Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1049, 146. löggjafarþing 386. mál: skortsala og skuldatryggingar (EES-reglur).
Lög nr. 55 14. júní 2017.

Lög um skortsölu og skuldatryggingar.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að auka gagnsæi í skortstöðum vissra fjármálagerninga og draga úr uppgjörsáhættu vegna óvarinnar skortsölu og líkum á óstöðugleika á markaði með ríkisskuldir vegna óvarinna skuldatrygginga. Markmiðið er einnig að tryggja að eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði hafi fullnægjandi valdheimildir til að bregðast við kerfisáhættu eða ógn við fjármálastöðugleika sem stafar frá skortsölu eða skuldatryggingum.

2. gr.

Lögfesting.
     Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57 frá 13. október 2016, bls. 575–598, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 204/2016, frá 30. september 2016, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 53–56, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

3. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
     Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer nánar samkvæmt ákvæðum V. kafla reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga, ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beita ákvæðum þeirra laga við framkvæmd eftirlits og vegna samvinnu við Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina samkvæmt lögum þessum.
     Í tengslum við athugun tiltekins máls er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstakling og lögaðila sem á viðskipti með skuldatryggingu um:
 1. útskýringu á tilgangi viðskiptanna og hvort þau hafa þann tilgang að vera áhættuvörn eða annan tilgang og
 2. upplýsingar sem staðfesta undirliggjandi áhættu ef viðskiptin hafa þann tilgang að vera áhættuvörn.

     Síma- og fjarskiptafyrirtækjum er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að fyrirliggjandi gögnum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki enda liggi fyrir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda. Ef samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis liggur ekki fyrir er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefjast fyrir dómi aðgangs að gögnum skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar hjá síma- og fjarskiptafyrirtækjum. Um skilyrði slíkrar kröfu fer eftir 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála og um meðferð hennar fer eftir XV. kafla sömu laga.
     Telji Fjármálaeftirlitið háttsemi andstæða ákvæðum laga þessara getur stofnunin krafist þess að háttseminni verði hætt þegar í stað. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að atvinnustarfsemi verði stöðvuð tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem talin er andstæð ákvæðum laga þessara.
      Fjármálaeftirlitið getur krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 88. gr. laga um meðferð sakamála, eftir því sem við getur átt.

4. gr.

Upplýsingagjöf.
     Um upplýsingagjöf innlendra aðila, bæði til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og stofnana innan EES, fer samkvæmt ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

5. gr.

Aðfararhæfi.
     Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.

6. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga:
 1. 1. mgr. 5. gr. um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins um verulegar hreinar skortstöður í hlutabréfum,
 2. 1. mgr. 6. gr. um opinbera birtingu á verulegum hreinum skortstöðum í hlutabréfum,
 3. 1. mgr. 7. gr. um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins um verulegar hreinar skortstöður í ríkisskuldum,
 4. 8. gr. um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins um óvarðar stöður í skuldatryggingum á ríki,
 5. 1. mgr. 12. gr. um skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að heimilt sé að gera samning um skortsölu hlutabréfs sem tekið hefur verið til viðskipta á viðskiptavettvangi,
 6. 1. mgr. 13. gr. um skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að heimilt sé að gera samning um skortsölu ríkisskuldar,
 7. 1. mgr. 14. gr. um skilyrði sem þarf að vera uppfyllt svo að heimilt sé að gera samning um viðskipti með skuldatryggingu á ríki,
 8. 15. gr. um ferli uppgjörskaupa,
 9. 1. mgr. 18. gr. um tilkynningar og birtingar við sérstakar aðstæður,
 10. 2. mgr. 19. gr. um tilkynningar um verulegar breytingar á gjöldum við sérstakar aðstæður,
 11. 2. mgr. 20. gr. um takmarkanir á skortsölu og sambærilegum viðskiptum við sérstakar aðstæður,
 12. 1. mgr. 21. gr. um takmarkanir á viðskipti með skuldatryggingar á ríki við sérstakar aðstæður,
 13. 1. mgr. 23. gr. um tímabundnar takmarkanir á skortsölu fjármálagerninga ef um er að ræða verulega lækkun á verði.

     Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
 1. alvarleika brots,
 2. hvað brotið hefur staðið lengi,
 3. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
 4. fjárhagsstöðu hins brotlega,
 5. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
 6. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
 7. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
 8. samstarfsvilja hins brotlega,
 9. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 65 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. en geta þó verið hærri, eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
     Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 3. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá því að viðkomandi er tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

7. gr.

Sátt.
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

8. gr.

Réttur grunaðs manns.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

9. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssekt.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.

10. gr.

Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga:
 1. 2. mgr. 20. gr. um takmarkanir á skortsölu og sambærilegum viðskiptum við sérstakar aðstæður,
 2. 1. mgr. 21. gr. um takmarkanir á viðskipti með skuldatryggingar á ríki við sérstakar aðstæður,
 3. 1. mgr. 23. gr. um tímabundnar takmarkanir á skortsölu fjármálagerninga ef um er að ræða verulega lækkun á verði.


11. gr.

Saknæmi o.fl.
     Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

12. gr.

Kæra til lögreglu.
     Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
     Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

13. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra skal setja reglugerðir sem fela í sér innleiðingu í íslenskan rétt á eftirfarandi reglugerðum Evrópusambandsins:
 1. Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 919/2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga með tilliti til tæknilegra eftirlitsstaðla vegna aðferðarinnar við útreikning á lækkun á virði seljanlegra hlutabréfa og annarra fjármálagerninga.
 2. Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 918/2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga að því er varðar skilgreiningar, útreikninga á hreinum skortstöðum, varðar skuldatryggingar á ríki, tilkynningarmörk, seljanleikamörk vegna tímabundinna niðurfellinga, marktæka lækkun á virði fjármálagerninga og óhagstæða atburði.
 3. Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 826/2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um tilkynningar- og birtingarkröfur varðandi hreinar skortstöður, nánari lýsingu á upplýsingunum sem skal veita Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni í tengslum við hreinar skortstöður og aðferðina við að reikna út veltu til að ákvarða hvaða hlutabréf skulu undanþegin.
 4. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 827/2012 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar aðferðir við opinbera birtingu á hreinum skortstöðum, snið upplýsinganna sem skal veita Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni um hreinar skortstöður, gerðir samninga, fyrirkomulags og ráðstafana til að tryggja með fullnægjandi hætti að hlutabréf eða ríkisskuldagerningar séu tiltækir vegna uppgjörs og dagsetningar og tímabil vegna ákvörðunar á meginvettvangi hlutabréfs samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga.


14. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2017.