Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 134, 148. löggjafarþing 67. mál: réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (launafyrirkomulag forstöðumanna).
Lög nr. 95 30. desember 2017.

Lög um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (launafyrirkomulag forstöðumanna).


1. gr.

     39. gr. a laganna orðast svo:
     Ráðherra ákveður föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns og önnur laun er starfinu fylgja. Ráðherra ákveður hverjar skuli vera forsendur grunnmats og skal þar einkum horft til umfangs og ábyrgðar. Ráðherra ákvarðar jafnframt forsendur viðbótarlauna. Þá ákvarðar ráðherra einnig starfskjör forstöðumanna. Hlutaðeigandi ráðherra, eða eftir atvikum stjórn, ákvarðar greiðslu viðbótarlauna, innan ramma hinna almennu forsendna sem ráðherra setur. Við ákvörðun kjara samkvæmt þessari grein skal sérstaklega gæta samræmis við þau kjör hjá ríkinu sem byggjast á kjarasamningum og skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Samráð skal haft við Félag forstöðumanna ríkisstofnana um forsendur grunnmats starfa, annarra launa og viðbótarlauna og skal félaginu gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma fyrir hönd forstöðumanna. Ríkissjóður greiðir sérstakt framlag til félagsins til að standa straum af kostnaði sem hlýst af rekstri álitamála vegna framkvæmdar þessarar greinar. Framlag þetta skal nema 0,70% af heildarlaunum þeirra forstöðumanna sem undir grein þessa heyra.
     Forsætisnefnd Alþingis ákvarðar föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs skrifstofustjóra Alþingis, önnur laun og starfskjör er starfinu fylgja með hliðsjón af þeim forsendum sem settar eru samkvæmt þessari grein. Forsætisnefnd Alþingis ákvarðar einnig viðbótarlaun innan ramma hinna almennu forsendna sem ráðherra setur. Á sama hátt ákvarðar stjórn dómstólasýslunnar föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar, skrifstofustjóra Hæstaréttar og Landsréttar, sem og önnur laun, viðbótarlaun og starfskjör. Við ákvörðun launa samkvæmt þessari málsgrein skal gæta sömu sjónarmiða og fram koma í 1. mgr. og skal hún rökstudd og tilkynnt til ráðherra sem birtir hana opinberlega skv. 4. mgr.
     Áður en ákvörðun um breytingu á grunnmati, öðrum launum eða viðbótarlaunum er tekin skal afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga og getur ráðherra, hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn krafist skýrslna, munnlegra eða skriflegra, af aðilum. Skal þar m.a. veita upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem störfunum fylgja. Ákvörðun um viðbótarlaun, sbr. 1. og 2. mgr., skal vera tímabundin en gildir þó aldrei lengur en tvö ár í senn. Taka má beiðni um greiðslu viðbótarlauna til meðferðar að ósk hlutaðeigandi forstöðumanns. Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd viðbótarlauna og skal gera hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn grein fyrir því ef hann telur að framkvæmdin sé í ósamræmi við þær forsendur sem settar hafa verið um viðbótarlaun skv. 1. mgr. Félagi forstöðumanna ríkisstofnana er heimilt að óska eftir samantekt ráðherra á framkvæmd þessarar málsgreinar.
     Taka skal mál til meðferðar skv. 1., 2. og 3. mgr. að ósk forstöðumanns, hlutaðeigandi ráðherra, stjórnar eða Félags forstöðumanna ríkisstofnana eða þegar þurfa þykir og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á launum í þjóðfélaginu eða á störfum forstöðumanna. Eigi sjaldnar en árlega skal ráðherra meta hvort tilefni sé til að endurmeta fjárhæðir til samræmis við sameiginlega launastefnu á vinnumarkaði eða önnur viðmið sem lýsa almennri launaþróun á vinnumarkaði. Ákvarðanir skv. 1., 2. og 3. mgr. skulu rökstuddar og birtar opinberlega.
     Ráðherra skal taka saman og birta árlega sundurliðaðar upplýsingar um heildarlaun þeirra er falla undir kjararáð, þeirra forstöðumanna sem falla undir grein þessa og framkvæmdastjóra félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins. Stjórnum félaga í meirihlutaeigu ríkisins er skylt að veita ráðherra sundurliðaðar upplýsingar um heildarlaun framkvæmdastjóra þeirra.
     Ákvörðunum samkvæmt þessari grein verður ekki skotið til annars stjórnvalds.

2. gr.

     Orðin „fyrir forstöðumenn“ í 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. c laganna falla brott.

3. gr.

     Lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Samþykkt á Alþingi 29. desember 2017.