Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1046, 146. löggjafarþing 411. mál: Framkvæmdasjóður ferðamannastaða (hlutverk, framlag ríkissjóðs o.fl.).
Lög nr. 57 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (hlutverk, framlag ríkissjóðs o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skal stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt.
  2. 1. tölul. 2. mgr. orðast svo: Uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
  3. Í stað orðanna „opinberra aðila“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: eða umsjón sveitarfélaga.
  4. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Framkvæmdir sem eru á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum koma ekki til álita við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nema sérstaklega standi á, verkefnið sé í þágu almannahagsmuna og þarfnist skjótrar úrlausnar.
         Ferðamannastaðir sem úthlutað er til úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skulu vera opnir gjaldfrjálsri umferð almennings eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum. Landeiganda eða umsjónaraðila lands er þó heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu.


2. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Framlag ríkissjóðs sem ákveðið er í fjárlögum.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Rekstrarkostnaður Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða skal greiddur af fjárheimildum sjóðsins.
  4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur og gjöld.


4. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Að lágmarki skal úthluta úr sjóðnum einu sinni á ári.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ný stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða skal skipuð við gildistöku laga þessara. Frá sama tíma fellur umboð fyrri stjórnar niður.
     Stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er heimilt að taka til greina umsóknir opinberra aðila sem mótteknar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara en hafa ekki enn hlotið afgreiðslu.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2017.