Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 734, 149. löggjafarþing 156. mál: umboðsmaður barna (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing).
Lög nr. 148 21. desember 2018.

Lög um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Embætti umboðsmanns barna hefur það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem nánar greinir í lögum þessum.
  3. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Umboðsmaður barna er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Orðin „nema sérstaklega standi á“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við skipun nýs umboðsmanns skal leita umsagnar ráðgjafarhóps barna skv. 2. mgr. 3. gr.
  3. Á eftir orðinu „störf“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: nema með leyfi ráðherra.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Umboðsmaður barna skal í störfum sínum leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi.
  3. Á eftir a-lið 2. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: fylgjast með þróun og túlkun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
  4. Í stað orðsins „stjórnsýsluhafa“ í b-lið 2. mgr. kemur: stjórnvalda.
  5. Í stað orðanna „virtir verði þjóðréttarsamningar“ í c-lið 2. mgr. kemur: samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé virtur sem og aðrir alþjóðasamningar.
  6. Við d-lið 2. mgr. bætist: t.d. með því að beina rökstuddri álitsgerð til viðkomandi aðila ásamt tillögum um úrbætur eigi það við.
  7. Við 2. mgr. bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
    1. afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila; þau gögn skulu lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins,
    2. stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og allri stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum,
    3. stuðla að því að börn fái kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þeim réttindum sem í honum felast.
  8. 3. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist: en erindi frá börnum njóta forgangs.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Umboðsmaður barna endurskoðar ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum.


5. gr.

     Í stað orðsins „d-lið“ í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: e-lið 3. mgr.

6. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein er verður 6. gr. a, svohljóðandi:
     Umboðsmaður barna boðar til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn.
     Á þinginu skal fjalla um málefni barna og við upphaf þess leggur umboðsmaður fram skýrslu um stöðu þeirra. Í skýrslunni skal m.a. fjallað um stöðu og þróun málefna barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Önnur verkefni þingsins ákveður umboðsmaður barna.
     Þingið er öllum opið en umboðsmaður barna skal bjóða fjölbreyttum hópi barna til þingsins, alþingismönnum og fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna.
     Seta á þinginu er ólaunuð.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Orðin „prenta og“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðsins „setur“ í 2. mgr. kemur: er heimilt að setja.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2018.