Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1475, 149. löggjafarþing 632. mál: vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður (reglugerðir og reglur).
Lög nr. 26 15. maí 2019.

Lög um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um vátryggingasamstæður (reglugerðir og reglur).


I. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, með síðari breytingum.

1. gr.

     78. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið setur reglur þar sem fram koma upplýsingar um áhættulausan vaxtaferil fyrir viðeigandi gjaldmiðla til að reikna besta mat vátryggingaskuldar vegna ársfjórðungslegra gagnaskila. Við setningu reglnanna er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa til birtingar á framkvæmdarreglugerðum sem innihalda upplýsingarnar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku.
     Fjármálaeftirlitið birtir upplýsingar skv. 1. mgr. á vef sínum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
  1. 2. tölul. orðast svo: Aðferðir við að reikna áhættulausan vaxtaferil til núvirðingar á besta mati vátryggingaskuldar skv. 2. mgr. 76. gr., þ.m.t. skilyrði þess að nota aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna samræmingar, útreikninga á aðlögun vegna samræmingar og aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika.
  2. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Málsmeðferð sem fylgja skal við samþykki á umsókn um aðlögun vegna samræmingar.


II. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, með síðari breytingum.

3. gr.

     Í stað orðanna „um kröfur, sem umsókn skv. 1. mgr. þarf að fullnægja“ og „byggjast“ í 8. mgr. 21. gr. laganna kemur: um ferli vegna umsóknar skv. 1. mgr.; og: byggist.

4. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um ferli vátryggingasamstæðu við gerð skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og um form skýrslunnar.

5. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 2019.