Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1791, 149. löggjafarþing 795. mál: húsaleigulög (bætt réttarstaða leigjenda við lok leigusamnings).
Lög nr. 63 24. júní 2019.

Lög um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (réttarstaða leigjenda).


1. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
     Þegar leigjandi er starfsmaður leigusala og hefur fengið afnot af húsnæði eða hluta húsnæðis til íbúðar vegna þess starfs er uppsögn leigusamnings heimil báðum aðilum hans láti leigjandi af störfum að eigin ósk, honum er sagt upp eða vikið úr starfi eða þegar fyrir fram umsömdum ráðningartíma lýkur. Tilkynning um uppsögn leigusamnings samkvæmt þessari grein skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti eigi síðar en átta vikum frá lokum ráðningarsambandsins. Uppsögn leigjanda tekur þegar gildi við sendingu tilkynningar um uppsögn enda segi hann leigusamningnum upp eigi síðar en átta vikum frá lokum ráðningarsambands. Um uppsagnarfrest af hálfu leigusala gilda ákvæði 1. mgr. 56. gr. hvort sem leigusamningur er tímabundinn eða ótímabundinn.
     Sé gerður tímabundinn samningur um afnot af húsnæði eða hluta húsnæðis til íbúðar skv. 1. mgr. getur slíkur samningur aldrei verið til skemmri tíma en ráðningarsamningur starfsmanns. Þá skal samningurinn vera ótímabundinn sé ráðningarsamningur starfsmanns ótímabundinn.

2. gr.

     Við 56. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. um uppsagnarfrest gilda einnig við uppsögn tímabundins leigusamnings af hálfu leigusala skv. 50. gr.

3. gr.

     Við 1. málsl. 2. mgr. 58. gr. laganna bætist: sbr. þó 50. gr.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Ákvæði 50. gr. skal endurskoða fyrir 31. október 2021 í ljósi fenginnar reynslu.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda um húsaleigusamninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra.
     Aðilum eldri leigusamninga er heimilt að semja um að lög þessi gildi um samninga þeirra.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2019.