Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1120, 148. löggjafarþing 395. mál: innheimtulög (innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna).
Lög nr. 55 19. júní 2018.

Lög um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008 (innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna).


1. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Lögmenn, lögmannsstofur og lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu eins eða fleiri lögmanna eða lögmannsstofa, svo og opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, mega þó stunda innheimtu án innheimtuleyfis.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hefur gilda starfsábyrgðartryggingu skv. 14. gr.
  2. Á eftir orðinu „skilyrðum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: a–e-liðar.
  3. Í stað orðanna „a- og e-liðar“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: a-, e- og f-liðar.


3. gr.

     Við 2. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innheimtuaðili er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.

4. gr.

     2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa skv. 2. mgr. 3. gr. fer Lögmannafélag Íslands með eftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um lögmenn.

5. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Niðurfelling innheimtuleyfis.
     Innheimtuleyfi innheimtuaðila fellur niður:
  1. sé það ekki nýtt innan tólf mánaða frá útgáfu innheimtuleyfis;
  2. afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu með ótvíræðum hætti; eða
  3. séu liðnir meira en sex mánuðir síðan starfsemi var hætt.

     Afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu skv. b-lið 1. mgr. skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptavina sinna og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum. Hann skal jafnframt upplýsa viðskiptamenn sína um afsal innheimtuleyfis.
     Fjármálaeftirlitið skal staðfesta niðurfellingu innheimtuleyfis. Innheimtuaðila er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á niðurfellingu leyfis.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. júní 2018.