Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1442, 149. löggjafarþing 442. mál: opinber innkaup (markviss innkaup, keðjuábyrgð o.fl.).
Lög nr. 37 16. maí 2019.

Lög um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016 (markviss innkaup, keðjuábyrgð o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Við bætist eftirfarandi orðskýring í viðeigandi stafrófsröð: Innkaupaþjónusta: Þjónusta sem Ríkiskaup veita öðrum opinberum aðilum til að ná fram gagnsæjum, hagkvæmum og markvissum innkaupum á grundvelli laganna, t.d. með því að afla vöru eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gera opinbera samninga eða rammasamninga um verk, vöru eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum.
 2. Við 30. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Allar viðmiðunarfjárhæðir eru án virðisaukaskatts.


2. gr.

     Í stað orðanna „tilboð eða tilboð sem uppfylla ekki skilmála innkaupaferlis“ í e-lið 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: eða óaðgengileg tilboð, sbr. 82. gr.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á a-lið 1. mgr. 39. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „gild“ og „gildar“ kemur: fullnægjandi.
 2. Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilboð telst ekki fullnægjandi þegar það hefur ekki tengsl við samninginn og dugir bersýnilega ekki, án verulegra breytinga, til að mæta þörfum kaupanda eða kröfum eins og þær eru tilgreindar í útboðsgögnum. Þátttökutilkynning telst ekki fullnægjandi ef viðkomandi fyrirtæki er eða gæti verið útilokað skv. 68. gr. eða ef það uppfyllir ekki hæfiskröfur skv. 69.–72. gr.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „samningsviðræðum“ í 1. og 2. mgr. kemur: samkeppnisviðræðum.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Frestir í lokuðu útboði, samkeppnisútboði, samkeppnisviðræðum og nýsköpunarsamstarfi.


5. gr.

     Á eftir orðinu „ógilt“ í a-lið 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: eða óaðgengilegt.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
 1. 2. málsl. fellur brott.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Tilboð telst óaðgengilegt og ekki uppfylla skilmála innkaupaferlis ef það er lagt fram af bjóðanda sem skortir nauðsynlegt hæfi eða dugir bersýnilega ekki, án verulegra breytinga, til að mæta þörfum kaupanda, eins og tilgreint er í útboðsgögnum. Þá telst tilboð einnig óaðgengilegt ef bjóðandi býður hærra verð en fyrir fram ákveðin fjárhagsáætlun kaupanda gerir ráð fyrir, nema kaupandi hafi áskilið sér rétt til að taka slíku tilboði.
 4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ógilt og óaðgengilegt tilboð.


7. gr.

     Við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Kaupanda er heimilt að hafna öllum tilboðum standi málefnalegar ástæður til þess eða hafi almennar forsendur fyrir útboði brostið. Kaupandi skal rökstyðja ákvörðun sína um að hafna öllum tilboðum.

8. gr.

     Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein, 88. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Keðjuábyrgð.
     Aðalverktaki skal tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Kaupandi skal gera grein fyrir ábyrgð aðalverktaka í útboðsgögnum.
     Kaupanda er heimilt að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna, á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með slíkar greiðslur.
     Skilyrði fyrir greiðslum skv. 2. mgr. er að heimild þar að lútandi sé tilgreind í útboðsgögnum, að verk sé í nánu og eðlilegu samhengi við opinberan samning sem undirverktaka er ætlað að framkvæma fyrir aðalverktaka og að kröfum sé beint til verkkaupa innan fjögurra mánaða frá því að þær gjaldféllu.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna.
 1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Kaupanda ber að ákveða innkaupaaðferð sem samræmist meginreglum innkaupa skv. 15. gr. og auglýsa í samræmi við reglur skv. 93. gr.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er hinu opinbera frjálst að ákveða hvernig staðið skuli að framkvæmd verks eða veitingu þjónustu, einkum til að tryggja hátt gæðastig, öryggi og viðráðanlegt verð, jafna meðferð og stuðla að almennum aðgangi og réttindum notenda í tengslum við opinbera þjónustu. Af þeim sökum hafa ákvæði laga þessara ekki áhrif á svigrúm opinberra aðila til að skilgreina þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, hvernig skipuleggja skuli þessa þjónustu og fjármagna hana, í samræmi við reglur um ríkisaðstoð, sem og hvaða sérstöku skuldbindingar skulu gilda um hana. Þá taka lögin ekki til þjónustu í almannaþágu sem ekki er af efnahagslegum toga.


10. gr.

     99. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Markviss innkaup og skipulag innkaupaþjónustu.
     Ráðherra skal stuðla að því að innkaup ríkisins í þágu ríkisstofnana séu gagnsæ, hagkvæm og markviss, að sameiginlegar þarfir fyrir vöru og þjónustu séu rannsakaðar, að sameiginleg innkaup séu nýtt til þarfa ríkisins og að unnið sé að þróun skilvirkra innkaupakerfa. Veita skal aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur. Gerðir skulu samningar um sameiginleg innkaup fyrir hönd ríkisins eftir því sem talið er hagkvæmt og skal í því sambandi m.a. horft til hæfis, verðs, gæða og eftir atvikum magns innkaupa.
     Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um fyrirkomulag útboða og annarra innkaupaferla sem fram fara á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa, hvort heldur er yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum eða viðmiðunarfjárhæðum fyrir Evrópska efnahagssvæðið skv. 23. gr. Í reglugerðinni skal einnig ákvarðað hvernig kaupandi telst hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt lögum þessum.

11. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Fyrirkomulag innkaupa ríkisins.

12. gr.

     Á eftir orðinu „starfsmann“ í 1. málsl. 102. gr. laganna kemur: eða annan aðila.

13. gr.

     Við 122. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Rafræna reikningagerð í opinberum innkaupum til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 10. og 11. gr. gildi 1. september 2019 og 8. gr. 1. janúar 2020.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 2019.