögum þessum uppfærður fyrsta virka dag marsmánaðar 2017 í réttu hlutfalli við breytingu á skráðu tollafgreiðslugengi SDR á tímabilinu frá 26. ágúst 2016 til 28. febrúar 2017.

57. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. kafla tollskrár í viðauka I við lögin:
A A1 E
% kr./kg %
0402.1010 30 574
0402.1090 30 574
0402.2100 30 717
0402.2900 30 715
0402.9100 30 715
0402.9900 30 715
0406.2000 30 715
0406.3000 30 715
0406.4000 30 832
0406.9000 30 832


58. gr.

     Við lögin bætist nýr viðauki er verður viðauki VI, svohljóðandi:
     0402.1010
     0402.1090
     0402.2100
     0402.2900
     0402.9100
     0402.9900
     0406.2000
     0406.3000
     0406.4000
     0406.9000

IV. KAFLI
Breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013.

59. gr.

     Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við vörslusviptingu skv. 1. mgr. er Matvælastofnun heimilt að fella niður opinberar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, vegna þess dýrs sem vörslusviptingin tekur til. Aflétti Matvælastofnun vörslusviptingu dýrs og afhendi umráðamanni dýrið að nýju skulu opinberar stuðningsgreiðslur vegna dýrsins hefjast að nýju frá afhendingardegi dýrsins.

60. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.

Samþykkt á Alþingi 13. september 2016.