Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1960, 150. löggjafarþing 720. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, plastvörur).
Lög nr. 90 7. júlí 2020.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, plastvörur).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði laga þessara um plastvörur ná til starfsemi sem felur í sér:
  1. að vörur úr plasti eru settar á markað, og
  2. sölu eða aðra afhendingu á vörum úr plasti í atvinnuskyni.


2. gr.

     Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna:
  1. Plast er efni sem samanstendur af fjölliðu, eins og hún er skilgreind í reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum kann að hafa verið bætt við og getur nýst sem aðalbyggingarefni fullunninnar vöru, þ.m.t. plast sem getur brotnað niður með eðlisfræðilegu og lífrænu niðurbroti, en undanskildar eru náttúrulegar fjölliður sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.
  2. Einnota plastvara er vara sem gerð er úr plasti að öllu leyti eða að hluta til og er ekki hugsuð, hönnuð eða sett á markað til að fara á vistferli sínum í gegnum margar ferðir eða hringrásir þar sem henni er skilað aftur til framleiðanda til enduráfyllingar eða endurnotkunar í sama tilgangi og henni var ætlað upphaflega.
  3. Plast sem er niðurbrjótanlegt með oxun er efni úr plasti sem inniheldur íblöndunarefni sem leiða til þess með oxun að plastefnið sundrast í öragnir eða úr verður efnafræðilegt niðurbrot.
  4. Setja á markað er þegar vara er í fyrsta sinn afhent hér á landi í atvinnuskyni til dreifingar, neyslu eða notkunar, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 7. tölul. orðast svo: plastvörur, m.a. um merkingar einnota plastvara, gerð og samsetningu einnota drykkjaríláta og töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast.
  2. Í stað orðanna „um merkingu og útreikning á notkun þeirra“ í 10. tölul. kemur: um merkingu burðarpoka, útreikning á notkun þeirra og töluleg markmið um notkun burðarpoka úr plasti.


4. gr.

     Við 37. gr. d laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Einnota plastvörur sem settar eru á markað og nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr., skulu vera áberandi, auðlæsilega og óafmáanlega merktar til upplýsingar fyrir neytendur. Á tóbaksvörum skal merking koma til viðbótar áskilinni merkingu samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.

5. gr.

     Við X. kafla A laganna bætast þrjár nýjar greinar, 37. gr. e – 37. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (37. gr. e.)
Bann við að setja tilteknar plastvörur á markað.
     Óheimilt er að setja á markað hverja þá vöru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Þá er óheimilt að setja á markað eftirfarandi einnota plastvörur:
  1. baðmullarpinna, nema þeir falli undir lög um lækningatæki,
  2. hnífapör (gaffla, hnífa, skeiðar og matprjóna),
  3. diska,
  4. sogrör, nema þau falli undir lög um lækningatæki,
  5. hræripinna fyrir drykkjarvörur,
  6. stangir sem ætlaðar eru til að festa við blöðrur og sem halda þeim uppi, nema blöðrur séu til notkunar í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki ætlaðar til dreifingar til neytenda, þ.m.t. búnað á slíkar stangir,
  7. matarílát úr frauðplasti, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á staðnum, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar, þ.m.t. matarílát sem eru notuð undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum,
  8. drykkjarílát úr frauðplasti, þ.m.t. tappa þeirra og lok, og
  9. bolla og glös fyrir drykkjarvörur úr frauðplasti, þ.m.t. lok þeirra.

     
     b. (37. gr. f.)
Afhending tiltekinna einnota plastvara.
     Óheimilt er að afhenda eftirfarandi einnota plastvörur án endurgjalds á sölustöðum:
  1. bolla og glös fyrir drykkjarvörur, þ.m.t. lok þeirra, og
  2. matarílát, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar, en að undanskildum umbúðum sem ætlaðar eru til að vefja utan um matvæli.

     Gjald skal vera sýnilegt á kassakvittun.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um frekari ráðstafanir til að draga úr notkun einnota plastvara, sbr. 1. mgr., svo sem um töluleg markmið til að draga úr notkun þeirra og frekari skyldur í tengslum við sölu eða afhendingu einnota plastvara, t.d. ráðstafanir til að styðja við notkun fjölnota valkosta í stað einnota plastvara.
     
     c. (37. gr. g.)
Gerð og samsetning einnota drykkjaríláta.
     Einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem settar eru á markað skulu að lágmarkshluta gerðar úr endurunnu plasti eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr.

6. gr.

     Fyrirsögn X. kafla A laganna verður: Burðarpokar og plastvörur.

7. gr.

     Á eftir 2. mgr. 51. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Til framfylgdar ákvæðum laga þessara um plastvörur skal Umhverfisstofnun m.a.:
  1. hafa samræmt eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara, sbr. 37. gr. d – 37. gr. g, á landinu öllu, og
  2. útbúa ár hvert áætlun um eftirlit með plastvörum, sbr. 1. tölul., sem gildir fyrir landið allt þar sem gætt er sérstaklega að hagkvæmni í eftirliti og komið í veg fyrir tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt.


8. gr.

     Á eftir 63. gr. laganna kemur ný grein, 63. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stöðvun markaðssetningar vöru.
     Umhverfisstofnun er heimilt að stöðva markaðssetningu plastvöru sem uppfyllir ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Í þessu felst m.a. að Umhverfisstofnun getur tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tilteknar plastvörur varanlega og lagt hald á slíkar vörur. Enn fremur er stofnuninni heimilt að krefjast þess að birgir fargi viðkomandi plastvöru með öruggum hætti, afturkalli vöruna eða geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum.

9. gr.

     Við 1. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: plastvörur, sbr. 2. mgr. 37. gr. d, 37. gr. e, 1. og 2. mgr. 37. gr. f og 37. gr. g.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 3. júlí 2021.

11. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum:
  1. Við lokamálslið 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: eftir atvikum ráðstafana sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lúta að plastvörum.
  2. Við 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna bætist: og, eftir atvikum, ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lúta að plastvörum.
  3. Við 1. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstaklega skal huga að upplýsingagjöf og fræðslu um plastvörur, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er lúta að plastvörum, svo sem um möguleika neytenda á að nota fjölnota vörur í stað einnota, um söfnunarkerfi fyrir plastvörur, um áhrif þess á umhverfið að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar plastvara eftir notkun og um áhrif þess að losa plastúrgang í fráveitu.


Samþykkt á Alþingi 29. júní 2020.