Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1816, 149. löggjafarþing 802. mál: þjóðgarðurinn á Þingvöllum (samningar við þjónustuaðila).
Lög nr. 85 27. júní 2019.

Lög um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, með síðari breytingum (samningar við þjónustuaðila).


1. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
     Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins.
     Þingvallanefnd skal móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins, þ.m.t. móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og samninga þar um. Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu.
     Ákvæði þetta gengur framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

2. gr.

     Við 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna bætist: og taka gjöld vegna samninga skv. 5. gr. a sem skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2020.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2019.