Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1942, 149. löggjafarþing 801. mál: menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Lög nr. 95 1. júlí 2019.

Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.


I. KAFLI
Gildissvið og markmið.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til menntunar, hæfni og ráðningar kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögverndunar starfsheita og starfsréttinda þeirra.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja að þeir sem sinna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstörfum í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun og hæfni í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.

II. KAFLI
Hæfni og kennaramenntun.

3. gr.

Hæfnirammi.
     Hæfni í skilningi laga þessara felur í sér almenna og sérhæfða þekkingu, leikni og hæfni sem kennarar og skólastjórnendur skulu búa yfir. Hæfni felur í sér getu til að hagnýta þekkingu og leikni í samræmi við aldur og þroska nemenda og aðstæður hverju sinni. Hæfniviðmiðum fyrir kennara og skólastjórnendur er skipt í viðmið um almenna hæfni, sbr. 4. gr., og sérhæfða hæfni, sbr. 5. gr.
     Hæfnirammi fyrir kennara felur í sér viðmið sem ætlað er að:
  1. veita leiðsögn um inntak kennaramenntunar,
  2. setja fram skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfs kennara,
  3. vera grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs,
  4. veita leiðsögn um starfsþróun og endurmenntun kennara,
  5. veita leiðsögn við ráðningu kennara.

     Rétt til að nota starfsheitið kennari hefur einstaklingur sem býr yfir almennri hæfni, sbr. 4. gr., og sérhæfðri hæfni, sbr. 5. gr.

4. gr.

Almenn hæfni kennara.
     Rammi fyrir almenna hæfni kennara er í lögum þessum skilgreindur út frá eftirfarandi hæfniþáttum:
  1. Hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af lýsingum á markmiði og hlutverki laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og birtist í aðalnámskrám sem settar eru á grundvelli þeirra.
  2. Hæfni til að leggja mat á stöðu og framfarir nemenda.
  3. Hæfni til að hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
  4. Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.
  5. Hæfni til að stuðla að farsælu og uppbyggilegu samstarfi við heimili og forsjáraðila nemenda á jafnréttisgrundvelli.
  6. Hæfni til að miðla þekkingu sinni á íslensku eftir því sem við á.
  7. Hæfni til að vera faglegur leiðtogi sem leggur sig fram um að skapa umbótamiðað lærdómssamfélag og taka ábyrgð á eigin starfsþróun og vinna að henni alla starfsævina.

     Til að öðlast þá almennu hæfni sem hér er skilgreind skal miða við að lágmarki 60 námseiningar í uppeldis- og kennslufræðigreinum.

5. gr.

Sérhæfð hæfni kennara og skólastjórnenda.
     Rammi fyrir sérhæfða hæfni kennara snýr að mismunandi aldri og þroska nemenda, námssviði, greinasviði, fræðigrein, starfsmenntun og öðrum þáttum sem tengjast kennslu, námsumhverfi og skólastarfi. Sérhæfð hæfni getur m.a. falið í sér eftirfarandi:
  1. Kennari með sérhæfingu á leikskólastigi býr, auk almennrar hæfni, yfir sérhæfðri hæfni í að lágmarki einu námssviði aðalnámskrár leikskóla og menntunarfræði leikskóla, að lágmarki 90 námseiningar.
  2. Kennari með sérhæfingu á grunnskólastigi býr, auk almennrar hæfni, yfir sérhæfðri hæfni í að lágmarki einu greinasviði aðalnámskrár grunnskóla og menntunarfræði grunnskóla, að lágmarki 90 námseiningar.
  3. Kennari með sérhæfingu til að kenna list- og bóknámsgreinar á 1. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla eða aðalnámskrá tónlistarskóla býr, auk almennrar hæfni, yfir sérhæfðri hæfni, að lágmarki 90 námseiningar.
  4. Kennari með sérhæfingu til að kenna þriðja tungumál í framhaldsskóla býr, auk almennrar hæfni, að lágmarki yfir sérhæfðri hæfni í viðkomandi tungumáli sem krafist er við námslok á stigi 1.2 samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.
  5. Kennari með sérhæfingu til að kenna list- og bóknámsgreinar á 2.–4. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla eða aðalnámskrá tónlistarskóla býr, auk almennrar hæfni, að lágmarki yfir þeirri hæfni á viðkomandi fræðasviði sem krafist er við námslok á stigi 1.2 samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.
  6. Kennari sem lokið hefur starfsréttindaprófi á 3.–4. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla telst vera með sérhæfingu í starfsmenntun á framhaldsskólastigi eða í verkgrein á grunnskólastigi.

     Skólastjórnandi í leik-, grunn- og framhaldsskóla býr, auk almennrar hæfni, yfir sérhæfðri hæfni sem snýr að skólaþróun, stjórnun, rekstri og stjórnsýslu.

6. gr.

Skipulag kennaramenntunar.
     Háskóli sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir og býður upp á menntun kennara skal skipuleggja námið á grundvelli hæfniviðmiða og reglugerðar sem kveðið er á um í 8. gr.

7. gr.

Kennararáð.
     Ráðherra skipar ellefu manna kennararáð til fjögurra ára í senn. Ráðið skal skipað þremur sérfræðingum frá kennaramenntunarstofnunum, þremur sérfræðingum í kennslu á mismunandi skólastigum sem tilnefndir eru af Kennarasambandi Íslands, einum sérfræðingi frá Menntamálastofnun, einum sérfræðingi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum sérfræðingi frá heildarsamtökum framhaldsskóla. Ráðherra skipar tvo sérfræðinga án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Kennararáð setur sér starfsreglur og tekur ákvörðun um stofnun faghópa eftir því sem við á. Kennararáð hefur starfsaðstöðu hjá Menntamálastofnun og er kostnaður af starfsemi ráðsins greiddur úr ríkissjóði.
     Hlutverk kennararáðs er m.a. að:
  1. veita ráðherra ráðgjöf og leiðbeiningar um þróun hæfniramma með því að gera tillögu um innihald og endurskoðun reglugerðar um hæfniramma fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda,
  2. veita leiðbeiningar og ráðgjöf um útfærslu hæfniramma á grundvelli þessa kafla og reglugerðar skv. 8. gr.,
  3. veita ráðgjöf um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og notkun hæfniramma við útfærslu og framkvæmd hennar,
  4. fylgjast með alþjóðlegri þróun og áherslum í menntavísindum og nýta við ráðgjöf um kennaramenntun og starfsþróun,
  5. veita leiðsögn um mat á sérhæfingu kennara við ráðningu,
  6. efla vitund um mikilvægi kennarastarfsins í samfélaginu.


8. gr.

Reglugerðarheimild.
     Í reglugerð sem ráðherra gefur út er nánar lýst hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda. Í henni skal m.a. kveðið á um hæfni kennara í íslensku. Kennararáð, sbr. 7. gr., gerir tillögur um innihald og endurskoðun reglugerðarinnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

III. KAFLI
Leyfisbréf, starfsréttindi og ráðningar í skólum.

9. gr.

Starfsheiti og leyfisbréf.
     Rétt til að nota starfsheitið kennari og starfa við leik-, grunn- eða framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfisbréf.
     Til að öðlast leyfisbréf þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni, sbr. 4. gr., og skal þá miða við að lágmarki 60 námseiningar í uppeldis- og kennslufræði, og sérhæfingu skv. 5. gr.
     Kennari með sérhæfingu á leikskólastigi eða grunnskólastigi eða í list- og bóknámsgreinum á framhaldsskólastigi skal annaðhvort hafa lokið:
  1. 120 námseininga meistaraprófi af stigi 2.1 eða 2.2 samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi eða
  2. öðru námi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi.

     Starfsmenntakennari skal hafa lokið meistararéttindum í iðngrein eða löggiltu starfsréttindaprófi úr framhaldsskóla auk 60 námseininga samkvæmt ákvæðum 4. gr.
     Með námseiningum er í lögum þessum átt við ECTS-einingar eða staðlaðar námseiningar, sbr. lög um háskóla.

10. gr.

Útgáfa leyfisbréfa.
     Menntamálastofnun tekur við umsóknum og gefur út leyfisbréf kennara. Stofnunin hefur umsjón með skrá yfir þá sem hlotið hafa leyfisbréf.
     Menntamálastofnun metur umsóknir með hliðsjón af kröfum laga þessara. Telji stofnunin að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um veitingu leyfisbréfs skal í rökstuðningi tilgreina hvaða kröfur séu gerðar um útgáfu leyfisbréfs og að hvaða leyti skorti á að umsækjandi uppfylli þær.
     Heimilt er að fela háskólum, sem hafa hlotið viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun kennara eftir samningi við ráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa í umboði Menntamálastofnunar samkvæmt lögum þessum.
     Umsækjandi um leyfisbréf kennara hefur rétt til að kæra ákvörðun Menntamálastofnunar um synjun til ráðherra.

11. gr.

Réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA.
     Menntamálastofnun staðfestir leyfi til að nota starfsheitið kennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins eða Færeyjum í samræmi við skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með áorðnum breytingum.
     Menntamálastofnun skal samkvæmt umsókn frá ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu staðfesta leyfi til að nota starfsheitið kennari með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., enda leggi viðkomandi fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í aðildarríki samtakanna.

12. gr.

Ráðningar.
     Til þess að vera ráðinn kennari við leik-, grunn- eða framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið kennari og hafa þá sérhæfingu sem tilgreind er í auglýsingu.
     Til þess að vera ráðinn skólastjórnandi við leik-, grunn- og framhaldsskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið kennari, búa yfir hæfni sem stjórnandi og hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða reynslu sem veitir umsækjanda sérhæfða hæfni, sbr. 5. gr.
     Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við leik-, grunn- og framhaldsskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu er heimilt að sækja upplýsingar úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, að veittri fræðslu til hans þar að lútandi.

13. gr.

Auglýsingar.
     Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum eftir því sem við á í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sveitarstjórnarlög og reglur settar samkvæmt þeim.
     Í auglýsingu skal tilgreina menntunarkröfur, sérhæfingu, starfsreynslu og aðra hæfni sem við á. Ekki er skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 18. gr.
     Menntamálastofnun gefur út leiðbeiningar um verklag við ráðningar kennara og stjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla að höfðu samráði við ráðuneytið, ráðuneyti sem fer með starfsmannamál ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga.

14. gr.

Ráðning kennara í leik- og grunnskóla.
     Skólastjórar eða stjórnandi, sem sveitarstjórn eða rekstraraðili felur ráðningarvald, ráða kennara við leik- og grunnskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um leikskóla og laga um grunnskóla og ákvæði sveitarstjórnarlaga og viðeigandi kjarasamninga.
     Að lágmarki 2/ 3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda kennara.

15. gr.

Ráðning skólastjórnenda í leik- og grunnskóla.
     Sveitarstjórn eða sá sem sveitarstjórn felur umboð sitt, eða aðrir rekstraraðilar, ráða skólastjórnendur við leik- og grunnskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um leikskóla og laga um grunnskóla og ákvæði sveitarstjórnarlaga.
     Sé um samrekstur grunnskóla, leikskóla og/eða tónlistarskóla að ræða undir stjórn eins skólastjóra skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa sérhæfingu á leik- eða grunnskólastigi.

16. gr.

Ráðningar í framhaldsskóla.
     Skólameistari framhaldsskóla ræður kennara í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um framhaldsskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

17. gr.

Skólastjórnendur framhaldsskóla.
     Skólameistari eða rekstraraðili ræður í stjórnunarstörf við framhaldsskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um framhaldsskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

18. gr.

Sérstök tilvik við ráðningar í grunn- og framhaldsskóla.
     Kennsla skal falin kennurum sem þegar hafa ráðningu eftir því sem við verður komið. Skólastjórnendum er heimilt að ráða án auglýsingar kennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis, enda sé afleysingu ætlað að standa skemur en 12 mánuði. Gert er ráð fyrir að sérfræðingar sem sinna kennslu bók- og listnáms á 2.–4. hæfniþrepi og þriðja tungumáls í framhaldsskóla hafi að lágmarki þá hæfni sem krafist er við námslok á stigi 1.2 samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður á viðkomandi fræðasviði.
     Skólastjórnendum er einnig heimilt að ráða án auglýsingar kennara til kennslustarfa sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur sem og til tímabundinna starfa í minna en 1/ 3 hluta starfs og sérfræðinga eða kennara til kennslu sem nemur að hámarki 240 mínútum á viku.

19. gr.

Undanþáguheimild.
     Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við leikskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er kennari. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið kennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar. Ákvörðun um ráðningu á grundvelli þessarar málsgreinar er í höndum sveitarstjórnar eða rekstraraðila í tilvikum sjálfstætt rekinna leikskóla.
     Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við grunn- eða framhaldsskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu geta skólastjórnendur sótt um heimild til Menntamálastofnunar um að lausráða starfsmann til kennslustarfa til eins árs í senn. Menntamálastofnun gefur út heimild til að lausráða starfsmann til kennslustarfa að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara.
     Menntamálastofnun skipar undanþágunefnd kennara til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu vera sex, tveir tilnefndir af heildarsamtökum kennara, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndur af heildarsamtökum framhaldsskóla, einn tilnefndur af samstarfsnefnd um háskólastigið og einn starfsmaður Menntamálastofnunar án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Undanþágunefnd hefur starfsaðstöðu hjá Menntamálastofnun og er kostnaður af starfsemi nefndarinnar greiddur úr ríkissjóði.
     Ef umsækjandi leggur stund á nám til kennsluréttinda er skólastjórnanda í grunn- eða framhaldsskóla heimilt, að fenginni staðfestingu og áætlun um námsframvindu, að ráða umsækjanda til allt að tveggja ára. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið kennari og ekki má endurráða hann að afloknum tveimur árum án undangenginnar auglýsingar. Skólastjórnendum ber að tilkynna til Menntamálastofnunar þegar ráðið er í kennslustarf á grundvelli þessarar heimildar.
     Menntamálastofnun hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum frá skólum um ráðningu í kennslustörf og er skólum skylt að veita þær upplýsingar.
     Skólastjórnendum er ekki skylt að leita til Menntamálastofnunar um heimild til ráðningar í kennslustarf sé um að ræða tilvik sem falla undir 18. gr.
     Málsaðili getur skotið ákvörðun Menntamálastofnunar skv. 2. mgr. til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Menntamálastofnunar.
     Ef hvorki skólastjórnandi né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu kennara í kennslustarf getur skólastjórnandi, þrátt fyrir ákvæði 10. gr., leitað til Menntamálastofnunar og óskað eftir heimild til að lausráða annan einstakling sem ekki er með leyfisbréf. Menntamálastofnun veitir heimild til lausráðningar að fenginni umsögn undanþágunefndar kennara og er þá heimilt að ráða viðkomandi í stöðu leiðbeinanda til eins árs. Óheimilt er að endurráða viðkomandi án undangenginnar auglýsingar nema hann leggi stund á nám til kennsluréttinda, sbr. 4. mgr.
     Starfsreglur undanþágunefndar kennara skal ákveða nánar í reglugerð.

IV. KAFLI
Almenn ákvæði.

20. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008.
     Nemendur sem innritast í kennaranám frá og með skólaárinu 2021–2022 skulu útskrifast af námsbrautum skipulögðum samkvæmt lögum þessum.
     Við innleiðingu laga þessara ber háskólum sem bjóða upp á nám til kennsluréttinda að hafa að leiðarljósi hagsmuni kennaranema sem hófu nám fyrir gildistöku laganna og veita þeim tækifæri á að útskrifast af þeirri námsbraut sem þeir innrituðust á eins og kostur er.
     Áður útgefin leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- eða framhaldsskóla munu, með gildistöku laga þessara, uppfylla skilyrði fyrir leyfisbréfi samkvæmt lögum þessum með sérhæfingu á því skólastigi sem fyrri kennsluréttindi þeirra tóku til.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ráðherra skipar samráðshóp til að fjalla um framkvæmd og innleiðingu laganna. Í hópnum skulu vera fulltrúar leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, Kennarasambands Íslands, skólastjórnenda, menntavísindasviðs Háskóla Íslands og menntavísindasviðs Háskólans á Akureyri. Samráðshópurinn skilar niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir 1. desember 2019 og gerir allsherjar- og menntamálanefnd grein fyrir framvindu starfa sinna fyrir 15. október 2019.

Samþykkt á Alþingi 20. júní 2019.