Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1177, 149. löggjafarþing 496. mál: meðferð einkamála og meðferð sakamála (táknmálstúlkar o.fl.).
Lög nr. 18 29. mars 2019.

Lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum (táknmálstúlkar o.fl.).


Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      4. Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta og skal þá aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til táknmálstúlk. Um heit táknmálstúlks og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr. Þóknun og annar kostnaður vegna starfa táknmálstúlks greiðist úr ríkissjóði.
  3. Á eftir orðinu „ekki“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.
  4. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þóknun og annar kostnaður vegna starfa kunnáttumanns greiðist úr ríkissjóði.


2. gr.

     Á eftir orðunum „fyrirliggjandi gagna“ í 3. málsl. 3. mgr. 158. gr. laganna kemur: og að jafnaði.

3. gr.

     Á eftir orðunum „fyrirliggjandi gagna“ í 3. málsl. 3. mgr. 182. gr. laganna kemur: og að jafnaði.

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta og skal þá ákæruvaldið sjá um að kalla til táknmálstúlk. Um heit slíks manns og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr.
  3. Á eftir orðinu „ekki“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.
  4. 5. mgr. orðast svo:
  5.      Þann einn má kveðja til sem dómtúlk, táknmálstúlk, þýðanda eða kunnáttumann sem er orðinn 20 ára að aldri. Að auki má dómtúlkur, táknmálstúlkur eða kunnáttumaður ekki vera vanhæfur til að taka starfann að sér, sbr. 6. gr. Dómari ákveður þóknun til handa dómtúlki, táknmálstúlki, þýðanda eða kunnáttumanni og greiðist þóknunin og annar kostnaður vegna starfa hans úr ríkissjóði.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt skal lögregla kalla til táknmálstúlk ef skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta.
  2. Á eftir orðinu „ekki“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 2019.