Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 736, 149. löggjafarþing 235. mál: umboðsmaður Alþingis (OPCAT-eftirlit).
Lög nr. 147 21. desember 2018.

Lög um breytingu á lögum um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, með síðari breytingum (OPCAT-eftirlit).


1. gr.

     Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Umboðsmaður sinnir jafnframt hlutverki þess eftirlitsaðila sem tilgreindur er í 3. gr. valfrjálsrar bókunar frá 18. desember 2002 við samning Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1984 gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

2. gr.

     Á eftir 2. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þegar umboðsmaður sinnir því hlutverki sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 2. gr. tekur starfssvið hans enn fremur til stofnana og heimila á vegum einkaaðila þar sem dvelja einstaklingar sem eru sviptir frelsi sínu og frelsissviptingin á sér stoð í fyrirmælum opinberra aðila, að undirlagi þeirra, með samþykki eða er látin átölulaus af þeirra hálfu.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Umboðsmaður Alþingis getur krafið stjórnvöld og aðra sem falla undir eftirlit umboðsmanns um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem snerta mál, eftirlit eða athuganir umboðsmanns, þ.m.t. eru heilsufarsupplýsingar, sjúkraskrár og gögn um vistun og meðferð einstaklinga. Heimild þessi tekur einnig til þess að fá gögnin afhent í rafrænu formi. Gögn skulu afhent umboðsmanni honum að kostnaðarlausu.
  3. Á eftir orðinu „sveitarfélaga“ í 2. mgr. kemur: og þeirra einkaaðila sem falla undir eftirlit umboðsmanns.
  4. Á eftir orðinu „stjórnvalda“ í 3. mgr. kemur: og einkaaðila að því marki sem þeir falla undir starfssvið hans.
  5. Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Umboðsmaður skal enn fremur án dómsúrskurðar eiga frjálsan aðgang að stofnunum og heimilum á vegum einkaaðila þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða geta verið sviptir frelsi sínu, sbr. 3. mgr. 3. gr. Getur umboðsmaður rætt einslega við starfsmenn slíkra stofnana og heimila og þá sem þar dvelja. Hið sama á við um undirnefnd um forvarnir skv. 2. gr. valfrjálsrar bókunar frá 18. desember 2002 við samning Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1984 gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
  6. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Við rannsókn máls og athuganir sínar skv. 1. og 3. mgr. er umboðsmanni heimilt að leita aðstoðar lögreglu þegar sérstaklega stendur á og er lögreglu þá skylt að veita aðstoð ef umboðsmaður óskar þess.


4. gr.

     Við 2. málsl. 8. gr. laganna bætist: og aðra sem starfa í þágu hans.

5. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Umboðsmaður getur enn fremur, til viðbótar við það sem segir í 2. mgr., látið í ljós álit sitt á því hvort atriði sem varða starfsemi stofnunar eða heimilis, auk atriða sem varða meðferð og aðbúnað þeirra sem sviptir hafa verið frelsi sínu, séu andstæð sjónarmiðum um mannúð og mannvirðingu. Getur hann beint tilmælum til þeirra sem sæta eftirliti hans sem miða að því að bæta meðferð og aðbúnað frelsissviptra einstaklinga og að því að fyrirbyggja pyndingar og aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Með skýrslunni skal samhliða gerð grein fyrir starfi umboðsmanns skv. 3. mgr. 3. gr. og hún skal birt opinberlega fyrir 1. september ár hvert.
  2. Í stað orðanna „greina hvað stjórnvaldið, er hlut á að máli, hefur fært fram sér til varnar“ í 4. mgr. kemur: greina frá þeim skýringum sem sá aðili sem eftirlit umboðsmanns beinist að hefur fært fram vegna þeirra atriða sem umboðsmaður gerir athugasemdir við.


7. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Um vernd þeirra sem greina frá brotum.
     Þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu er þeim sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum, vönduðum stjórnsýsluháttum, siðareglum eða öðrum reglum og starfsháttum, í starfsemi þeirra sem falla undir starfssvið umboðsmanns, heimilt í þágu þeirra almannahagsmuna sem umboðsmaður hefur eftirlit með að greina honum frá slíku og afhenda honum gögn þar að lútandi.
     Sá sem óskar eftir að greina frá eða afhenda gögn skv. 1. mgr. skal taka fram ef hann óskar eftir að njóta verndar samkvæmt þessari lagagrein. Umboðsmaður greinir viðkomandi frá því hvort upplýsingarnar hafi orðið honum tilefni athafna þannig að ákvæði 4. mgr. eigi við.
     Umboðsmaður skal gæta leyndar um þær persónuupplýsingar sem hann aflar eða honum berast skv. 1. mgr. nema viðkomandi veiti til þess afdráttarlaust samþykki sitt, sbr. þó e-lið 2. mgr. 10. gr. Í því felst að réttur einstaklinga til að fá vitneskju um hvaða persónuupplýsingar þeirra umboðsmaður hefur unnið með er ekki fyrir hendi. Heimilt er að eyða persónugreinanlegum upplýsingum og öðrum gögnum sem umboðsmaður fær skv. 1. mgr. eða aflar af því tilefni þegar umboðsmaður telur ekki lengur þörf á þeim við meðferð á máli.
     Óheimilt er að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem í góðri trú hefur veitt umboðsmanni upplýsingar sem leitt hafa til athafna umboðsmanns vegna upplýsingagjafarinnar. Til slíkrar meðferðar telst t.d. að rýra réttindi, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem látið hefur umboðsmanni í té upplýsingar gjalda þess á annan hátt. Séu leiddar líkur að slíku skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að umboðsmanni hafi verið látnar í té upplýsingar.
     Brot gegn 4. mgr. varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Ákvæði þessarar greinar taka einnig til þeirra sem greina undirnefnd skv. 2. gr. valfrjálsrar bókunar frá 18. desember 2002 við samning Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1984 gegn pyndingum og annarri grimmilegri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá brotum eða misfellum í starfsemi stofnana og heimila skv. 3. mgr. 3. gr.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2018.